Síður

7.9.11

Eiríkur Örn Norðdahl, Eitur fyrir byrjendur







Ég var einn heima og þá var bankað. Mér varð starsýnt á bilaðan hurðarhúninn, sleikti á mér fingurgómana og strauk síðustu bita eggjakökunnar af disknum, saug bitana af fingrunum. Ég stóð á fætur og lagðist á hnén við dyrnar. Stakk sleiktum fingurgómunum í gegnum bréfalúguna og leit út.


„Halló?“ sagði ég í gegnum bréfalúguna.

„Ha-alló?“ sagði bláklætt karlmannsklof dálítið undrandi á móti. „Ég er með póst fyrir Halldór Sigurðsson.“

„Já. Það er ég“, svaraði ég karlmannsklofinu. „Ég er herra Sigurðsson.“ Ég nuddaði hnjánum við parketið, eins og til að virðast tvístígandi. Bréfalúgan var úr glampandi stáli með hvössum köntum sem mætti skera sig á með góðum vilja.

„Ef þú vildir vera svo vænn að opna fyrir mér þá skal ég láta þig fá póstinn. Mér sýnist þetta vera bók.“

Ég hikaði. Ef ég útskýrði fyrir honum að ég væri læstur inni og væri ekki að gera neitt í því – og það þó ég væri orðinn alltof seinn – þá héldi hann kannski að ég væri eitthvað skrítinn. „Kemst pakkinn ekki í gegnum bréfalúguna?“ sagði ég.

Hann slengdi pakkanum af fullkomnu metnaðarleysi í bréfalúguna, bankaði honum í hurðina. „Nei, það held ég ekki“, sagði hann svo með klofinu. Mér gramdist að hann skildi ekki reyna. Dró til mín fingurna svo bréfalúgan lokaðist. Gretti mig og klóraði mér í lærin með báðum höndum, krepptum hnúum. Spratt svo upp bréfalúgunni að nýju og sagði:


„Viltu ekki reyna?“ 


Hann var snöggur til svars og sagði pirraður: „Vilt þú ekki bara opna?“

„Ég myndi helst vilja að þú reyndir fyrst að koma pakkanum í gegnum bréfalúguna“, sagði ég.

„Þú þarft að borga sendingarkostnað fyrir þetta“, sagði hann.

„Hefurðu áhyggjur af því að debetkortið mitt komist ekki í gegnum bréfalúguna?“

„Borgaðu fyrst. Þá skal ég reyna að koma pakkanum í gegn.“ 


„Jæja þá. Augnablik.“ 


Ég lét aftur bréfalúguna og stóð á fætur í einu andvarpi. Að hurðin skyldi aldrei opna fyrir mér var með því undarlegasta sem ég hafði reynt þegar hér var komið í lífi mínu en ég er ekki viss um að ég hafi áttað mig á því. Ekki fyllilega í öllu falli. Ég var svo innhverfur að veröldin átti erfitt með að komast að í hugsunum mínum.


Jakkinn minn hékk í fatahenginu og í honum var debetkortið mitt. Í leðurveski ásamt líffæragjafarkorti, sundlaugarkorti og kreditkorti sem var löngu útrunnið þó ekki hefði ég enn greitt af síðustu skuldunum.


„Hvað kostar þetta mikið?“, spurði ég þegar ég var aftur kominn á hnén við bréfalúguna.


„Uhh ...“ sagði bréfberaklofið og fletti einhverjum pappírum „Áttahundraðogsextíu krónur.“


„Hvað er eiginlega í pakkanum?“, sagði ég rétt í þá mund sem ég var að fara að renna kortinu mínu í gegnum glampandi lúguna.


„Bók, held ég“, svaraði klofið.


„Já, þú varst búinn að segja það“, sagði ég. „En hvaða bók er þetta, hver er að senda mér þetta. Ég man ekki til þess að hafa búist við bók í dag.“


„Þetta er frá Amazon.“ 


„Netbókabúðinni?“ 


„Já, en ekki hvað?“ 


„Nei, bara“, sagði ég og yppti öxlum svo hann sá ekki til. „Bara vera viss.“ Svo rétti ég honum debetkortið. 


Pakkinn komst auðvitað ekki í gegn. Hann var annað hvort of stór eða bréfalúgan of lítil. Við bréfberinn vorum ráðþrota.

„Hvað viltu að ég geri?“, sagði bréfberinn. 


„Ég vil þú komir pakkanum í gegnum bréfalúguna“, svaraði ég. 


„Geturðu ekki bara opnað dyrnar?“ 


„Nei. Dyrnar verða lokaðar.“ „Hvaða fíflalæti eru þetta? Ég hef fleira að gera í dag en að sinna dyntunum í þér.“ 


Ég fékk það á tilfinninguna að hann væri að tala við fleiri en mig.
Að hann væri jafnvel almennt þreyttur á að sinna dyntum í fólki, honum þætti hann sýna meðborgurum sínum – almennt – mun meira umburðarlyndi en þeir áttu skilið. Kannski átti hann einhvern sér nákominn sem misnotaði góðmennsku hans með reglulegum hætti.

„Ég myndi glaður vilja vera svo vænn, það er ekki það. Treystu mér bara þegar ég segi þér að það er ekki góð hugmynd að opna þessar dyr.“


Eiríkur Örn Norðdahl: Eitur fyrir byrjendur
Myndina af Eiríki tók Aino Huovio