11.7.12

Hefðarlemúrinn sem beit heimskautafara

Grein eftir Veru Illugadóttur
af vefnum



Screen Shot 2012-07-04 at 18.35.45
Þegar breski auðjöf­ur­inn Stephen Courtauld keypti mið­alda­höll­ina Eltham Palace í suð­aust­ur­hluta Lundúna árið 1933 var hún í nið­ur­níðslu. Cortauld og eig­in­kona hans Virginia spör­uðu engu til að gera höll­ina upp og byggðu á hall­ar­svæð­inu nýtt hús frá grunni í glæsi­legum og rík­mann­legum Art Deco-​​stíl.

Í hinni nýju Eltham Palace höfðu Cortauld-​​hjónin allt til alls, allan hugs­an­legan lúxus. Meðal ann­ars létu þau inn­rétta sér­her­bergi fyrir gælu­dýrið þeirra, lemúr­inn Mah-​​Jongg.


Hjónin, sem voru barns­laus, höfðu keypt lemúr­inn árið 1923 í magasín­versl­un­inni Harrods og hann fylgt þeim í hvert fót­mál síðan. Í Eltham Palace fékk hann sér­stak­lega upp­hitað lítið her­bergi með frum­skóg­ar­myndum mál­uðum á vegg­ina. Herbergið var á ann­ari hæð og þaðan gekk bambus­stigi niður í for­stof­una á jarð­hæð svo „Jongy“ gæti heilsað upp á gesti.


Lemúrinn Mah-​​Jongg í her­berg­inu sínu.

Nóg var um gesta­komur. Stephen Cortauld var erf­ingi mik­ils vefn­að­ar­ríki­dæmis og hvor­ugt hjón­anna vann nokkuð. Þeirra helsta iðja var að halda veislur fyrir fín­ustu Lundúnabúa — kvik­mynda­stjörnur, stjórn­mála­menn jafnt sem aðal­inn sjálfan — sem streymdu í höll­ina þeirra um hverja helgi.

Eltham Palace er í dag ferða­mannastaður og ótrú­leg húsa­kynnin hafa verið notuð sem svið ótal kvik­mynda, aug­lýs­inga og tón­list­ar­mynd­banda. Þetta mynd­band með Florence + The Machine var til dæmis tekið þar upp:





En þó Cortauld-​​hjónin hafi verið félagsljón var lemúr­inn Jongy það senni­lega ekki. Vont orð fór af lemúrnum meðal fína fólks­ins sem vandi komur sínar til Eltham, enda átti hann til að bíta gesti við minnsta tilefni.

Örlaga­rík­asta árás Jongys átti sér þó stað áður en Courtauld-​​hjónin fluttu til Eltham. Árið 1930 not­aði Stephen Courtauld brot af auðæfum sínum til þess að styrkja könn­un­ar­leið­angur til norð­ur­heim­skauts­ins. Markmið Breska íshafs­leið­ang­ur­ins (British Arctic Air Route Expedition) var að kort­leggja strand­lengju Grænlands og jafn­framt að kanna veð­ur­skil­yrði á jök­ul­breið­unni og hvort að hægt væri mögu­legt að fljúga yfir á leið­inni frá Kanada til Englands.


Svo mjög unnu Courtauld-​​hjónin lemúrnum sínum að þau létu mála þetta mál­verk af sér þar sem Mah-​​Jongg er í mið­depli. Málverkið hangir í Eltham Palace í dag.

Leiðangursmenn, fjór­tán tals­ins, voru allir ungir og óreyndir heim­skautafarar. Stephen Cortauld bar nær allan kostnað af leið­angr­inum, en með í för var bróð­ur­sonur hans, Augustine Cortauld.

Daginn áður en leið­ang­ur­inn átti að hefjast, vorið 1930, bauð Cortauld eldri til hádeg­is­verðar um borð í snekkj­unni sinni. Matarboðið tókst ekki betur en svo að Jongy beit loft­skeyta­mann­inn Percy Lemon og sleit slagæð. Lemon var gefið joð við blóð­missinum en reynd­ist með ofnæmi fyrir joði og veikt­ist heift­ar­lega. Fresta varð könn­un­ar­leið­angr­inum í þrjá mán­uði á meðan hann var að ná sér.

Breski íshafs­leið­ang­ur­inn lagði loks af stað í júlí árið 1930. Loftskeytamaðurinn ómiss­andi Percy Lemon var með í för, eins og fer ekki fram­hjá þeim sem lítur á kort af Grænlandi. Hin tign­ar­legu Lemon-​​fjöll á aust­ur­strönd­inni, skammt frá Gunnbjörnsfjalli, hæsta tindi Grænlands, eru nefnd eftir honum.

Nánar er svo fjallað um leið­ang­ur­inn, og hlut Íslend­inga í honum, hér.


Lemonfjöll á Grænlandi.