11.7.12

Heimurinn vex hraðar en tungumálið


 


Við lifum á hröðum tímum. Tækninni fleygir fram og tungumálinu hefur reynst erfitt að halda í við veruleikann. Þótt flestir séu sammála um að betra sé að segja „þyrla“ en „helikopter„ og „tölva“ en „komputer“ þá hefur á síðustu árum safnast upp stór hugtakahaugur sem við notum meira og minna óbreyttan upp úr öðrum málum. Þannig nota fæstir orðið „beinir“ yfir „router,“ það mistókst líka að taka upp orðið „alnet“ fyrir „internet“ og forrit á spjaldtölvum heita enn á íslensku „öpp“.

Vitanlega finnst okkur sem notum tungumálið ekkert að því að segja: „Æpaddinn er tengdur við internetið en ég virðist ekki geta dánlódað neinum öppum.“ Þá er gott að hafa í huga að það er ekki svo ýkja langt síðan fólki fannst jafn eðlilegt að segja: „Ég sat á altaninu og sá mann út á fortó sem braut stakketið því hann var á hlaupum undan helikoptervél.“

Fólk hefur auðvitað mismiklar áhyggjur af þessari þróun íslenskunnar. Sumir telja allt í voða og að tungumálið muni hverfa á ógnarskömmum tíma og hreinlega hætta að vera til. Öðrum finnst fyrst og fremst hallærislegt að horfa upp á að fólk segi: „kött“ og „peist“ í staðinn fyrir „klippa“ og „líma.“ Enn aðrir eru hrifnir af fjölbreytninni og telja enga sérstaka ástæðu til að vera að búa til séríslensk orð fyrir allt og ekkert.



Það er eðli tungumála að breytast. Það státar engin önnur þjóð af því að geta lesið þúsund ára gamlar bókmenntir á móðurmáli sínu vandræðalítið. Það les enginn faðirvorið á forn-ensku jafn auðveldlega og Íslendingar. Íslenskan er að mörgu leyti forngripur. Eitthvað sem varðveist hefur meðan þessa sama tunga hvarf annarsstaðar. 

Það kemur líklega í hlut þeirra sem nú eru börn að ákveða hvort farið verður í meirháttar aðgerðir til að tryggja að íslenskan vaxi innanfrá með nýjum og stærri reynsluheimi. Eða hvort hún breytist á svipaðan hátt og enska og taki inn orð og hugtök úr öðrum málum. Á næstu árum og áratugum gæti skapast dálítil innri spenna í tungumálinu. Eitt af því sem gerðist við ensku þegar hún breyttist og lagaði sig að nýjum veruleika var að beinagrind tungumálsins, ramminn sjálfur, varð sífellt einfaldari. Það eina sem stækkaði var orðaforðinn. Í ensku þarftu yfirleitt aðeins eitt orð, orðið „you“ í staðinn fyrir sjö orð í íslensku eða þýsku (þú, þig, þér, þín, þið, ykkur, ykkar).

Þrátt fyrir að enska búi yfir fleiri orðum en íslenska þá eru vissulega til orð í íslensku sem ekki eru til í ensku. Í íslensku er t.d. munur á því að „vita,“ „kunna“ og „þekkja.“ Í ensku þarf að fara krókaleiðir að sömu hugsun. Þar er aðeins ein sögn „to know.“ 

Á meðan enska orðið „let“ hefur ótal tilbrigði sem engin ein íslensk sögn býr yfir. „Let“ getur táknað 58 mismunandi nafnorð og 126 mismunandi sagnir í ensku.