20.7.12

Nasreddin, þrjár sögur







Prédikunin


Einn föstudag í bænahúsinu, sté Nasreddin í pontu og spurði söfnuðinn: „Vitið þið hvað ég ætla að prédika í dag?“ Söfnuðurinn svaraði einum hálsi neitandi. „Þá ætla ég ekki heldur að upplýsa ykkur“, sagði Nasreddin og sté niður úr stólnum.

Næsta föstudag spurði Nasreddin aftur sömu spurningar úr pontu: „Vitið þið hvað ég ætla að prédika í dag?“ Söfnuðurinn, minnugur þess hvernig Nasreddin hafði brugðist við síðast, svaraði einum hálsi „Já“. „Þá þarf ég ekki að prédika til ykkar í dag“, sagði Nasreddin og sté niður úr stólnum.

Vika leið og úr stólnum í bænahúsinu spurði Nasreddin söfnuðinn þriðja sinn og sagði: „Vitið þið hvað ég ætla að prédika í dag?“ Söfnuðurinn hafði rætt saman um það hvernig menn ættu að bregðast við og nú svaraði helmingur viðstaddra: „Já“ og helmingur viðstaddra: „Nei“.

„Þá bið ég þá sem vita, að upplýsa þá sem vita ekki“, sagði Nasreddin og sté niður úr stólnum.





Afstaða hlutanna

Nasreddin sat hugsi við árbakka. Maður kom að ánni og kallaði yfir til hans: „Hvernig kemst ég yfir um?“ „Já, en þú ert nú þegar handan við“, kallaði Nasreddin á móti.


Leitin að týndu peningunum

Dag einn kom nágranni að Nasreddin þar sem hann gekk um götur þorpsins, greinilega leitandi að einhverju. „Hvað ertu að gera?“, spurði hann. „Ég er að leita að peningunum mínum“, svaraði Nasreddin. „Viltu að ég hjálpi þér að finna þá?“, spurði nágranninn. „Já takk“, svaraði Nasreddin að bragði og saman leituðu þeir og leituðu.

Brátt komu að tveir menn og brátt fjórir til viðbótar og áður en varði var allt þorpið farið að leita að peningum Nasreddins. Allt kom fyrir ekki og peningarnir fundust ekki. Kvölda tók og birtu for að þverra. Nágranni Nasreddins, sem fyrstur hafði komið að leitinni með honum spurði: „Nú erum við búnir að leita um allt þorpið og finnum ekki peningana sem þú týndir. Ertu viss um að þú hafir týnt þeim hér?“

Nasreddin neitaði. Þá spurði nágranninn aftur og nú gætti ofurlítillar óþolinmæði í röddinni: „Af hverju erum við þá að leita hér í þorpinu, fyrst þú týndir þeim ekki hér?“

„Það er af því að hér er svo gott að leita“, svaraði Nasreddin að bragði.