Síður

10.7.12

Orðaforði

50 orð yfir snjó og 35 yfir skít



Stundum er sagt (líklega ranglega) að eskimóar eigi 50 mismunandi orð fyrir snjó sem öll tákni einhverja ákveðna tegund af snjó (t.d. slyddu, harðfenni eða púðursnjó). Orðið „snjór“ sem almennt yfirheiti yfir allar tegundir af snjó sé ekki til. Sama gildi um frumbyggja Tasmaníu, sem eiga nöfn yfir allar tegundir af trjám - en ekki orðið „tré.“ Ítalir eiga meira en 500 orð yfir mismunandi tegundir af makkarónum. Sum þeirra hljóma afar ólystug þegar þau eru þýdd yfir á önnur tungumál. „Strozzapreti“ merkir „kyrktir prestar“ og „vermicelli“ merkir „litlir ormar.“ Frumbyggjar Nýja-Sjálands, Maórarnir, eiga 35 orð yfir kúk. Ofangreint kemur fram í bók Bill Bryson, „Móðurmálið.“

Enginn veit með vissu hversu mörg orð eru til í íslensku. Orð fæðast og deyja. Einhver orð eru bara notuð einu sinni. Fjölmörg orð eru aðeins til í bókum og eru aldrei notuð. Varlega áætlað er hægt að safna saman lista af íslenskum orðum sem telur hálfa milljón orða. Hugsanlega liggur endanlegur fjöldi orða töluvert hærra en það. Enginn veit. Enginn veit heldur hve mörg orð eru til í þýsku, frönsku eða ensku. Við vitum þó að enskan á fleiri orð en íslenskan. Fyrst og fremst af tveim ástæðum. Í ensku er til óskaplegur fjöldi samheita og enskan er bræðingur nokkurra tungumála.

Samheiti gefa tungumáli mikla dýpt. Íslenskan er kannski dálítið lík frumbyggjamálunum sem nefnd voru áðan að því leyti að íslensk samheiti eru oftar en ekki nöfn á einhverjum fyrirbærum sem almenningur á Íslandi hafði fyrir augunum. Þannig er munur á slyddu og hagli þótt hvorttveggja sé snjór. Hafið á sér samheiti (sjór, ægir) sem og ýmis dýr (seppi, hvutti, hundur) (hestur, jór, fákur) (kýr, belja, kusa) (kisa, köttur).

Geta samheiti gengið of langt?



Í mörghundruð ár voru rímur einkenniskveðskapur Íslendinga. Um rímurnar giltu margvíslegar strangar reglur sem reyndu mjög á höfunda. Rímur eru gríðarlega taktfastar, það má eiginlega líkja þeim við miðaldarapp. Ólíkt ljóðum í dag þá var ekki endilega ætlast til að menn færu með rímur heim til sín í litlum bókum og læsu í einrúmi. Rímur áttu að heyrast. Það þótti (og þykir raunar enn) nokkur list að kveða rímur vel. Af og til hefur á tuttugustu öld blossað upp áhugi á rímunum og eitt metnaðarfyllsta verkefnið þeim tengdum er að fara um landið og taka upp rímur sem (aðallega) eldgamalt fólk kann enn að kveða. Hér er ein nokkuð dæmigerð. Rímur hafa líka fengið nokkra uppreisn á síðustu árum þar sem þeim hefur verið blandað inn í nútímalegri listsköpun. Hér má sjá eitt dæmi:


Eitt af því sem þótti mikil íþrótt við að semja góðar rímur var að finna sífellt nýjar, frumlegar leiðir til að nefna hluti. Reyndi þá mjög á samheitasmíð. Samheiti voru gríðarlega mikið notuð í rímnakveðskap – og stundum urðu þau ansi tilgerðarleg og skrítin. Önnur hafa lifað áfram í málinu. Sár hét und, sonur hét mögur, sól hét röðull, maður hét halur, kóngur var hilmir o.s.frv. Slík samheiti eru stundum kölluð skáldamál. Fræg skáld reyndu oft að vera mjög frumleg í að nota og jafnvel búa til samheiti til að vera ekki fyrirsjáanleg í kveðskap sínum. Oft með misjöfnum árangri.

Grímur og drósin með hvarmaljósin



Alþekkt er að „augu“ voru í kveðskap oft nefn „hvarmaljós“ (hvarmur er tóttin eða holan sem augun eru í á andlitinu).

Margir kunna utanað kvæði eftir Grím Thomsen sem hefst á orðunum: „Táp og fjör og frískir menn...“



Grímur Thomsen þykir sláandi líkur...
...írska leikaranum Cillian Murphy




Þar kemur fyrir:

Djúp og blá
blíðum hjá
brosa drósum hvarmaljós.

Miðað við nútíma íslensku mætti halda að höfundurinn hafi verið að reyna að dulbúa það sem hann hafði að segja. Ekki aðeins notar hann orðið „hvarmaljós“ í staðinn fyrir „augu“, heldur notar hann samheitið „drós“ fyrir „konu“. Orðið drós er reyndar enn notað en hefur oft á sér neikvæðari blæ í dag en hjá Grími í þessu kvæði. Það sem Grímur er að segja er að blíðar konur hafi djúp og blá brosandi augu.


Djúp og blá
blíðum hjá
brosa drósum hvarmaljós.

Djúp og blá hvarmaljós brosa...



Djúp og blá
blíðum hjá
brosa drósum hvarmaljós.

...hjá blíðum drósum.

Ljóðastríð


Það má segja að hér sé skáldskapurinn orðinn furðulega flókinn. Orðaröð er breytt og flókin samheiti notuð í stað einfaldra orða. Það fór enda svo að úr þessu öllu varð dálítið ljóðastríð á Íslandi. Það er líklega rétt að segja að upptök þess stríðs hafi verið hræðilegur atburður úti í Noregi. Þannig var að hingað komu fréttir um að kona hefði verið úti á gangi með unga tvíbura þegar hún lenti í mjög vondu veðri. Svo vondu að hún komst ekki á milli bæja. Þegar hún sá að þau myndu ekki bjargast klæddi hún sig úr hverri spjör og klæddi börnin sín í og lagðist svo hjá þeim svo þau væru í skjóli og fraus í hel. Morgunin eftir fannst konan og höfðu þá bæði börnin lifað.

Um þetta samdi ritstjóri nokkur ljóð sem hann birti á áberandi stað í tímariti sínu. Þar lýsir hann fundinum svona:

Að næsta morgni menn hana finna,
í megnis frosti dána, helstinna.
En þá stranga upp taka reifa,
í þeim bæði börnin sig hreyfa.


Þetta þótti ungu eyfirsku skáldi í Kaupmannahöfn ofsalega illa farið með fallegt efni. Hann hét Jónas Hallgrímsson. Í bréfi til vinar síns leikur hann sér að því að yrkja kvæðið upp á nýtt – en núna eins og maður myndi yrkja ef maður hefði snefil af smekkvísi og hæfileikum. Þetta sama erindi varð svona í meðförum Jónasar.


Svo þegar dagur úr dökkvanum rís,
dauð er hún fundin á kolbláum ís. 
Snjóhvíta fannblæju lagði yfir lík
líknandi vetur, en miskunnarrík
sól móti sveininum lítur.



Þess má geta að Jónas sá enga ástæðu til þess að láta konuna burðast með tvö börn í ljóðinu þegar eitt dugði jafn vel. Stundum er sagt að hafa skuli það sem betur hljómar. Það var eiginlega lífsspeki Jónasar.

Mörgum mislíkaði hrokinn og rembingurinn í þessu unga skáldi suður í Kaupmannahöfn og fremsta rímnaskáld þjóðarinnar kom vini sínum ritstjóranum til varnar og orti níðkvæði um Jónas og félaga. Þegar svo þetta sama skáld gaf seinna út rímur, sem ekki þóttu sérlega góðar, stökk Jónas til og hefndi fyrir ljóðið.

Hann skrifaði í tímarit sitt Fjölni ritdóm um rímurnar þar sem hann tætti þær í sig með ákaflega kraftmiklum, og sumir myndu eflaust segja ruddalegum, hætti (skoða má dóminn hér). Hann tætti sérstaklega í sig samheitin og taldi upp mörg dæmi um bæði ljótt og illa hugsað skáldamál. Eftir þetta fór rímnakveðskapur hratt úr tísku hjá þjóðinni – sem kannski sést best á því að skáldið sem Jónas tók svona í gegn dó úr hungri og ofdrykkju í Reykjavík rúmum áratug seinna, þrátt fyrir að hljóta að teljast eitt af fremstu skáldum þjóðarinnar hvað sem Jónasi fannst.

Íslenskan er tímavél úr fornöld



Íslenska er dálítið sérstakt tungumál að því leyti hve stór hluti orðaforðans á sér sama uppruna. Íslenska er indóevrópskt-tungumál eins og flest tungumál Evrópu og Vestur-Asíu. Það merkir að íslenskan er skyld öðrum evrópskum tungumálum. Þessi skyldleiki sést best ef orðaforðinn er skoðaður. Gömul orð eins og „móðir“ og „faðir“ eru of lík á milli mismunandi tungumála til að það geti verið tilviljun.

Móðir
Mor (danska)
Mother (enska)
Madre (spænska)
Moeder (hollenska)
Mère (franska)
Mutter (þýska)


Sum tungumál hafa breyst mjög hratt. Síðustu tvöþúsund ár hafa Englendingar mátt þola innrásir úr öllum áttum og hver innrásarher hefur breytt tungumálinu. Þannig lögðu þýskir ættbálkar undir sig stór svæði í Stóra-Bretlandi á fimmtu öld. Sumir kalla þessa ættbálka Engla eða Engil-Saxa og þaðan er nafnið England komið. Tungumál þeirra var forn-enska (Old English) sem náskylt var t.d. íslensku. Þetta sést vel ef faðirvorið er lesið á fornensku:


Fæder ūre þū þe eart on heofonum,
Faðir vor þú sem ert í himninum,

Sī þīn nama ġehālgod
Sé þitt nafn heilagt

Tōbecume þīn rīċe,
Tilkomi þitt ríki.


Líkindin eru nokkuð augljós og það liggur við að nútíma Íslendingur eigi auðveldara með að skilja einfaldan texta á forn-ensku en kveðskap Gríms Thomsens. Það er alveg ljóst að íslenska hefur ekki breyst eins mikið og mörg önnur mál.

Eitt tungumál í sláturhúsi og annað í eldhúsi


Ein af ástæðum þess hve orðaforði ensku er ólíkur íslensku er að fleiri þjóðir lögðu undir sig svæði sem nú tilheyra Englandi. Rómverjar höfðu þar allnokkuð veldi og normanar, sem voru franskir ættbálkar. Í því sambandi er gaman að sjá hvernig stéttarmunur hefur haft áhrif á þróun enskrar tungu. Á tímabili var yfirstéttin í Englandi frönskumælandi en verkafólkið talaði forna ensku. Þetta verður skemmtilega ljóst þegar borin eru saman nöfn lifandi dýra annarsvegar og þess matar sem unninn er úr dýrunum.

Á ensku heitir kýr enn cow en kjöt af nautgripum heitir beef. Sama kjöt á frönsku heitir beouf.

Kálfur er calf en kálfakjöt er veal (veau á frönsku).

Svín er swine en svínakjöt er pork (porc).

Hæna er hen en hænsnakjöt er poultry (poulet).

Þannig komst á sú hefð að frönskumælandi yfirstéttin borðaði máltíðir með frönskum nöfnum en forn-enskumælandi undirstéttin gætti dýra með enskum heitum.

Á íslandi skapaðist aldrei hefð fyrir miklum innflutningi fólks af útlendum uppruna. Þess vegna var yfirleitt aðeins talað eitt mál í landinu, sem breyttist lítið með tímanum miðað við mörg önnur mál. Þó hafði það auðvitað sín áhrif að tilheyra Danmörku nokkuð lengi. Mörg dönsk orð hafa verið tekin upp í íslensku og Halldór Laxness sagði einu sinni að þjóðin væri orðin svo léleg í dönsku að hún vissi ekki lengur hvað væri íslenska og hvað dönskuslettur.

Danskar slettur í íslensku


Þegar Íslendingar hófu sjálfstæðisbaráttu sína var eitt af því sem barist var gegn (og enn er barist) að hreinsa málið af útlenskum slettum. Sletta er orð sem tekið er beint upp úr erlendu máli. Oftast eru sletturnar lagaðar að íslenskri beygingu fyrr eða seinna.

Sumar dönskuslettur eru mjög lúmskar. Þannig þekktist ekki að bjóða fólki „góða helgi!“ fyrr á tímum. Það er dönsk kveðja. Íslendingar sögðu bara „bless.“ „Sjáumst!“ er líka sletta. Þannig geta íslensk orð orðið að slettum við það eitt að vera notuð í „útlensku“ samhengi.

Fæstir eru svo miklir málhreinsunarmenn að þeir vilji útrýma kveðjum eins og „sjáumst!“ og „góða helgi!“ úr tungumálinu.  Það er eðli tungumála að breytast.

Skyldi þó vera rétt hjá nóbelsskáldinu að við þekkjum ekki mun á dönskuslettum og eldri íslensku? Skoðum nokkur dæmi um danskar slettur í íslensku máli. Og höfum í huga hvort við kunnum annað orð yfir hlutina.

huggulegur
adressa 
fútt
fyllirí
dúkka
ergelsi
gardína
græjur
majones
resept
skandali/skandall
sena
séní
skrælingur
sort
stuð
svínarí 
omeletta
 pensill
 form
viskustykki
 sulta
mublur
stúdent



Flest þessara orða eiga sér íslenskar hliðstæður. Mörg þeirra eru líka mjög augljósar slettur. Flestir vita að „addressa“ er sletta. Færri vita kannski að „gardína“ og „sulta“ eru það líka. Hvaða íslensk orð kanntu yfir gardínur? En sultu?


Helikopter...þyrilvængja...þyrla

Reglulega hefur verið barist gegn útlenskum áhrifum í málinu. Stundum með því að finna upp orð í stað þeirra sem vantaði. Þannig stóð í Morgunblaðinu árið 1950 að Gísli Gíslason í Vestmannaeyjum hefði gefið peninga til kaupa á „helikoptervjel.“

Þremur árum seinna sagði  frá heimsókn „þyrilvængju“ á íslenska flugdeginum.


Sex árum eftir það var búið að taka íslenska orðið „þyrill“ sem merkti það sama og flugvélaskrúfa og breyta því í kvenkynsorðið „þyrla.“ Orðið „þyrla“ var auðvitað til í málinu áður – en sem sagnorðið „að þyrla“ (að þyrla upp ryki).

Í dag þykir orðið „þyrla“ algjörlega sjálfsagt og eðlilegt. Okkur þætti satt að segja kjánalegt að heyra þyrlur kallaðar „helikopter“ á íslensku. 

Önnur dæmi um vel heppnaða baráttu gegn slettum eru orðin „svalir.,“ „gangstétt,“ „grindverk“ og „skrifstofa.“ Þessi orð leystu af hólmi að öllu eða a.m.k. verulegu leyti orðin: „altan,“ „fortó,“ „stakket“ og „kontór.“

Ný orð fyrir mistök og misheppnuð málhreinsun


Þessi barátta heppnast ekki alltaf jafn vel og hefur stundum óvæntar afleiðingar. Fyrir tveim áratugum hófst herferð sem hafði það að markmiði að kenna Íslendingum íslenskt orð til að nota í staðinn fyrir orðið „partí.“ Það varð að ráði að endurvekja gamalt íslenskt orð sem að mestu var horfið úr notkun. Það var orðið „teiti.“ Auglýsingar birtust í sjónvarpi og orðið var skrifað inn í myndasögur fyrir börn og sitthvað fleira. Í auglýsingunum var fólk hvatt til að nota orðið „teiti“ í stað þess að nota orðið „partí.“

Óhætt er að fullyrða að orðið „partí“ lifi enn góðu lífi. Og þótt margir kannist við orðið „teiti“ og noti það jafnvel stundum þá fer því fjarri að slettan hafi verið leyst af hólmi. Það skemmtilega er þó að herferðin hafði í för með sér óvæntar afleiðingar sem m.a. kölluðu á breytingar á orðinu „teiti“ í orðabókum. „Teiti“ er og hefur alltaf verið kvenkynsorð (hún teitin, teitin var góð). Orðið „partí“ hafði hinsvegar tekið sér stöðu sem hvorugkynsorð (partíið). Þegar fólk fór að skipta orðinu „partí“ út fyrir „teiti“ hafði það yfirleitt ekki hugmynd um að teiti væri í öðru kyni en partí og notaði teiti sem hvorugkynsorð (teitið, teitið var gott). 

Mikill meirihluti þeirra sem á annað borð nota orðið „teiti“ nota það í hvorugkyni. Þess vegna hefur orðinu nú verið breytt í orðabók þannig að það er bæði hvorukyns- og kvenkynsorð. 



Sletta verður tökuorð



Þegar sletta hefur verið í tungumálinu nógu lengi til að teljast á einhvern hátt „eðlilegt“ mál. Þá er yfirleitt talað um að hún sé orðin að „tökuorði,“ þ.e. íslenskt orð sem tekið er úr öðru tungumáli. Tökuorð beygjast yfirleitt vandræðalaust í íslenska málkerfinu. Gardínur, græjur og viskustykki eru dæmi um tökuorð. 

En hvað eru þá réttnefndar slettur?

Bilið þarna á milli er alls ekki skýrt. Það má helst segja að „tökuorð“ sé „sletta“ sem komin er til að vera. Sumar slettur eru líka það sem kallað er „slangur.“ Um muninn á þessu þrennu má lesa á Vísindavefnum.


Heimurinn vex hraðar en tungumálið



Við lifum á hröðum tímum. Tækninni fleygir fram og tungumálinu hefur reynst erfitt að halda í við veruleikann. Þótt flestir séu sammála um að betra sé að segja „þyrla“ en „helikopter„ og „tölva“ en „komputer“ þá hefur á síðustu árum safnast upp stór hugtakahaugur sem við notum meira og minna óbreyttan upp úr öðrum málum. Þannig nota fæstir orðið „beinir“ yfir „router,“ það mistókst líka að taka upp orðið „alnet“ fyrir „internet“ og forrit á spjaldtölvum heita enn á íslensku „öpp“.

Vitanlega finnst okkur sem notum tungumálið ekkert að því að segja: „Æpaddinn er tengdur við internetið en ég virðist ekki geta dánlódað neinum öppum.“ Þá er gott að hafa í huga að það er ekki svo ýkja langt síðan fólki fannst jafn eðlilegt að segja: „Ég sat á altaninu og sá mann út á fortó sem braut stakketið því hann var á hlaupum undan helikoptervél.“

Fólk hefur auðvitað mismiklar áhyggjur af þessari þróun íslenskunnar. Sumir telja allt í voða og að tungumálið muni hverfa á ógnarskömmum tíma og hreinlega hætta að vera til. Öðrum finnst fyrst og fremst hallærislegt að horfa upp á að fólk segi: „kött“ og „peist“ í staðinn fyrir „klippa“ og „líma.“ Enn aðrir eru hrifnir af fjölbreytninni og telja enga sérstaka ástæðu til að vera að búa til séríslensk orð fyrir allt og ekkert.



Það er eðli tungumála að breytast. Það státar engin önnur þjóð af því að geta lesið þúsund ára gamlar bókmenntir á móðurmáli sínu vandræðalítið. Það les enginn faðirvorið á forn-ensku jafn auðveldlega og Íslendingar. Íslenskan er að mörgu leyti forngripur. Eitthvað sem varðveist hefur meðan þessa sama tunga hvarf annarsstaðar. 

Það kemur líklega í hlut þeirra sem nú eru börn að ákveða hvort farið verður í meirháttar aðgerðir til að tryggja að íslenskan vaxi innanfrá með nýjum og stærri reynsluheimi. Eða hvort hún breytist á svipaðan hátt og enska og taki inn orð og hugtök úr öðrum málum. Á næstu árum og áratugum gæti skapast dálítil innri spenna í tungumálinu. Eitt af því sem gerðist við ensku þegar hún breyttist og lagaði sig að nýjum veruleika var að beinagrind tungumálsins, ramminn sjálfur, varð sífellt einfaldari. Það eina sem stækkaði var orðaforðinn. Í ensku þarftu yfirleitt aðeins eitt orð, orðið „you“ í staðinn fyrir sjö orð í íslensku eða þýsku (þú, þig, þér, þín, þið, ykkur, ykkar).

Þrátt fyrir að enska búi yfir fleiri orðum en íslenska þá eru vissulega til orð í íslensku sem ekki eru til í ensku. Í íslensku er t.d. munur á því að „vita,“ „kunna“ og „þekkja.“ Í ensku þarf að fara krókaleiðir að sömu hugsun. Þar er aðeins ein sögn „to know.“ 

Á meðan enska orðið „let“ hefur ótal tilbrigði sem engin ein íslensk sögn býr yfir. „Let“ getur táknað 58 mismunandi nafnorð og 126 mismunandi sagnir í ensku. 

Er hægt að hugsa eitthvað ef maður kann ekki orð yfir það?


Ekkert tungumál á orð til að lýsa nema broti af því sem hægt er að sjá og hugsa. Því er stundum haldið fram að það sé erfitt eða ómögulegt að hugsa hluti nema tungumálið vaxi með hugsuninni. Sumt virkar ólýsanlegt í orðum. Hver getur lýst lykt, bragði eða lit þannig að aðrir skilji án þess að hafa upplifað það sama?

Í bókinni 1984 eftir George Orwell reyna ill og stjórnsjúk yfirvöld að stýra fólki með því að hreinsa úr tungumálinu allt það sem vakið gat óróa eða uppreisn. Sumir vilja meina að slíkt sé gert í vaxandi mæli. Á meðan herir láti sprengjum rigna yfir menn, konur og börn í fjarlægum löndum verði enginn sérstaklega hneykslaður því að í fréttum sé alltaf talað um að „uppreisnarmenn“ hafi fallið í „átökum.“ 



Í raun eru engin mörk fyrir því hversu mikið íslensk tunga getur vaxið. Það er ekkert mál að búa til orð fyrir internet, öpp, dánlód og þvíumlíkt. Það er heldur ekkert hættulegt þótt slettur verði að tökuorðum og að slangur sé til (t.d. lol, rofl, tldr).

Íslenska mun halda áfram að vera til. En hún kann að breytast. 

Tengsl þín við tunguna verða að vera persónuleg



Stundum hefur verið sagt að sá sem ekki nái góðum tökum á sínu móðurmáli verði aldrei sérlega fær á öðrum málum. Víst er að margir telja sig gríðarlega góða í erlendum málum, sérstaklega ensku. En sú færni er oft lítið annað en tiltölulega mikill orðaforði miðað við útlending. Færnin er ekki endilega fólgin í því að maður geti hugsað frjálslega og skapandi á ensku jafnt sem íslensku. 

Stephen Fry, leikari með öðru, er m.a. þekktur fyrir gríðarlega hæfni til tjáningar á ensku. Hann býr yfir miklum orðaforða og leikni í að raða orðum saman á fjölbreyttan hátt. Hann hefur stundum lýst því augnabliki þar sem hann féll fyrir tungumálinu. Hann var að horfa á sjónvarpsleikrit eftir Oscar Wilde og þar kom fyrir hendingin:

Would you be in any way offended if I said that you seem to me to be the visible personification of absolute perfection?

Fry var 10 ára eða þar um bil og féll í stafi. Í raun og veru er illmögulegt að þýða þetta yfir á íslensku en það var eitthvað við hljóminn og inntakið sem fékk þennan unga dreng til að horfa allt öðrum augum á tungumálið en áður – sem síðan leiddi til þess að hann varð frábær hugsuður og listamaður. Oft er það einmitt svona. Ein og ein hending hittir einhvern í hjartað. Oft þannig að aðrir geta lesið eða heyrt það sama án þess að verða fyrir sömu áhrifum.

Í Kaupmannahöfn voru einu sinni ung, íslensk skáld að lesa ljóðin sín fyrir landa sinn sem var virtur prófessor. Vafalítið var þetta misgott hjá skáldunum en einn þeirra, nýliðinn í hópnum, las ljóð sem heitir Komdu. Á einum stað í ljóðinu tók prófessorinn viðbragð. Það var eitthvað sem hitti í mark. Það voru þessar tvær línur:


 Ekki skal það kvelja þig skóhljóðið mitt;
 ég skal ganga berfætt um blessað húsið þitt. 

Hvað það var sem heillaði prófessorinn er erfitt að vita. Kannski eitthvað sem tengdist einhverju sem hann hafði upplifað eða hugsað áður. Hver veit?

Nema hvað, hrós prófessorsins varð skáldinu mikil hvatning til áframhaldandi afreka. Sem varð á endanum eitt af þjóðskáldunum.

Tengsl tungumáls við manneskju eru alltaf persónuleg. Margir hugsa ekkert um þau tengsl og rækta þau ekki. Nota tungumálið sem tæki til að komast af. Kunna ákveðinn grunn og ekkert annað. Hugsa jafnvel ekkert um þennan grunn. Prófið t.d. að fara út í búð. Hversu mörg orð ætli fari á milli manna við venjuleg viðskipti. Ætli það sé mikið meira en:

Góðan dag.
Góðan dag.
bíp - bíp - bíp...
Má bjóða þér poka.
Já, takk. Tvo.
Það eru fimmþúsund eitthundrað og fimmtíu.
Gjörðu svo vel.
Viltu afritið?
Nei, takk.
Takk fyrir og góða helgi.
Góða helgi.

Þessum samskiptum lýkur svo oftast á því að viðskiptavininum er boðið „afritið.“ Skiptir þá engu hvort hann borgaði með korti eða peningum. Samt sem áður getur viðskiptavinur sem borgar með peningum ekki fengið neitt „afrit.“ Afritið er þitt eintak af undirskrift þinni ef þú greiðir með korti. Það sem allir eiga að fá er „kassakvittun“ eða bara „kvittun.“ Af einhverjum ástæðum hefur afgreiðslufólk hætt að kalla kvittunina kvittun (eða „strimil“ eins og hún er stundum kölluð) og kallar hana bara afrit líka.

Ef tæknin væri ekki á hraðleið með að útrýma öllum pappír úr viðskiptum hlýtur að teljast líklegt að þar hefði komið að mistök afgreiðslufólks breyttu tungumálinu og „kvittun“ og „afrit“ yrðu samheiti.

Þannig virkar tungumálið stundum.