15.7.12

Kvennablaðið (1896), Heimsins bezti eiginmaður.



 Þýtt úr ensku af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur

Þjer spyrjið mig að, af hverju jeg haldi að maðurinn minn sje bezti eiginmaður í heiminum. Jeg held það af því, að hann er það náttúrlega. Þjer segið, að þetta sje kvennleg rökleiðsla og því hvorki skynsamt nje rökstutt; við skulum sjá til. 

Jeg skal þá reyna til að greina allt hans ágæti. Hann fer að öllu leyti með mig sem sinn jafningja, enn ekki sem ráðskonu, ekki heldur sem kvenlegan herbergisþjón, sem hafi það aðalstarf að bíða eftir honum, ekki heldur sem sálarlaust leikfang og glingur, eins og sumir hinir svokölluðu „góðu“ menn gjöra. Hann lætur mig taka þátt í störfum sínum með sjer, og hann ráðgast um allt við mig eins og sinn bezta vin. 

Jeg veit upp á hár, hvað hann vinnur sjer inn, og því veit jeg, hvaða útgjöld við megum láta eftir okkur; því getum við sameiginlega komið okkur svo fyrir, að við þurfum ekki að safna skuldum, en þó með góðri samvizku notið ýmsra þæginda og skemmtana, sem efni okkar leyfa. 

Hann er umhyggjusamari um mína velferð en um sjálfan sig. Sje slæmt veður, og jeg þurfi út til einhvers, gjörir hann það sjálfur. Þegar litli stubburinn hefir verið óvanalega óvær, og jeg hefi ekki sofið nótt eftir nótt, og ekki getað komið í veg fyrir að hann vaknaði, — þá er hann ekki úrillur og nöldrandi. Nei, hann tekur þá undir eins drenginn af mínum þreyttu handleggjum og biður mig að sofa. Þannig er hann með allt umhyggjusamur við mig og nærgætinn. 

Hann geymir ekki gestunum bros sitt og blíðu; hann kemur ekki fúll og óánægður frá vinnu sinni; hann leitar ekki með logandi ljósi að göllunum á heimilinu; hann styggir mig aldrei. 

Hann skoðar ekki herbergi okkar að eins sem matsal, drykkjustofu og svefnherbergi, hann leggur sig í líma til að gjöra þau að heimili okkar, ekki að eins að nafninu, heldur í raun og veru. 

Hann er svo ör af peningum við mig, sem efni hans leyfa. Vanti mig kjól eða stígvjel [svuntu eða slifsi!] biður hann mig óðara að kaupa það sem jeg þurfi. Aldrei hefi jeg þurft að „betla“ út úr honum, og aldrei hefir hann jagazt um hvað lagt væri til heimilisins. 

Við höfum komið okkur saman um, að þeir peningar, sem jeg á að hafa til heimilisins og handa mjer, eru í sjerstöku draghólfi, sem jeg hefi lykil að. Og þótt jeg haldi nákvæmlega reikninginn, grennslast hann aldrei eftir, og auðmýkir mig aldrei með því, að þurfa að biðja hann um eina eða tvær krónur handa sjálfri mjer. 

Að öllu saman lögðu, þá er maðurinn minn elskulegur, tryggur og nærgætinn eiginmaður, ástríkur faðir, ástúðlegur og skyldurækinn sonur við foreldra sína, góður bróðir systkinum sínum, áreiðanlegur vinum sínum, friðsamur nágranni, ráðvandur og áreiðanlegur verkamaður. Hann er í einu orði heiðursmaður. 

Nú munu þær systur mínar segja, sem ekki eru eins lánsamar og jeg: Hamingjan góða komi til, — hún er sjálfsagt gift einhverjum dýrðlingi, hreinasta fullkomleik í holdlegri mynd. — Ó nei, jeg er gift manni, enn ekki engli, og jeg sje að hann hefir galla, en þeir eru ekki stórir; það er ekki mitt verk, að bera þá út. 

„Já bíddu nú hæg", segir einhver, „þið hafið líklega ekki verið lengi gift, svo að þú þekkir hann ekki vel?" 

„Svo, — þá skal jeg segja yður, að í næstkomandi maí höfum við verið gift 22 ár, og eigum fjóra syni og fjórar dætur. Eftir þann tíma ímynda jeg mjer, að hver kona fari nokkurn veginn að þekkja manninn sinn. 

Þegar jeg var ung stúlka, var jeg hrædd við hjónabandið og hryggbraut marga biðla, af því jeg hjelt, að hringurinn yrði að hlekkjum, sem fjötruðu mig við harðstjóra. En í stað þess hefir það gengið svo, að jeg hefi aldrei iðrast eftir því jáyrði. 

Þetta er ekki skrök, heldur sannleiki.