11.7.12

Geta samheiti gengið of langt?


 


Í mörghundruð ár voru rímur einkenniskveðskapur Íslendinga. Um rímurnar giltu margvíslegar strangar reglur sem reyndu mjög á höfunda. Rímur eru gríðarlega taktfastar, það má eiginlega líkja þeim við miðaldarapp. Ólíkt ljóðum í dag þá var ekki endilega ætlast til að menn færu með rímur heim til sín í litlum bókum og læsu í einrúmi. Rímur áttu að heyrast. Það þótti (og þykir raunar enn) nokkur list að kveða rímur vel. Af og til hefur á tuttugustu öld blossað upp áhugi á rímunum og eitt metnaðarfyllsta verkefnið þeim tengdum er að fara um landið og taka upp rímur sem (aðallega) eldgamalt fólk kann enn að kveða. Hér er ein nokkuð dæmigerð. Rímur hafa líka fengið nokkra uppreisn á síðustu árum þar sem þeim hefur verið blandað inn í nútímalegri listsköpun. Hér má sjá eitt dæmi:




Eitt af því sem þótti mikil íþrótt við að semja góðar rímur var að finna sífellt nýjar, frumlegar leiðir til að nefna hluti. Reyndi þá mjög á samheitasmíð. Samheiti voru gríðarlega mikið notuð í rímnakveðskap – og stundum urðu þau ansi tilgerðarleg og skrítin. Önnur hafa lifað áfram í málinu. Sár hét und, sonur hét mögur, sól hét röðull, maður hét halur, kóngur var hilmir o.s.frv. Slík samheiti eru stundum kölluð skáldamál. Fræg skáld reyndu oft að vera mjög frumleg í að nota og jafnvel búa til samheiti til að vera ekki fyrirsjáanleg í kveðskap sínum. Oft með misjöfnum árangri.