14.7.12
Brennu-Njáls saga, Gunnar og Hallgerður
1. kafli
Mörður hét maður er kallaður var gígja. Hann var sonur Sighvats hins rauða. Hann bjó á Velli á Rangárvöllum. Hann var ríkur höfðingi og málafylgjumaður mikill og svo mikill lögmaður að engir þóttu löglegir dómar dæmdir nema hann væri við. Hann átti dóttur eina er Unnur hét. Hún var væn kona og kurteis og vel að sér og þótti sá bestur kostur á Rangárvöllum.
Nú víkur sögunni vestur til Breiðafjarðardala. Maður er nefndur Höskuldur. Hann var Dala-Kollsson. Móðir hans hét Þorgerður og var dóttir Þorsteins hins rauða, Ólafssonar hins hvíta, Ingjaldssonar, Helgasonar. Móðir Ingjalds var Þóra, dóttir Sigurðar orms í auga, Ragnarssonar loðbrókar. Unnur hin djúpúðga var móðir Þorsteins rauðs, dóttir Ketils flatnefs, Bjarnarsonar bunu. Höskuldur bjó á Höskuldsstöðum í Laxárdal.
Hrútur hét bróðir hans. Hann bjó á Hrútsstöðum. Hann var sammæður við Höskuld. Faðir hans var Herjólfur. Hrútur var vænn maður, mikill og sterkur, vígur vel og hógvær í skapi, manna vitrastur, hagráður við vini sína en tillagagóður hinna stærri mála.
Það var einu hverju sinni að Höskuldur hafði vinaboð og þar var Hrútur bróðir hans og sat hið næsta honum. Höskuldur átti sér dóttur er Hallgerður hét. Hún lék sér á gólfi við aðrar meyjar. Hún var fríð sýnum og mikil vexti og hárið svo fagurt sem silki og svo mikið að það tók ofan á belti.
Höskuldur kallar á hana: "Far þú hingað til mín," sagði hann.
Hún gekk þegar til hans. Hann tók undir hökuna og kyssti hana. Síðan gekk hún í braut.
Þá ræddi Höskuldur til Hrúts: "Hversu líst þér á mey þessa, þykir þér eigi fögur vera?"
Hrútur þagði við. Höskuldur talaði til annað sinn.
Hrútur svaraði þá. "Ærið fögur er mær sjá og munu margir þess gjalda. En hitt veit eg eigi hvaðan þjófsaugu eru komin í ættir vorar."
Þá reiddist Höskuldur og var fátt um með þeim bræðrum nokkura hríð.
Bræður Hallgerðar voru þeir Þorleikur, faðir Bolla, og Ólafur, faðir Kjartans, og Bárður.
19. kafli
Gunnar hét maður. Hann var frændi Unnar. Rannveig hét móður hans og var Sigfúsdóttir Sighvatssonar hins rauða. Hann var veginn við Sandhólaferju. Faðir Gunnars hét Hámundur og var sonur Gunnars Baugssonar. Við þann er kennt Gunnarsholt. Móðir Hámundar hét Hrafnhildur. Hún var Stórólfsdóttir Hængssonar. Stórólfur var bróðir Hrafns lögsögumanns. Sonur Stórólfs var Ormur hinn sterki.
Gunnar Hámundarson bjó að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Hann var mikill maður vexti og sterkur og allra manna best vígur. Hann hjó báðum höndum og skaut ef hann vildi og hann vó svo skjótt með sverði að þrjú þóttu á lofti að sjá. Hann skaut manna best af boga og hæfði allt það er hann skaut til. Hann hljóp meir en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig. Hann var syndur sem selur. Og eigi var sá leikur að nokkur þyrfti við hann að keppa og hefir svo verið sagt að engi væri hans jafningi. Hann var vænn að yfirliti og ljóslitaður, rétt nefið og hafið upp í framanvert, bláeygur og snareygur og rjóður í kinnum, hárið mikið, gult, og fór vel. Manna var hann kurteisastur, harðger í öllu, ráðhollur og góðgjarn, mildur og stilltur vel, vinfastur og vinavandur. Hann var vel auðigur að fé.
33. kafli
Gunnar reið og þeir allir til þings. En er þeir komu á þing þá voru þeir svo vel búnir að engir voru þeir þar að jafnvel væru búnir og fóru menn út úr hverri búð að undrast þá. Gunnar reið til búða Rangæinga og var þar með frændum sínum. Margur maður fór að finna Gunnar og spyrja hann tíðinda. Hann var við alla menn léttur og kátur og sagði öllum slíkt er vildu.
Það var einn dag er Gunnar gekk frá Lögbergi. Hann gekk fyrir neðan Mosfellingabúð. Þá sá hann konur ganga í móti sér og voru vel búnar. Sú var í ferðarbroddi konan er best var búin. En er þau fundust kvaddi hún þegar Gunnar. Hann tók vel kveðju hennar og spurði hvað kvenna hún væri. Hún nefndist Hallgerður og kvaðst vera dóttir Höskulds Dala-Kollssonar. Hún mælti til hans djarflega og bað hann segja sér frá ferðum sínum en hann kvaðst ekki varna mundu henni máls. Settust þau þá niður og töluðu. Hún var svo búin að hún var í rauðum kyrtli og var á búningur mikill. Hún hafði yfir sér skarlatsskikkju og var búin hlöðum í skaut niður. Hárið tók ofan á bringu henni og var bæði mikið og fagurt. Gunnar var í tignarklæðum þeim er Haraldur konungur Gormsson gaf honum. Hann hafði og hringinn á hendi Hákonarnaut. Þau töluðu lengi hátt. Þar kom er hann spurði hvort hún væri ógefin.
Hún sagði að svo væri "og er það ekki margra að hætta á það," segir hún.
"Þykir þér hvergi fullkosta?" segir hann.
"Eigi er það," segir hún, "en mannvönd mun eg vera."
"Hversu munt þú svara ef eg bið þín?" segir Gunnar.
"Það mun þér ekki í hug," segir hún.
"Eigi er það," segir hann.
"Ef þér er nokkur hugur á," segir hún, "þá finn þú föður minn."
Síðan skildu þau talið.
48. kafli
Gunnar ríður til þings um sumarið en að hans gisti fjölmenni mikið austan af Síðu. Gunnar bauð að þeir gistu þar er þeir riðu af þingi. Þeir kváðust svo gera mundu. Ríða nú til þings. Njáll var á þingi og synir hans. Þingið er kyrrt.
Nú er þar til að taka að Hallgerður kemur að máli við Melkólf þræl: "Sendiför hefi eg hugað þér," segir hún, "þú skalt fara í Kirkjubæ."
"Og hvað skal eg þangað?" segir hann.
Þú skalt stela þaðan mat á tvo hesta og hafa smjör og ost en þú skalt leggja eld í útibúrið og munu allir ætla að af vangeymslu hafi orðið en engi mun ætla að stolið hafi verið."
Þrællinn mælti: "Vondur hefi eg verið en aldrei hefi eg þjófur verið."
"Heyr á endemi," segir Hallgerður, "þú gerir þig góðan þar sem þú hefir bæði verið þjófur og morðingi og skalt þú eigi þora annað en fara ella skal eg láta drepa þig."
Hann þóttist vita að hún mundi svo gera ef hann færi eigi. Tók hann um nóttina tvo hesta og lagði á lénur og fór í Kirkjubæ. Hundurinn gó eigi að honum og kenndi hann og hljóp í mót honum og lét vel við hann. Síðan fór hann til útibúrs og lauk upp og klyfjaði þaðan tvo hesta af mat en brenndi búrið og drap hundinn. Hann fer upp með Rangá. Þá slitnar skóþvengur hans og tekur hann hnífinn og gerir að. Honum liggur eftir hnífurinn og beltið. Hann fer þar til er hann kemur til Hlíðarenda. Þá saknar hann hnífsins og þorir eigi aftur að fara, færir nú Hallgerði matinn. Hún lét vel yfir hans ferð.
Um morguninn er menn komu út í Kirkjubæ sáu menn þar skaða mikinn. Var þá sendur maður til þings að segja Otkatli því að hann var á þingi. Hann var vel við skaðann og kvað það valdið mundu hafa að eldhúsið var áfast útibúrinu og ætluðu það þá allir að það mundi til hafa borið.
Nú ríða menn heim af þingi og riðu margir til Hlíðarenda. Hallgerður bar mat á borð og kom innar ostur og smjör. Gunnar vissi slíks matar þar ekki von og spurði Hallgerði hvaðan það kæmi.
"Þaðan sem þú mátt vel eta," segir hún, "enda er það ekki karla að annast um matreiðu."
Gunnar reiddist og mælti: "Illa er þá ef eg er þjófsnautur" og lýstur hana kinnhest.
Hún kvaðst þann hest muna skyldu og launa ef hún mætti. Gekk hún þá fram og hann með henni og var þá borið allt af borðinu en borið innar slátur og ætluðu allir að það mundi til hafa borið að þá mundi þykja fengið betur. Fara þingmenn nú í braut.
77. kafli
Gunnar vaknaði í skálanum og mælti: "Sárt ert þú leikinn Sámur fóstri og búið svo sé til ætlað að skammt skuli okkar í meðal."
Skáli Gunnars var ger af viði einum og súðþaktur utan og gluggar hjá brúnásunum og snúin þar fyrir speld. Gunnar svaf í lofti einu í skálanum og Hallgerður og móðir hans.
En er þeir komu að bænum vissu þeir eigi hvort Gunnar mundi heima vera. Gissur mælti að nokkur skyldi fara heim á húsin og vita hvað af kannaði en þeir settust niður á völlinn meðan. Þorgrímur austmaður gekk upp á skálann. Gunnar sér að rauðan kyrtil ber við glugginum og leggur út með atgeirinum á hann miðjan. Þorgrími skruppu fæturnir og varð laus skjöldurinn og hrataði hann ofan af þekjunni. Gengur hann síðan að þeim Gissuri þar er þeir sátu á vellinum.
Gissur leit við honum og mælti: "Hvort er Gunnar heima?"
"Vitið þér það en hitt vissi eg að atgeir hans var heima." segir Austmaðurinn.
Féll hann þá niður dauður. Þeir sóttu þá heim að húsunum. Gunnar skaut út örum að þeim og varðist vel og gátu þeir ekki að gert. Þá hljópu sumir á húsin upp og ætluðu þaðan að að sækja. Gunnar kom þangað að þeim örunum og gátu þeir ekki að gert og fór svo fram um hríð. Þeir tóku hvíld og sóttu að í annað sinn. Gunnar skaut enn út örunum og gátu þeir enn ekki að gert og hrukku frá í annað sinn.
Þá mælti Gissur hvíti: "Sækjum að betur, ekki verður af oss."
Gerðu þeir þá hríð hina þriðju og voru við lengi. Eftir það hrukku þeir frá.
Gunnar mælti: "Ör liggur þar úti á þekjunni og er sú af þeirra örum og skal eg þeirri skjóta til þeirra. Og er þeim það skömm ef þeir fá geig af vopnum sínum."
Móðir hans mælti: "Ger þú eigi það son minn að þú vekir þá er þeir hafa áður frá horfið."
Gunnar þreif örina og skaut til þeirra og kom á Eilíf Önundarson og fékk hann af sár mikið. Hann hafði staðið einn saman og vissu þeir eigi að hann var særður.
"Hönd kom þar út," segir Gissur, "og var á gullhringur og tók ör er lá á þekjunni og mundi eigi út leitað viðfanga ef gnógt væri inni og skulum vér nú sækja að."
Mörður mælti: "Brennum vér hann inni."
"Það skal verða aldrei," segir Gissur, "þó að eg viti að líf mitt liggi við. Er þér sjálfrátt að leggja til ráð þau er dugi svo slægur maður sem þú ert kallaður."
Strengir lágu á vellinum og voru hafðir til að festa með hús jafnan.
Mörður mælti: "Tökum vér strengina og berum um ásendana en festum aðra endana um steina og snúum í vindása og vindum af ræfrið af skálanum."
Þeir tóku strengina og veittu þessa umbúð alla og fann Gunnar eigi fyrr en þeir höfðu undið allt þakið af skálanum. Gunnar skýtur þá af boganum svo að þeir komast aldrei að honum. Þá mælti Mörður í annað sinn að þeir mundu brenna Gunnar inni.
Gissur svarar: "Eigi veit eg hví þú vilt það mæla er engi vill annarra og skal það aldrei verða."
Í þessu bili hleypur upp á þekjuna Þorbrandur Þorleiksson og höggur í sundur bogastrenginn Gunnars. Gunnar þrífur atgeirinn báðum höndum og snýst að honum skjótt og rekur í gegnum hann atgeirinn og kastar honum dauðum á völlinn. Þá hljóp upp Ásbrandur bróðir hans. Gunnar leggur til hans atgeirinum og kom hann skildi fyrir sig. Atgeirinn renndi í gegn um skjöldinn og svo meðal handleggjanna. Snaraði Gunnar þá svo fast atgeirinn að skjöldurinn klofnaði en brotnuðu báðir handleggirnir og féll hann út af vegginum. Áður hafði Gunnar særða átta menn en vegið þá tvo. Þá fékk Gunnar sár tvö og sögðu það allir menn að hann brygði sér hvorki við sár né við bana.
Hann mælti til Hallgerðar: "Fá mér leppa tvo úr hári þínu og snúið þið móðir mín saman til bogastrengs mér."
"Liggur þér nokkuð við?" segir hún.
"Líf mitt liggur við," segir hann, "því að þeir munu mig aldrei fá sóttan meðan eg kem boganum við."
"Þá skal eg nú," segir hún, "muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur."
"Hefir hver til síns ágætis nokkuð," segir Gunnar, "og skal þig þessa eigi lengi biðja."
Rannveig mælti: "Illa fer þér og mun þín skömm lengi uppi."
Gunnar varði sig vel og fræknlega og særir nú aðra átta menn svo stórum sárum að mörgum lá við bana. Gunnar ver sig þar til er hann féll af mæði. Þeir særðu hann þá mörgum stórum sárum en þó komst hann úr höndum þeim og varði sig þá enn lengi en þó kom þar að þeir drápu hann.
Um vörn hans orti Þorkell Elfaraskáld í vísu þessi:
Spurðum vér hve varðistvígmóðr kjalar slóðaglaðstýrandi geiri,Gunnar, fyrir Kjöl sunnan.Sóknrýrir vann sárasextán viðar mánahríðar herðimeiðahauðrmens en tvo dauða.
Gissur mælti: "Mikinn öldung höfum vér nú að velli lagt og hefir oss erfitt veitt og mun hans vörn uppi meðan landið er byggt."
Síðan gekk hann til fundar við Rannveigu og mælti: "Vilt þú veita mönnum vorum tveimur jörð er dauðir eru og séu hér heygðir?"
"Að heldur tveimur," segir hún, "að eg mundi veita yður öllum."
"Vorkunn er þér til þess er þú mælir," segir hann, "því að þú hefir mikils misst" og kvað á að þar skyldi engu ræna og engu spilla. Fóru á braut síðan.
Þá mælti Þorgeir Starkaðarson: "Eigi megum vér vera heima í búum vorum fyrir Sigfússonum nema þú Gissur hvíti eða Geir goði sért suður hér nokkura hríð."
"Þetta mun svo vera," segir Gissur og hlutuðu þeir og hlaut Geir eftir að vera.
Síðan fór hann í Odda og settist þar. Hann átti sér son er Hróaldur hét. Hann var laungetinn og hét Bjartey móðir hans og var systir Þorvalds hins veila er veginn var við Hestlæk í Grímsnesi. Hann hrósaði því að hann hefði veitt Gunnari banasár. Hróaldur var í Odda með föður sínum. Þorgeir Starkaðarson hrósaði öðru sári að hann hefði Gunnari veitt. Gissur sat heima að Mosfelli.
Víg Gunnars spurðist og mæltist illa fyrir um allar sveitir og var hann mörgum mönnum mjög harmdauði.