8.9.11

Vilborg Davíðsdóttir, Auður





Auður er horfin, enn og aftur.


,,Jórunn, farðu og finndu hana,“ segir Yngveldur. ,,Þú veist hvar hún heldur sig.“ 


Hún segir þetta ásakandi, eins og þær séu saman í ráðum um að vera henni til armæðu. Jórunn fer reyndar nærri um það hvar Auður er. Einhvern tímann síðla nætur smokraði hún sér fram úr setinu sem þær deila og hvíslaði því í eyra hennar að hún ætlaði fram á Bjarghöfða að horfa eftir sæfólki í víkinni, það er helst á ferli í flæðarmálinu í birtingu , kannski sést til skipa, hún myndi koma heim í bítið með skelfisk. Jórunn hefði víst átt að segja eitthvað til að stöðva hana en tal Auðar um sæfólkið skýtur henni alltaf skelk í bringu og hún sneri sér til veggjar og hélt áfram að sofa, það hefði ekki verið til neins hvort sem var. Auður stenst ekki sumarnóttina og kemur og fer eins og henni sjálfri sýnist, finnst ekki nema hún vilji það og skilar sér alltaf heim um síðir til þess að taka við hirtingunni sem jafnan bíður hennar, hvort sem hún kemur með skeljar eða ekki því það er ambáttarverk að safna mararhettum.

Vilborg Davíðsdóttir: Auður