Síður

14.7.12

Brennu-Njáls saga, Húskarlavígin




35. kafli

Það var siðvenja þeirra Gunnars og Njáls að sinn vetur þá hvor þeirra heimboð að öðrum og veturgrið fyrir vináttu sakir. Nú átti Gunnar að þiggja veturgrið að Njáli og fóru þau Hallgerður til Bergþórshvols. Þá voru þau Helgi eigi heima. Njáll tók vel við þeim Gunnari. Og þá er þau höfðu þar verið nokkura hríð kom Helgi heim og Þórhalla kona hans.

Þá gekk Bergþóra að pallinum og Þórhalla með henni og mælti Bergþóra til Hallgerðar: "Þú skalt þoka fyrir konu þessi."

Hún svarar: "Hvergi mun eg þoka því að engi hornkerling vil eg vera."

"Eg skal hér ráða," sagði Bergþóra.

Síðan settist Þórhalla niður.

Bergþóra gekk að borðinu með handlaugar.

Hallgerður tók höndina Begþóru og mælti: "Ekki er þó kosta munur með ykkur Njáli. Þú hefir kartnagl á hverjum fingri en hann er skegglaus."

"Satt er það," sagði Bergþóra, "en hvortgi okkart gefur það öðru að sök. En eigi var skegglaus Þorvaldur bóndi þinn og réðst þú þó honum bana."

"Fyrir lítið kemur mér," segir Hallgerður, "að eiga þann mann er vaskastur er á Íslandi ef þú hefnir eigi þessa Gunnar."

Hann spratt upp og steig fram yfir borðið og mælti: "Heim mun eg fara og er það maklegast að þú sennir við heimamenn þína en eigi í annarra manna híbýlum enda á eg Njáli marga sæmd að launa og mun eg ekki vera eggjanarfífl þitt."

Síðan fóru þau heim.

"Mun þú það Bergþóra," sagði Hallgerður, "að við skulum eigi skildar."

Bergþóra sagði að ekki skyldi hennar hlutur batna við það. Gunnar lagði ekki til og fór heim til Hlíðarenda og var heima allan þann vetur í gegnum. Líður nú á sumarið og allt til þings framan.


36. kafli
Gunnar ríður til þings. En áður en hann reið heiman mælti hann til Hallgerðar: "Ver þú dæl meðan eg er heiman og sýn af þér enga fárskapi þar sem við vini mína er um að eiga."

"Tröll hafi þína vini," segir hún.

Gunnar ríður til þings og sá að eigi var gott orðum við hana að koma. Njáll reið til þings og synir hans allir.

Nú er frá því að segja hvað heima er tíðinda. Þeir áttu skóg saman, Njáll og Gunnar, í Rauðaskriðum. Þeir höfðu eigi skipt skóginum en hvor var vanur að höggva sem þurfti og taldi hvorgi á annan um það.

Kolur hét verkstjóri Hallgerðar. Hann hafði verið með henni lengi og var hið mesta illmenni.

Svartur hét maður. Hann var húskarl Njáls og Bergþóru og líkaði þeim við hann vel. Bergþóra mælti við hann að hann skyldi fara í Rauðaskriður og höggva skóg "en eg mun fá til menn að draga heim viðinn."

Hann kveðst vinna mundu það er hún legði fyrir hann. Hann fór upp í Rauðaskriður. Tekur hann þar og höggur skóg og skyldi þar að vera viku.

Snauðir menn komu til Hlíðarenda austan frá Markarfljóti og sögðu að Svartur hafði verið í Rauðaskriðum og höggvið skóg og gert mikið að.

"Svo mun Bergþóra til ætla," segir Hallgerður, "að ræna mig mörgu en því skal eg ráða að hann höggvi eigi oftar."

Rannveig heyrði, móðir Gunnars, og mælti: "Þó hafa húsfreyjur þótt góðar austur hér að ekki hafi staðið í mannráðum."

Nú leið af nóttin og um morguninn kom Hallgerður að máli við Kol og mælti: "Verk hefi eg þér hugað" og fékk honum öxi. "Far þú í Rauðaskriður. Þar munt þú finna Svart."

"Hvað skal eg honum?" segir hann.

"Spyr þú að því," segir hún, "þar sem þú ert hið mesta illmenni? Drepa skalt þú hann," segir hún.

"Gert mun eg það geta," segir hann, "en það er þó líkast að eg gefi mig við."

"Vex þér hvetvetna í augu," segir hún, "og fer þér illa þar sem eg hefi mælt eftir þér hvern hlut. Mun eg fá til annan mann að gera þetta ef þú þorir eigi."

Hann tók öxina og var reiður mjög og tekur hest er Gunnar átti og ríður þar til er hann kemur austur að Markarfljóti. Hann steig þar af baki og beið í skóginum þar til er þeir höfðu borið ofan viðinn og Svartur var einn eftir.

Hleypur Kolur þá að honum og mælti: "Fleiri munu kunna að höggva stórt en þú einn" og setti öxina í höfuð honum og hjó hann banahögg og ríður heim síðan og segir Hallgerði vígið.

"Njót heill handa," segir hún, "og skal eg þig svo varðveita að þig skal ekki saka."

"Vera má það," segir hann, "en hinn veg dreymdi mig þó áður en eg vó vígið."

Nú koma þeir upp í skóginn og finna Svart veginn og flytja hann heim.

Hallgerður sendi mann til þings að segja Gunnari vígið. Gunnar hallmælti Hallgerði ekki um fyrir sendimanninum og vissu menn eigi hvort honum þótti vel eða illa. Litlu síðar stóð hann upp og bað menn sína ganga með sér. Þeir gerðu svo og fóru til búðar Njáls. Gunnar sendi mann eftir Njáli og bað hann út koma. Njáll gekk út þegar og gengu þeir Gunnar á tal.

Gunnar mælti: "Víg hefi eg að segja þér og hefir valdið Hallgerður kona mín en vegið hefur Kolur verkstjóri minn en fyrir hefir orðið Svartur húskarl þinn."

Njáll þagði meðan Gunnar sagði söguna.

Þá mælti Njáll: "Þurfa munt þú að láta hana eigi öllu fram koma."

Gunnar mælti: "Sjálfur skalt þú dæma."

Njáll mælti: "Erfitt mun þér verða að bæta öll slys Hallgerðar og mun annars staðar meira slóða draga en hér er við eigum hlut að og mun hér þó mikið á vanta að vel sé og munum við þess þurfa að muna það er við höfum lengi vel við mælst. Og væntir mig að þér fari vel en þó munt þú verða mjög að þreyttur."

Njáll tók sjálfdæmi af Gunnari og mælti: "Ekki mun eg halda máli þessu til kapps. Þú skalt gjalda tólf aura silfurs. En það vil eg til skilja þó að nokkuð komi það úr vorum garði er þér eigið um að gera að þér stillið eigi verr gerðinni."

Gunnar sagði það maklegt vera. Gunnar greiddi af hendi féið vel og reið heim síðan.

Njáll kom heim af þingi og synir hans.

Bergþóra sá féið og mælti: "Vel er þessu í hóf stillt en jafnmikið fé skal koma fyrir Kol er stundir líða."

Gunnar kom heim af þingi og taldi á Hallgerði. Hún kallaði betri menn óbætta liggja margstaðar. Gunnar kvað hana ráða mundu tiltekjum sínum "en eg skal ráða hversu málin lúkast."

Hallgerður hældist jafnan um víg Svarts en Bergþóru líkaði það illa.

Njáll fór upp í Þórólfsfell og synir hans að skipa þar til bús. En þann sama dag varð sá atburður er Bergþóra var úti að hún sér mann ríða að garði svörtum hesti. Hún nam staðar og gekk eigi inn. Hún kenndi eigi manninn. Sjá maður hafði spjót í hendi og gyrður saxi. Hún spurði þenna mann að nafni.

"Atli heiti eg," sagði hann.

Hún spurði hvaðan hann væri.

"Eg er austfirskur maður," segir hann.

"Hvert skalt þú fara?" segir hún.

"Eg er maður vistlaus," segir hann, "og ætlaði eg að finna Njál og Skarphéðinn og vita ef þeir vildu taka við mér."

"Hvað er þér hentast að vinna?" segir hún.

"Eg er akurgerðarmaður og margt er mér vel hent að gera," segir hann, "en eigi vil eg því leyna að eg er maður skapharður og hefir jafnan hlotið um sárt að binda fyrir mér."

"Ekki gef eg þér það að sök," segir hún, "þótt þú sért engi bleyðimaður."

Atli mælti: "Ert þú nokkurs ráðandi hér?"

"Eg er kona Njáls," segir hún, "og ræð eg ekki síður hjón en hann."

"Vilt þú taka við mér?" segir hann.

"Gera mun eg kost á því," segir hún, "ef þú vilt vinna allt það er eg legg fyrir þig og svo þó að eg vilji senda þig til mannráða."

"Átt þú svo til varið um menn," segir hann, "að þú munt ekki mín þurfa að því að kosta."

"Það skil eg er eg vil," segir hún.

"Kaupa munum við að þessu," sagði hann.

Þá tók hún við honum.

Njáll kom heim og synir hans. Njáll spurði Bergþóru hvað manna sjá væri.

"Hann er húskarl þinn," segir hún, "og tók eg við honum því að hann lést vera óhandlatur."

"Ærið mun hann stórvirkur," segir Njáll, "en eigi veit eg hvort hann er svo góðvirkur."

Skarphéðinn var vel til Atla.

Njáll ríður til þings um sumarið og synir hans. Gunnar var á þingi. Njáll tók upp fésjóð er hann hafði heiman.

Skarphéðinn spyr: "Hvað fé er það faðir?"

"Hér er fé það," segir Njáll, "er Gunnar greiddi mér fyrir heimamann vorn fyrra sumar."

"Koma mun það til nokkurs," sagði Skarphéðinn og glotti við.


37. kafli
Nú er að taka til heima að Atli spurði Bergþóru hvað hann skyldi vinna um daginn.

"Hugað hefi eg þér verkið," segir hún. "Þú skalt fara að leita Kols þar til er þú finnur hann því að nú skalt þú vega hann í dag ef þú vilt minn vilja gera."

"Hér er vel á komið," segir Atli, "því að hvortveggi okkar er illmenni. En þó skal eg svo til hans ráða að annar hvor okkar skal deyja."

"Vel mun þér fara," segir hún, "og skalt þú eigi til engis vinna."

Hann gekk og tók vopn sín og hest og reið í braut. Hann reið upp til Fljótshlíðar og mætti þar mönnum er fóru frá Hlíðarenda. Þeir áttu heima austur í Mörk. Þeir spurðu Atla hvert hann ætlaði. Hann kveðst ríða að leita klárs eins.

Þeir kváðu það lítið erindi slíkum verkmanni "en þó er þá helst eftir að spyrja er á ferli hafa verið í nótt."

"Hverjir eru þeir?" segir hann.

"Víga-Kolur húskarl Hallgerðar," sögðu þeir, "hann fór frá seli áðan og hefir vakað í alla nótt."

"Eigi veit eg hvort eg þori að finna hann," segir Atli. "Hann er skapillur og búið eg láti annars víti að varnaði."

"Hinn veg værir þú undir brún að líta," segja þeir, "sem þú mundir eigi vera ragur" og vísuðu honum til Kols.

Hann keyrir þá hest sinn og ríður mikinn.

Og er hann mætir Kol mælti Atli til hans: "Gengur vel klyfjabandið?" segir Atli.

"Það mun þig skipta engu mannfýlan," segir Kolur, "og engan þann er þaðan er."

Atli mælti: "Það átt þú eftir er erfiðast er, en það er að deyja."

Síðan lagði Atli spjóti til hans og kom á hann miðjan. Kolur sveiflaði til hans öxi og missti hans. Síðan féll Kolur af baki og dó þegar.

Atli reið þar til er hann fann verkmenn Hallgerðar og mælti: "Farið upp til hests Kols og geymið hans. Kolur er fallinn af baki og er hann dauður."

"Hefir þú vegið hann?" sögðu þeir.

Hann svarar: "Svo mun Hallgerði sýnast sem hann hafi eigi sjálfdauður orðið."

Síðan reið Atli heim og segir Bergþóru vígið. Hún þakkar honum verk þetta og orð þau sem hann hafði um haft.

"Eigi veit eg," segir Atli, "hversu Njáli mun þykja."

"Vel mun hann í höndum hafa," segir hún, "og mun eg segja þér eitt til marks um að hann hefir haft til þings þrælsgjöld þau er vér tókum við fyrra sumar og munu þau nú koma fyrir Kol. En þó að sættir verði þá skalt þú þó vera var um þig því að Hallgerður mun engar sættir halda."

"Vilt þú nokkuð senda mann til Njáls," segir Atli, "að segja honum vígið?"

"Eigi vil eg það," segir hún. "Mér þætti betur að Kolur væri ógildur."

Þau hættu þá talinu.

Hallgerði var sagt víg Kols og ummæli Atla. Hún kvaðst launa skyldu Atla. Hún sendi mann til þings að segja Gunnari víg Kols. Hann svaraði fá og sendi mann að segja Njáli. Hann svaraði engu.

Skarphéðinn mælti: "Miklu eru þrælar aðgerðameiri en fyrr hafa verið. Þeir flugust þá á og þótti það ekki saka en nú vilja þeir vegast" og glotti við.

Njáll kippti ofan fésjóðum er uppi var í búðinni og gekk út. Synir hans gengu með honum. Þeir komu til búðar Gunnars.

Skarphéðinn mælti við mann er stóð í búðardyrunum: "Seg þú Gunnari að faðir minn vill finna hann."

Sá segir Gunnari. Gunnar gekk út þegar og fagnaði vel Njáli og sonum hans. Síðan gengu þeir á tal.

"Illa hefir nú orðið," segir Njáll, "er húsfreyja mín skal hafa rofið grið og látið drepa húskarl þinn."

"Ekki ámæli skal hún af þessu hafa," segir Gunnar.

"Dæm þú nú málið," segir Njáll.

"Svo mun eg gera," segir Gunnar. "Læt eg þá vera menn jafndýra, Svart og Kol. Skalt þú greiða mér tólf aura silfurs."

Njáll tók fésjóðinn og seldi Gunnari. Hann kenndi féið að það var hið sama sem hann hafði greitt Njáli. Fór Njáll nú til búðar sinnar og var jafnvel með þeim síðan sem áður.

Þá er Njáll kom heim taldi hann á Bergþóru en hún kvaðst aldrei vægja skyldu fyrir Hallgerði.

Hallgerður leitaði á Gunnar mjög er hann hafði sæst á vígið. Gunnar kveðst aldrei bregðast skyldu Njáli né sonum hans. Hún geisaði mjög. Gunnar gaf ekki gaum að því.

Svo gættu þeir til á þeim misserum að ekki varð að.


38. kafli
Um vorið ræddi Njáll við Atla: "Það vildi eg að þú réðist austur í fjörðu að eigi skapi Hallgerður þér aldur."

"Ekki hræðist eg það," segir Atli, "og vil eg heima vera ef eg á kosti."

"Það er þó óráðlegra," segir Njáll.

"Betra þykir mér að látast í þínu húsi," segir Atli, "en skipta um lánardrottna. En þess vil eg biðja þig ef eg er veginn að eigi komi þrælsgjöld fyrir mig."

"Svo skal þig bæta sem frjálsan mann," segir Njáll, "en Bergþóra mun þér því heita sem hún mun efna að fyrir þig munu komu mannhefndir."

Réðst Atli þar þá að hjóni.

Nú er að segja frá Hallgerði að hún sendi mann vestur til Bjarnarfjarðar eftir Brynjólfi rósta frænda sínum. Hann var sonur Svans laungetinn. Hann var hið mesta illmenni. Gunnar vissi ekki til þessa. Hallgerður kvað hann sér vel fallinn til verkstjóra. Brynjólfur kom vestan og spurði Gunnar hvað hann skyldi. Hann kveðst þar vera skyldu.

"Ekki munt þú bæta híbýli vor," segir Gunnar, "svo er mér frá þér sagt. En ekki mun eg vísa í braut frændum Hallgerðar þeim er hún vill að með henni séu."

Gunnar var til hans fár og ekki illa.

Leið nú svo fram til þings.

Gunnar reið til þings og Kolskeggur með honum. Og er þeir komu til þings fundust þeir Gunnar og Njáll og synir hans. Áttust þeir margt við og vel.

Bergþóra mælti við Atla: "Far þú upp í Þórólfsfell og vinn þar viku."

Hann fór upp þangað og var þar á laun og brenndi kol í skógi.

Hallgerður mælti við Brynjólf: "Það er mér sagt að Atli sé eigi heima og mun hann vinna verk í Þórólfsfelli."

"Hvað þykir þér líkast að hann vinni?" segir hann.

"Í skógi nokkuð," segir hún.

"Hvað skal eg honum?" segir hann.

"Drepa skalt þú hann," segir hún.

Hann varð um fár.

"Minnur mundi Þjóstólfi í augu vaxa," segir hún, "ef hann væri á lífi að drepa Atla."

"Ekki skalt þú hér enn þurfa mjög á að frýja," segir hann.

Tók hann þá vopn sín og hest, stígur á bak og ríður í Þórólfsfell. Hann sá kolreyk mikinn austur frá bænum. Ríður hann þangað til, stígur af baki hestinum og bindur hann en hann gengur þar sem mestur er reykurinn. Sér hann þá hvar kolgröfin er og er þar maður við. Hann sá að hann hafði sett spjót í völlinn hjá sér. Bryjólfur gengur með reykinum allt að honum en hann var óður að verki sínum og sá hann eigi Brynjólf. Brynjólfur hjó í höfuð honum með öxi. Hann brást við svo fast að Brynjólfur lét lausa öxina. Þá þreif Atli spjótið og skaut eftir honum. Brynjólfur kastaði sér niður við vellinum en spjótið flaug yfir hann fram.

"Naust þú nú þess er eg var eigi við búinn," segir Atli, "en nú mun Hallgerði vel þykja. Þú munt segja dauða minn. En það er til bóta að þú munt slíkan á baugi eiga brátt enda tak þú nú öxi þína er hér hefir verið."

Brynjólfur svaraði engu og tók öxina eigi fyrr en Atli var dauður, reið þá heim í Þórólfsfell og sagði vígið. Síðan reið hann heim til Hlíðarenda og sagði Hallgerði. Hún sendi mann til Bergþórshvols og lét segja Bergþóru að nú var launað víg Kols.

Síðan sendi Hallgerður mann til þings að segja Gunnari víg Atla. Gunnar stóð upp og Kolskeggur með honum.

Kolskeggur mælti: "Óþarfir munu þér verða frændur Hallgerðar."

Þeir gengu til fundar við Njál.

Gunnar mælti: "Víg Atla hefi eg að segja þér" og segir honum hver vó "og vil eg nú bjóða þér bót fyrir og vil eg að þú gerir sjálfur."

Njáll mælti: "Það höfum við ætlað að láta okkur ekki á greina en þó mun eg eigi gera hann að þræli."

Gunnar kvað það vel vera og rétti fram höndina. Njáll nefndi sér votta og sættust að þessu.

Skarphéðinn mælti: "Ekki lætur Hallgerður verða ellidauða húskarla vora."

Gunnar mælti: "Svo mun móðir þín til ætla að ýmsir eigi högg í garði."

"Ærið bragð mun að því," segir Njáll.

Síðan gerði Njáll hundrað silfurs en Gunnar galt þegar. Margir mæltu er hjá stóðu að mikið væri gert.

Gunnar reiddist og kvað þá bætta fullum bótum er eigi væru vaskari menn er Atli var. Riðu þeir við það heim af þingi.

Bergþóra ræddi við Njál er hún sá féið: "Efnt þykist þú hafa heitin þín en nú eru eftir mín heit."

"Eigi er nauðsyn á að þú efnir þau," segir Njáll.

"Hins hefir þú þó til getið," sagði hún, "og svo skal vera."

Í annan stað mælti Hallgerður við Gunnar: "Hefir þú goldið hundrað silfurs fyrir víg Atla og gert hann að frjálsum manni?"

"Frjáls var hann áður," segir Gunnar, "enda skal eg ekki gera að óbótamönnum heimamenn Njáls."

"Jafnkomið mun á með ykkur Njáli er hvortveggji er blauður," segir hún.

"Það er sem reynist," segir hann.

Var þá Gunnar lengi fár við hana þar til er hún lét til við hann.

Nú er kyrrt þau misseri. Um vorið jók Njáll ekki hjón sín. Nú ríða menn til þings um sumarið.


39. kafli
Þórður hét maður. Hann var kallaður leysingjason. Sigtryggur hét faðir hans og hafði hann verið leysingi Ásgerðar og drukknaði hann í Markarfljóti. Var Þórður því með Njáli síðan. Hann var mikill maður og styrkur. Hann hafði fóstrað alla sonu Njáls. Þórður lagði hug á frændkonu Njáls er Guðfinna hét Þórólfsdóttir. Hún var matselja heima þar og var þá óhraust.

Bergþóra kom að máli við Þórð leysingjason: "Þú skalt fara," segir hún, "og drepa Brynjólf frænda Hallgerðar."

"Engi er eg vígamaður," segir hann, "en þó mun eg til hætta ef þú vilt."

"Það vil eg," segir hún.

Síðan tók hann hest og reið upp til Hlíðarenda og lét kalla Hallgerði út og spurði hvar Brynjólfur væri.

"Hvað vilt þú honum?" segir hún.

Hann mælti: "Eg vil að hann segi mér hvar hann hefir hulið hræ Atla. Mér er sagt að hann hafi illa um búið."

Hún vísaði til hans og kvað hann vera í Akratungu niðri.

"Gæt þú," segir Þórður, "að honum verði eigi slíkt sem Atla."

"Engi ert þú vígamaður," segir hún, "og mun ekki undir hvar þið finnist."

"Aldrei hefi eg séð mannsblóð," segir hann, "og veit eg eigi hversu mér bregður við" og hleypti úr túninu og svo ofan í Akratungu.

Rannveig móðir Gunnars hafði heyrt á viðurtal þeirra og mælti: "Mjög frýr þú Hallgerður honum hugar en eg ætla hann öruggan mann og mun það frændi þinn finna."

Þeir mættust á förnum vegi, Brynjólfur og Þórður.

Þórður mælti: "Ver þú þig Brynjólfur því að eg vil eigi níðast á þér."

Bryjólfur reið að Þórði og hjó til hans. Þórður hjó í mót með öxi og í sundur skaptið fyrir framan hendur honum Brynjólfi og hjó þegar í annað sinn til hans og kom framan á bringuna og gekk þegar á hol. Féll Brynjólfur þá af baki og var þegar dauður. Þórður fann smalamann Hallgerðar og lýsti vígi á hönd sér og sagði hvar Brynjólfur lá og bað hann segja Hallgerði vígið. Síðan reið hann til Bergþórshvols og sagði Bergþóru vígið og öðrum mönnum.

"Njót þú heill handa," sagði hún.

Smalamaður sagði Hallgerði vígið. Hún varð beisk við og kvað hér skyldu mikið illt af leiða ef hún mætti ráða.


40. kafli
Nú koma tíðindin til þings og lét Njáll segja sér þrem sinnum og mælti síðan: "Fleiri gerast nú vígamenn en eg ætlaði."

Skarphéðinn mælti: "Sjá maður hefir þó helst hraðfeigur verið er látist hefir fyrir fóstra vorum er aldrei hefir séð mannsblóð og mundu það margir ætla að vér bræður mundum þetta fyrri gert hafa að því skaplyndi sem vér höfum."

"Skammt munt þú til þess eiga," segir Njáll, "að þig mun slíkt henda og mun þig þó nauður til reka."

Þeir gengu þá til móts við Gunnar og sögðu honum vígið.

Gunnar sagði að það var lítill mannskaði "en þó var hann frjáls maður."

Njáll bauð honum þegar sættina. Gunnar játti því og skyldi hann sjálfur dæma. Hann dæmdi þegar og gerði hundrað silfurs. Njáll galt þegar féið og sættust að því.


41. kafli
Sigmundur hét maður. Hann var Lambason Sighvatssonar hins rauða. Hann var farmaður mikill, kurteis maður og vænn, mikill og sterkur. Hann var metnaðarmaður mikill og skáld gott og að flestum íþróttum vel búinn, hávaðamaður mikill, spottsamur og ódæll. Hann kom út austur í Hornafirði. Skjöldur hét félagi hans. Hann var sænskur maður og illur viðureignar. Þeir fengu sér hesta og riðu austan úr Hornafirði og luku eigi ferð sinni fyrr en þeir komu í Fljótshlíð til Hlíðarenda. Gunnar tók við þeim vel. Var þar frændsemi mikil með þeim Sigmundi. Gunnar bauð Sigmundi að vera þar um veturinn. Sigmundur kvaðst það þiggja mundu ef Skjöldur væri þar, félagi hans.

"Svo er mér frá honum sagt," sagði Gunnar, "að hann sé þér engi skapbætir en þú þarft hins heldur að bætt sé um með þér. Er hér og vönd vistin. Vildi eg ráða yður ráð frændum mínum að þér hlypuð eigi upp við frameggjan Hallgerðar konu minnar því að hún tekur það margt upp er fjarri er mínum vilja."

"Veldurat sá er varar," segir Sigmundur.

"Þá er að gæta ráðsins," segir Gunnar, "en mjög munt þú verða reyndur og gakk með mér jafnan og hlít mínum ráðum."

Síðan voru þeir í fylgd með Gunnari.

Hallgerður var vel til Sigmundar og þar kom að þar gerðist svo mikill ákafi að hún bar fé á hann og þjónaði honum eigi verr en bónda sínum. Og lögðu margir það til orðs og þóttust eigi vita hvað undir mundi búa.

Hallgerður mælti við Gunnar: "Eigi er gott við að una við það hundrað silfurs er þú tókst fyrir Brynjólf frænda minn enda skal eg hefna hans láta ef eg má," segir hún.

Gunnar kvaðst ekki vilja skipta orðum við hana og gekk í braut. Hann fann Kolskegg og mælti til hans: "Far þú og finn Njál og seg honum að Þórður sé var um sig þó að sættir séu því að mér þykir eigi trúlega vera."

Hann reið og sagði Njáli en Njáll sagði Þórði. Kolskeggur reið heim og þakkaði Njáll þeim trúleika sína.

Það var einu hverju sinni að þeir sátu úti, Njáll og Þórður. Þar var vanur að ganga hafur um túnið og skyldi engi hann í braut reka.

Þórður mælti: "Undarlega bregður nú við."

"Hvað sérð þú þess er þér þykir með undarlegu móti vera?" segir Njáll.

"Mér þykir hafurinn liggja hér í dælinni og er alblóðugur allur."

Njáll kvað þar vera eigi hafur og ekki annað.

"Hvað er það þá?" segir Þórður.

"Þú munt vera maður feigur," segir Njáll, "og munt þú séð hafa fylgju þína og ver þú var um þig."

"Ekki mun mér það stoða," segir Þórður, "ef mér er það ætlað."

Hallgerður kom að máli við Þráin Sigfússon og mælti: "Mágur þætti mér þú vera ef þú dræpir Þórð leysingjason."

"Eigi mun eg það gera," segir hann, "því að þá mun eg hafa reiði Gunnars frænda míns. Mun og þar stórt á liggja því að vígs þess mun brátt hefnt verða."

"Hver mun hefna," segir hún, "hvort karl hinn skegglausi?"

"Eigi mun það," segir hann, "synir hans munu hefna."

Síðan töluðu þau lengi hljótt og vissi engi maður hvað þau höfðu í ráðagerðum.

Einu sinni var það að Gunnar var eigi heima. Þá var Sigmundur heima og þeir félagar. Þar var kominn Þráinn frá Grjótá. Þá sátu þau Hallgerður úti og töluðu.

Þá mælti Hallgerður: "Því hafið þið heitið félagar Sigmundur og Skjöldur að drepa Þórð leysingjason fóstra Njálssona en þú hefir mér því heitið Þráinn að vera við staddur."

Þeir gengu við allir að þeir höfðu þessu heitið henni.

"Nú mun eg gefa ráðið til," sagði hún. "Þið skuluð ríða austur í Hornafjörð eftir fé ykkru og koma heim um þing öndvert en ef þið eruð heima mun Gunnar vilja að þið ríðið til þings með honum. Njáll mun vera á þingi og synir hans og svo Gunnar. En þið skuluð þá drepa Þórð."

Þeir játtu að þessi ráðagerð skyldi fram koma. Síðan bjuggust þau austur í fjörðu og varaðist Gunnar það ekki og reið Gunnar til þings.

Njáll sendi Þórð leysingjason austur undir Eyjafjöll og bað hann vera í brautu eina nótt. Hann fór austur og gaf honum eigi austan því að fljótið var svo mikið að langt var um óreitt. Njáll beið hans eina nótt því að hann ætlaði að hann skyldi riðið hafa til þings með honum. Njáll mælti við Bergþóru að hún skyldi senda Þórð til þings þegar hann kæmi heim. Tveim nóttum síðar kom Þórður austan.

Bergþóra sagði honum að hann skyldi til þings ríða "en nú skalt þú fyrst fara upp í Þórólfsfell og sjá þar um bú og vera þar eigi lengur en eina nótt eða tvær."


42. kafli
Sigmundur kom austan og þeir félagar. Hallgerður sagði þeim að Þórður var heima en hann skyldi þegar til þings ríða á fárra nátta fresti.

"Mun ykkur nú færi á við hann," segir hún, "en ef þetta ber undan náið þið honum eigi."

Menn komu til Hlíðarenda frá Þórólfsfelli og sögðu Hallgerði að Þórður var þar.

Hallgerður gekk til Þráins og Sigmundar og mælti: "Nú er Þórður í Þórólfsfelli og er yður nú ráð að vega að honum er hann fer heim."

"Það skulum vér nú gera," segir Sigmundur.

Gengu þeir þá út og tóku vopn sín og hesta og riðu á leið fyrir hann.

Sigmundur mælti til Þráins: "Nú skalt þú ekki að gera því að oss mun eigi alla til þurfa."

"Svo mun eg gera," segir hann.

Þá reið Þórður að þeim litlu síðar.

Sigmundur mælti til hans: "Gef þú upp vopn þín því að nú skalt þú deyja."

"Eigi skal það," segir Þórður, "gakk þú til einvígis við mig."

"Eigi skal það," segir Sigmundur, "þess skulum vér njóta að vér erum fleiri. En eigi er kynlegt að Skarphéðinn sé hraustur því að það er mælt að fjórðungi bregði til fósturs."

"Að því mun þér verða," segir Þórður, "því að Skarphéðinn mun mín hefna."

Síðan sækja þeir að honum og brýtur hann spjót fyrir hvorumtveggja þeirra. Svo varðist hann vel. Þá hjó Skjöldur af honum höndina og varðist hann þá með annarri nokkura stund þar til er Sigmundur lagði í gegnum hann. Féll hann þá dauður til jarðar. Þeir báru að honum torf og grjót.

Þráinn mælti: "Vér höfum illt verk unnið og munu synir Njáls illa kunna víginu þá er þeir spyrja."

Þeir riðu heim og sögðu Hallgerði. Hún lét vel yfir víginu.

Rannveig mælti, móðir Gunnars: "Það er mælt Sigmundur að skamma stund verður hönd höggi fegin enda mun hér svo. En þó mun Gunnar leysa þig af þessu máli. En ef Hallgerður kemur annarri flugu í munn þér þá verður það þinn bani."

Hallgerður sendi mann til Bergþórshvols að segja vígið en annan sendi hún til þings að segja Gunnari. Bergþóra kvaðst ekki mundu berja Hallgerði illyrðum um slíkt, kvað það enga hefnd fyrir svo mikið mál.


43. kafli
En er sendimaður kom til þings að segja Gunnari vígið þá mælti Gunnar: "Þetta er illa orðið og eigi kæmu þau tíðindi til eyrna mér að mér þættu verri. En þó skulum vér nú fara þegar að finna Njál og væntir mig að honum fari enn vel þó að hann sé mjög að þreyttur."

Gengu þeir þá á fund Njáls og kölluðu hann til máls við sig. Hann gekk þegar til fundar við Gunnar. Þeir töluðu og var ekki manna við fyrst nema Kolskeggur.

"Hörð tíðindi hefi eg að segja þér," segir Gunnar, "víg Þórðar leysingjasonar. Vil eg bjóða þér sjálfdæmi fyrir vígið."

Njáll þagði nokkurt skeið og mælti síðan: "Vel er slíkt boðið," segir hann, "og mun eg það taka. En þó er eigi örvænt að eg hafi ámæli af konu minni eða sonum mínum fyrir þetta því að þeim mun mjög mislíka. En þó mun eg á það hætta því að eg veit að eg á við dreng um. Vil eg og eigi að af mér standi afbrigð okkarrar vináttu."

"Vilt þú nokkuð sonu þína við láta vera?" segir Gunnar.

"Ekki," segir Njáll, "því að eigi munu þeir rjúfa þá sátt er eg geri. En ef þeir eru við staddir þá munu þeir ekki saman draga."

"Svo mun vera," segir Gunnar. "Sjá þú einn fyrir."

Þeir tókust þá í hendur og sættust vel og skjótt.

Þá mælti Njáll: "Tvö hundruð silfurs geri eg og mun þér mikið þykja."

"Eigi þykir mér þetta of mikið," segir Gunnar og gekk heim til búðar sinnar.

Synir Njáls komu heim til búðar og spurði Skarphéðinn hvaðan fé það hið mikla og hið góða kæmi er faðir hans hélt á.

Njáll mælti: "Eg segi yður víg Þórðar fóstra yðvars og höfum við Gunnar nú sæst á málið og hefir hann tvennum manngjöldum bætt hann."

"Hverjir hafa vegið hann?" segir Skarphéðinn.

"Sigmundur og Skjöldur en Þráinn var þó nær staddur," segir Njáll.

"Mikils þótti þeim við þurfa," segir Skarphéðinn, "en hvar skal þá komið er vér skulum handa hefja?"

"Skammt mun til þess," segir Njáll, "og munt þú þá eigi þess lattur en þó þykir mér mikið undir að þér rjúfið eigi þessa sætt."

"Svo munum vér þá gera," segir Skarphéðinn, "en ef til verður nokkuð með oss þá munum vér minnast á hinn forna fjandskap."

"Engis mun eg þá um beiða," segir Njáll.


44. kafli
Nú ríða menn heim af þingi. Og er Gunnar kom heim mælti hann til Sigmundar: "Meiri ert þú ógiftumaður en eg ætlaði og hefir þú til ills þína mennt. En þó hefi eg nú gervan þig sáttan við Njál og sonu hans og skyldir þú nú eigi annarri flugu láta koma í munn þér. Ert þú mér ekki skaplíkur. Þú ferð með spott og háð en það er ekki mitt skap. Kemur þú þér því vel við Hallgerði að þið eigið meir skap saman."

Gunnar taldi á hann langa hríð en Sigmundur svaraði honum vel og kvaðst meir hans ráðum skyldu fram fara þaðan af en þar til hafði verið. Gunnar sagði honum þá hlýða mundu. Hélst með því nokkura hríð.

Jafnan mæltust þeir vel við, Gunnar og Njáll og synir hans, þó að fátt væri meðal annars liðsins.

Sá atburður varð að farandi konur komu til Hlíðarenda frá Bergþórshvoli. Þær voru málgar og heldur illorðar. Hallgerður sat í dyngju því að hún var því vön. Þar var Þorgerður dóttir hennar og Þráinn. Þar var og Sigmundur og fjöldi kvenna. Gunnar var eigi þar né Kolskeggur. Farandkonur þessar gengu inn í dyngjuna. Hallgerður heilsaði þeim og lét gefa þeim rúm. Hún spurði að tíðindum en þær kváðust engi segja. Hallgerður spurði hvar þær hefðu verið um nóttina. Þær sögðust verið hafa að Bergþórshvoli.

"Hvað hafðist Njáll að?" segir Hallgerður.

"Stritaðist hann við að sitja," sögðu þær.

"Hvað gerðu synir Njáls?" sagði Hallgerður, "þeir þykjast helst menn."

"Miklir eru þeir að vallarsýn en óreyndir eru þeir mjög," sögðu þær. "Skarphéðinn hvatti öxi, Grímur skefti spjót, Helgi hnauð hjalt á sverð, Höskuldur treysti mundriða í skildi."

"Til stórræða nokkurra munu þeir ætla," segir Hallgerður.

"Eigi vitum við það," segja þær.

"Hvað gerðu húskarlar Njáls?" segir Hallgerður.

Þær svöruðu: "Eigi vissum við hvað sumir gerðu en einn ók skarni á hóla."

"Hví mundi það sæta?" segir Hallgerður.

Þær svöruðu: "Það sagði hann að þar yrði taða betri en annars staðar."

"Misvitur er Njáll," segir Hallgerður, "þar er hann kann til hversvetna ráð."

"Hvar er í því?" sögðu þær.

"Það mun eg til finna er satt er," segir Hallgerður, "er hann lét eigi aka í skegg sér að hann væri sem aðrir karlmenn og köllum hann nú karl hinn skegglausa en sonu hans taðskegglinga og kveð þú um nokkuð Sigmundur og lát oss njóta þess er þú ert skáld."

Hann kveðst þess vera albúinn og kvað þegar vísur þrjár eða fjórar og voru allar illar.

"Gersemi ert þú," sagði Hallgerður, "hversu þú ert mér eftirlátur."

Gunnar kom að í þessu. Hann hafði staðið fyrir framan dyngjuna og heyrt á öll orðtækin. Þeim brá mjög við er þau sáu hann inn ganga. Þá þögnuðu allir en áður hafði þar verið háreysti mikið og hlátur.

Gunnar var reiður mjög og mælti til Sigmundar: "Heimskur maður ert þú og óráðhollur. Þú hrópar sonu Njáls og sjálfan hann er þó er mest vert en slíkt sem þú hefir áður af gert við þá og mun þetta vera þinn bani. En ef nokkur maður hermir þessi orð þá skal sá í brautu verða og hafa þó reiði mína."

En svo var þeim öllum ótti mikill að honum að engi þorði þessi orð að herma. Síðan gekk hann í braut.

Farandkonurnar töluðu um með sér að þær mundu taka laun af Bergþóru ef þær segðu henni þetta, fóru síðan ofan þangað og sögðu Bergþóru á laun ófregið.

Bergþóra mælti er menn sátu undir borðum: "Gjafar eru yður gefnar feðgum og verðið þér litlir drengir af ef þér launið engu."

"Hversu eru gjafar þær?" segir Skarphéðinn.

"Þér synir mínir eigið allir eina gjöf saman. Þér eruð kallaðir taðskegglingar en bóndi minn karl hinn skegglausi."

"Ekki höfum vér kvenna skap," segir Skarphéðinn, "að vér reiðumst við öllu."

"Reiddist Gunnar þó fyrir yðra hönd," segir hún, "og þykir hann skapgóður. Og ef þér rekið eigi þessa réttar þá munuð þér engrar skammar reka."

"Gaman þykir kerlingunni að, móður vorri, að erta oss," segir Skarphéðinn og glotti við en þó spratt honum sveiti í enni og komu rauðir flekkar í kinnur honum en því var ekki vant.

Grímur var hljóður og beit á vörinni. Helga brá ekki við. Höskuldur gekk fram með Bergþóru. Hún kom innar í annað sinn og geisaði mjög.

Njáll mælti: "Kemst þó að seint fari húsfreyja. Og fer svo um mörg mál þó að menn hafi skapraun af að jafnan orkar tvímælis þó að hefnt sé."

En um kveldið er Njáll var kominn í rekkju heyrði hann að öx kom við þilið og söng í hátt en lokrekkja var önnur og héngu þar á skildir og sér hann að þeir eru í brautu.

Hann mælti: "Hverjir hafa tekið ofan skjöldu vora?"

"Synir þínir gengu út með," segir Bergþóra.

Njáll kippti skóm á fætur sér og gekk út og öðrum megin hússins og sér að þeir stefna upp á hvolinn.

Hann mælti: "Hvert skal fara Skarphéðinn?"

"Leita sauða þinna," segir hann.

Njáll mælti: "Ekki munduð þér þá vera vopnaðir ef þér ætluðuð það og mun annað vera erindið."

"Laxa skulum vér veiða faðir ef vér rötum eigi sauðina," segir Skarphéðinn.

"Vel væri þá ef svo væri að þá veiði bæri eigi undan," segir Njáll.

Þeir fóru leið sína en Njáll gekk inn til hvílu sinnar.

Hann mælti til Bergþóru: "Úti voru synir þínir með vopnum allir og munt þú nú hafa eggjað þá til nokkurs."

"Allvel skal eg þakka þeim ef þeir segja mér heim víg Sigmundar," segir Bergþóra.


45. kafli
Nú er að segja frá Njálssonum að þeir fóru upp til Fljótshlíðar og voru um nóttina við hlíðina og fóru nær Hlíðarenda er morgna tók. Þenna morgun hinn sama stóðu þeir upp snemma, Sigmundur og Skjöldur, og ætluðu til stóðhrossa. Þeir höfðu beisl með sér og tóku hross í túni og riðu í braut. Þeir leita stóðhestsins um hlíðina og fundu hann meðal lækja tveggja og leiddu hrossin ofan að götum mjög. Skarphéðinn sá Sigmund því að hann var í litklæðum.

Skarphéðinn mælti: "Sjáið þér rauðálfinn sveinar?"

Þeir litu til og kváðust sjá hann.

Þá mælti Skarphéðinn: "Þú skalt gera að ekki Höskuldur því að þú munt oft sendur einn saman óvarlega. En eg ætla mér Sigmund. Þykir mér það karlmannlegt. En þið Grímur og Helgi skuluð vega að Skildi."

Höskuldur settist niður en þeir gengu þar til er þeir komu að þeim.

Skarphéðinn mælti til Sigmundar: "Tak vopn þín og ver þig. Er það nú meiri nauðsyn en kveða flím um oss bræður."

Sigmundur tók vopn sín en Skarphéðinn beið meðan. Skjöldur sneri í mót þeim Grími og Helga og börðust þeir í ákafa. Sigmundur hafði hjálm á höfði sér og skjöld á hlið og gyrður sverði og hafði spjót í hendi, snýr nú í mót Skarphéðni og leggur þegar spjótinu til hans og kemur í skjöldinn. Skarphéðinn laust í sundur spjótskaftið og færir upp öxina í annað sinn og höggur til Sigmundar og kom í skjöldinn og klauf ofan öðrum megin mundriða. Sigmundur brá sverðinu hinni hægri hendi og höggur til Skarphéðins og kom í skjöldinn og festi sverðið í skildinum. Skarphéðinn snaraði svo fast skjöldinn að Sigmundur lét laust sverðið. Skarphéðinn hjó þá enn til Sigmundar með öxinni Rimmugýgi. Sigmundur var í pansara. Öxin kom á öxlina og klauf ofan herðarblaðið. Hann hnykkir að sér öxinni og féll Sigmundur á kné bæði og spratt upp þegar.

"Laust þú mér nú," segir Skarphéðinn, "en þó skalt þú í móðurætt falla áður við skiljum."

"Það er illa þá," segir Sigmundur.

Skarphéðinn laust á hjálminn Sigmundar og hjó hann síðan banahögg. Grímur hjó á fótinn Skildi og tók af í ristarliðnum en Helgi lagði sverði í gegnum hann og hafði hann þá bana.

Skarphéðinn sá smalamann Hallgerðar. Þá hafði hann höggvið höfuð af Sigmundi. Hann seldi smalamanni í hendur höfuðið og bað hann færa Hallgerði og kvað hana kenna mundu hvort það höfuð hefði kveðið níð um þá.

Smalamaður kastaði niður þegar höfðinu er þeir skildu því að hann þorði eigi meðan þeir voru við. Þeir bræður fóru nú þar til er þeir fundu menn niðri við Markarfljót og sögðu þeim tíðindin. Lýsti Skarphéðinn vígi Sigmundar á hendur sér en þeir Grímur og Helgi vígi Skjaldar sér á hendur. Fóru þeir þá heim og sögðu Njáli tíðindin.

Njáll mælti: "Njótið heilir handa. Hér skulu eigi sjálfdæmi fyrir koma að svo búnu."

Nú er þar til máls að taka er smalamaður kemur heim til Hlíðarenda. Hann segir Hallgerði tíðindin.

"Fékk Skarphéðinn mér í hendur höfuð Sigmundar og bað mig færa þér en eg þorði eigi að gera það," segir hann, "því að eg vissi eigi hversu þér mundi það líka."

"Það var illa er þú gerðir það eigi," segir hún. "Eg skyldi færa Gunnari höfuðið og mundi hann þá hefna frænda síns eða sitja fyrir hvers manns ámæli."

Síðan gekk hún til Gunnars og mælti: "Eg segi þér víg Sigmundar frænda þíns. Hefir Skarphéðinn vegið hann og vildi láta færa mér höfuðið."

"Slíks var Sigmundi von," segir Gunnar, "því að illa gefast ill ráð. En jafnan gerir hvort ykkart Skarphéðins grálega til annars."

Gekk þá Gunnar í braut. Hann lét ekki búa til vígsmálið og engan hlut að hafa. Hallgerður minnti oft á og sagði Sigmund vera óbættan. Gunnar gaf ekki gaum að því.

Nú liðu þrjú þing þau er menn ætluðu að hann mundi sækja málið. Þá kom eitt vandamál að hendi Gunnari það er hann vissi eigi hversu upp skyldi taka. Reið hann þá til fundar við Njál. Hann fagnar vel Gunnari.

Gunnar mælti til Njáls: "Heilræði er eg kominn að sækja að þér um eitt vandamál."

"Maklegur ert þú þeirra," segir Njáll og réð honum ráðin.

Gunnar stóð þá upp og þakkaði honum.

Njáll mælti þá og tók til Gunnars: "Helsti lengi hefir Sigmundur frændi þinn óbættur verið."

"Fyrir löngu var hann bættur," segir Gunnar, "en þó vil eg eigi drepa hendi við sóma mínum."

Gunnar hafði aldrei illa mælt til Njálssona. Njáll vildi ekki annað en Gunnar gerði um málið. Hann gerði tvö hundruð silfurs en lét Skjöld vera ógildan. Þeir greiddu þegar allt féið. Gunnar sagði sætt þeirra upp á Þingskálaþingi þá er þar var mest fjölmenni og tjáði hversu þeim hafði vel farið feðgum og sagði um orð þau hin illu er Sigmundi dró til höfuðsbana og skyldi engi þau herma síðan en vera ógildur hver sem hermdi. Þeir mæltu það báðir, Gunnar og Njáll, að engir hlutir skyldu þeir til verða að eigi semdu þeir sjálfir. Efndist það og vel síðan og voru þeir jafnan vinir.