Ólafur Sindri Ólafsson, Bjölluhófið
Það vita það nú ekki allir, en á 100 ára fresti, og einungis á 100 ára fresti, þá eru haldnar veglegar veislur. En þetta eru engar venjulegar veislur. Í þessum veislum, sem við skulum kalla Bjölluhóf, safnast allar bjöllur veraldar saman og fagna því að vera til. Og ég er ekki að tala um neinar kirkjubjöllur, eða dyrabjöllur, eða jafnvel brunabjöllur. Ég meina allar heimsins lífsglöðu bjöllur, allt frá veggjatítlum til jötunuxa, frá járnsmiðum til kakkalakka, frá maríubjöllum til risabjalla. Því allt eru þetta bjöllur, og allar hafa þær jafn ofboðslega gaman af að Bjölluhófinu. Þær hafa hlakkað til þess allt frá því þær fæddust, og iða í ytri stoðgrindunum að fá að búa sig upp, og fara í Bjölluhófið.
En, það er þó bara á 100 ára fresti, samt sem áður, og því komast ekki allar bjöllur í Bjölluhóf. En þær sem það gera, eru heppnar bjöllur. Fyrst sleikja þær sig allar í kring, og það meira að segja þrisvar, því það gerist ekki nema á 100 ára fresti að þær komist í Bjölluhóf. Og einmitt þess vegna keppast þær líka um að næla í ilmríkasta blómasafann til að bera á sig, og fallegasta stráið til að bera á milli vængjanna, og þær keppast líka um að bjóða fallegustu kvenbjöllunni í Bjölluhófið. Því það er engin bjalla með bjöllum, nema hafa bjölludrottningu sér við hlið, og ég tala nú ekki um í Bjölluhófi, en þau verða einungis á 100 ára fresti, svo það er eins gott að velja vel.
Og það var einmitt þetta töfraár í fyrra, og ein af hinum heppnu bjöllum var einmitt Knútur kaktusbjalla, og það var einmitt farið að styttast í Bjölluhófið. Knútur hafði sleikt sig allan í kring, ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki einu sinni þrisvar, heldur fimm sinnum! Hann var alveg ákveðinn í því að gera þetta Bjölluhóf minnisstætt, enda ekki skrítið, þar sem hann myndi aldrei á ævinni upplifa annað. Hugsið ykkur ef þið mættuð bara gera eitthvað einu sinni á ævinni! Þá hlýtur maður að vilja gera það vel. Og einmitt þess vegna bjó Knútur sig undir að sleikja sig allan í kring í sjötta skiptið. Og hann var líka búinn að safna sér dýrindis blómasafa úr langfallegustu liljum vallarins, og allar hinar bjöllurnar öfunduðu hann. Og hann var líka búinn að klippa sér fallegasta brönugrasið á öllu túninu til að hafa milli vængjanna, og allar hinar bjöllurnar öfunduðu hann. Og Knútur var stoltari en hann hafði nokkru sinni fyrr verið. Enda var hann á leið í Bjölluhóf, og það gerist ekki nema á 100 ára fresti. En einu hafði hann alveg gleymt, og það var að finna sér dýrindis bjöllustelpu til að bjóða með í Bjölluhófið. Og dýrindis bjöllustelpu varð hann að fá, því hann hafði þegar sleikt sig allan í kring sex sinnum, og hann hafði þegar fengið dýrindis blómasafa, og hann hafði þegar fengið dýrindis brönugras. Og sjáðu til, Bjölluhóf verða einungis á 100 ára fresti!
Hvernig gat Knútur hafa gleymt að bjóða bjöllustelpu? Nú voru góð ráð dýr, enda farið að styttast í Bjölluhófið stórfenglega, og allar dýrindis bjöllustelpurnar voru þegar fráteknar.
Knútur fór um allt túnið, en alls staðar voru bjöllustelpurnar komnar með bjölluherra og voru að búa sig undir Bjölluhófið af mesta móð, enda var það einungis á 100 ára fresti. Og hann fór um alla sveitina, en alls staðar voru sömu svör. Nú voru góð ráð sko ekki á gjafvirði. Knútur var orðinn úrkula vonar, og mikið var hann sorgmæddur. Í Bjölluhófið gæti hann ekki farið bjöllustelpulaus, þrátt fyrir hvað hann var hreinn, þrátt fyrir yndislega blómasafann, og jafnvel þrátt fyrir dýrindis brönugrasið. En einmitt þar sem hann lá og vorkenndi sér, því nú kæmist hann ekki í Bjölluhófið, og það er einungis á 100 ára fresti, einmitt þar sem hann lá, velti því fyrir sér og vorkenndi sjálfum sér, kom að yndisfríð bjöllustelpa. Sú fallegasta sem hann hafði augum litið, og hafði hann þó farið um alla sveit að bjóða fríðum bjöllustelpum með sér í hófið. Hann spurði hana að nafni, og kvaðst bjöllustelpan heita Karen. En þegar hann spurði hvort hún vildi fara með honum í hófið, þá var honum illilega brugðið. Hún hafði ákveðið að fara með Klepra kaffibjöllu! Og Klepri hafði bara sleikt sig einu sinni, og hann átti bara venjulegan fíflasafa, og átti ekki einu sinni brönugras, heldur bara venjulegt strá. Og hann hafði bara setið og samið fáránleg ástarljóð og skemmt sér konunglega, meðan allar hinar bjöllurnar unnu hörðum höndum við Bjölluhófsundirbúning. Þetta fannst Knúti ósanngjarnt, og hann sat heima við að ala sorg sína meðan Karen og Klepri, og allar hinar bjöllurnar skemmtu sér sem aldrei fyrr, og sem aldrei aftur, í stórfenglegasta Bjölluhófi í bjölluminnum, og þau eru einungis haldin á 100 ára fresti.