Þessi barátta heppnast ekki alltaf jafn vel og hefur stundum óvæntar afleiðingar. Fyrir tveim áratugum hófst herferð sem hafði það að markmiði að kenna Íslendingum íslenskt orð til að nota í staðinn fyrir orðið „partí.“ Það varð að ráði að endurvekja gamalt íslenskt orð sem að mestu var horfið úr notkun. Það var orðið „teiti.“ Auglýsingar birtust í sjónvarpi og orðið var skrifað inn í myndasögur fyrir börn og sitthvað fleira. Í auglýsingunum var fólk hvatt til að nota orðið „teiti“ í stað þess að nota orðið „partí.“
Óhætt er að fullyrða að orðið „partí“ lifi enn góðu lífi. Og þótt margir kannist við orðið „teiti“ og noti það jafnvel stundum þá fer því fjarri að slettan hafi verið leyst af hólmi. Það skemmtilega er þó að herferðin hafði í för með sér óvæntar afleiðingar sem m.a. kölluðu á breytingar á orðinu „teiti“ í orðabókum. „Teiti“ er og hefur alltaf verið kvenkynsorð (hún teitin, teitin var góð). Orðið „partí“ hafði hinsvegar tekið sér stöðu sem hvorugkynsorð (partíið). Þegar fólk fór að skipta orðinu „partí“ út fyrir „teiti“ hafði það yfirleitt ekki hugmynd um að teiti væri í öðru kyni en partí og notaði teiti sem hvorugkynsorð (teitið, teitið var gott).
Mikill meirihluti þeirra sem á annað borð nota orðið „teiti“ nota það í hvorugkyni. Þess vegna hefur orðinu nú verið breytt í orðabók þannig að það er bæði hvorukyns- og kvenkynsorð.