14.7.12

Séra Hildur Eir Bolladóttir, Um hvað snúast íþróttir?




Jæja Hildur mín stökktu nú yfir hestinn, svona bara, láttu vaða, þú getur þetta.“ „Er það skylda?“ spyr ég með skjálfandi röddu og horfi á alla hina krakkana í bekknum sem eru flest einum 15 kílóum léttari en ég, sumar stelpurnar jafnvel 20. Það gerðist eftir að ég uppgötvaði ristað brauð með smjöri og rabbabarasultu og fannst dálítið fín hugmynd að borða fjórar sneiðar í staðinn fyrir tvær. „Já, það er skylda og nú lætur þú bara vaða, Hildur Eir“, segir Guðrún íþróttakennari og horfir á mig hvössum augum, varirnar bera merki um gamalgróna festu, þessi íþróttakennari er með svo langar fætur að hún veit ekki einu sinni hvað það er að stökkva, hún gæti hæglega klofað yfir hestinn þannig að ég er ekki líkleg til að kveikja nokkra samúð hjá henni. Ég er 10 ára og ég hata íþróttir og ég veit að nú er engin undankomuleið, ég er innikróuð af leggjalöngum íþróttakennara og heilum bekk af upprennandi fimleikastjörnum, björgunarhringurinn um mittið er ekki að fara að bjarga mér núna og ég er of ung til að ljúga því að ég sé byrjuð á túr. Svo ég hleyp af stað og ólíkt allri lífeðlisfræði þá slær hjartað ekki á þessum hlaupum. Ég sé hestinn eins og Ísraelsmenn forðum er þeir mættu Rauðahafinu en Guð er ekki að fara að kljúfa þennan hest svo ég stekk og lendi klofvega á honum og veg salt eins og selur á þurru landi. En ég er á lífi, þó að heill bekkur engist um af hlátri og gott ef það var ekki bara þarna sem ég ákvað að hætta að taka mig alvarlega, já eða stunda íþróttir, man ekki hvort.

Hvað var þetta eiginlega í gamla daga með að allir ættu að stökkva yfir hestinn eða fara heljarstökk? Af hverju mátti ég ekki bara fara út að hlaupa eða vera í marki í fótbolta? Ég var mjög fín í marki þegar við Bolli bróðir vorum að æfa okkur heima í Laufási innan um dýrmætu aspirnar hans pabba, að vísu var ekki um marga að velja, það var annað hvort ég eða hundurinn þannig að e.t.v var Bolli bara svona feginn þessu harðindaheyi þegar hann hældi mér í hástert og líkti mér við Bruce Grobbelaar. Það var ekki fyrr en ég var langt kominn með menntaskóla að ég uppgötvaði að íþróttir geta verið góðar, þá var ég stödd í Vestmannaeyjum yfir jól og Jóna systir plataði mig með sér í líkamsræktarstöð bæjarins og ég fór að hlaupa á bretti og lyfta lóðum, sem krafðist ekki sömu samhæfingar og lipurðar og hesturinn forðum. Síðar fór ég að stunda útihlaup og smátt og smátt fyrntist minningin um litla selinn á hestinum sem skemmti heilum bekk á Grenivík og er það vel, að fólk geti skemmt sér, ekkert að því.

En um hvað snúast íþróttir? Ég man að eins og sumir eru tortryggnir gagnvart kirkjustarfi og halda að þar sé stundaður takmarkalaus heilaþvottur þá var ég pínulítið efins gagnvart því að setja frumburðinn minn í íþróttir á sínum tíma. Hann var 5 ára þegar hann hóf að æfa fótbolta með Þrótti í Laugardalnum. Ástæðan fyrir mínum efa var kannski blanda af neikvæðum minningum eins og getur líka átt við fullorðið fólk sem minnist langra og leiðinlegra stunda í kirkjunni þegar þau voru börn, en svo var líka þessi ótti minn við keppnisumhverfið, ég held nefnilega að við eigum ekki að ala börnin okkar upp í keppnisumhverfi af því að ég tel að það veiki getu þeirra til að setja sig í spor annarra og sýna samhygð og ég held að það hafi líka vanmetin áhrif á sjálfsmynd einstaklinga, maður þarf nefnilega að vera orðinn dálítið stálpaður og öruggur með sig áður en vænlegt að er að hella sér af alvöru út í keppni þar sem hver einstaklingur þarf að standa og falla með frammistöðu sinni.

Ég sá einhvern veginn fyrir mér foreldra sem myndu standa á hliðarlínunni og bölsótast út í fimm ára pjakka og þjálfara sem tækju þá á beinið og ég myndi bara leggjast í fósturstellinguna og sjúga þumalinn ef sonur minn gerði afdrifarík mistök. En sá ótti reyndist óþarfur alveg eins og það er óþarfi að halda að í kirkjunni sé stundaður heilaþvottur og særingar. Raunar reyndist þetta mikið gæfuspor fyrir minn son því hann er lítill „gourmetkall“, eins og mamman, svo að hreyfingin í fótboltanum hefur verið honum alveg bráðnauðsynleg fyrir utan allan þann fjölda vina sem hann hefur eignast og tilbreytinguna sem er fólgin í því að fara á fótboltamót og keppa án þess að mikið liggi við. Ég hef bara upplifað heilbrigða skynsemi á þessum mótum, faglega þjálfara og uppörvandi foreldra og þetta hefur orðið mínum dreng raunar mikið sjálfsmyndarpúst. Og svo fluttum við norður og hann hóf að æfa með KA, bæði fótbolta og handbolta eins og faðir hans forðum (já fyrir sirka 26 kílóum síðan - það var um svipað leyti og ég sá hann fyrst í Sjallanum dansa í glansbuxum og þröngri skyrtu) en í raun var það starfið í KA sem auðveldaði syni okkar hvað mest að takast á við breyttar aðstæður, hann var fljótur að eignast vini af því að hann spilaði fótbolta. Daginn sem við mættum með búslóðina var hann farinn út á völl og þar hitti hann dreng sem varð vinur hans frá þeirri stundu enda ekki flókið þegar báðir kunna leikinn og fyrstu samskiptin snúast um þennan sameiginlega vettvang.

Það er raunar bæði fyndið og merkilegt að hugsa til þess að manneskja eins og ég sem hreinlega hataði íþróttir á mínum yngri árum skuli í raun vinna að sama markmiði og íþróttafélög bæjarins, það er nefnilega þannig gott fólk að kirkjan og íþróttafélögin hafa sama markmið í æskulýðsstarfi, sem er að efla og styrkja sjálfsmynd barna og unglinga, efla vináttu, virðingu og samstöðu og forða þeim frá því að velja leiðir sem brjóta niður mennsku þeirra. Þegar ég starfaði í Laugarneskirkju í Reykjavík þá vorum við prestarnir þar í heilmiklu samstarfi við íþróttafélögin í hverfinu, Þrótt og Ármann. Við skipulögðum starfið okkar þannig að það rækist ekki á við þeirra og öfugt og héldum sameiginlega vorhátíð ár hvert ásamt öðrum uppeldisstofnunum hverfisins. Þetta var frábært samstarf sem opinberaði okkur einmitt þetta sameiginlega grundvallarmarkmið sem allir græða á, jafnt fullorðnir sem börn.