14.7.12

Bertrand Russell, Af hverju er ég ekki kristinn?





„Næsta skrefið í umræðu okkar er að fjalla um Röksemdina um fyrirframgerða áætlun. Þið þekkið þessa röksemd: Allt í heiminum er þannig hannað að við getum lifað í heiminum og ef heimurinn væri aðeins að litlu leiti öðru vísi gætum við ekki lifað í honum. Þetta er röksemdin um fyrirframgerða áætlun. Á stundum birtist hún í undarlegustu formum. Til dæmis er því haldið fram að kanínur hafi hvítt skott svo að auðvelt sé að veiða þær. Ég veit ekki hvaða skoðun kanínur hafa á þessu. Það er auðvelt að gera grín að þessari röksemd. Þið þekkið öll athugasemd Voltaire, að augljóslega sé nefið hannað þannig að það geti borið gleraugu. Grín af þessu tagi er ekki eins út í hött nú eins og það var á átjándu öld, því síðan á tímum Darwin skiljum við mun betur hvers vegna lífverur eru aðlagaðar að umhverfi sínu. Það er ekki svo að umhverfið sé aðlagað að þeirra þörfum, heldur þróuðust þær þannig að þær féllu að umhverfinu og það er grundvöllur aðlögunar. Það er ekkert sem bendir til að fyrirframgerð áætlun liggi þarna að baki.



 Þegar maður skoðar nánar röksemdina um fyrirframgerða áætlun furðar maður sig á því að fólk geti trúað því að þessi heimur, með öllum þeim hlutum sem í honum eru, með öllum göllum hans, sé það besta sem almættið og alviskunni hefur tekist að skapa á milljónum ára. Ég trúi því ekki. Heldur þú að ef þú værir almáttugur og alvitur og fengir milljónir ára til að fullkomna þinn heim, þá myndir þú ekki skapa neitt betra en Ku-Klux-Klan eða fasista? Þar á ofan, ef þú samþykkir venjuleg lögmál vísinda, verður þú að gera ráð fyrir að mannlegt líf og líf almennt á þessari plánetu muni deyja út með tíð og tíma: Það er stig í hnignun sólkerfisins; á tilteknu stigi hnignunarinnar skapast tiltekin hitaskilyrði og svo framvegis sem henta frymi og til verður líf um stundarsakir í lífssögu sólkerfisins. Þið sjáið í tunglinu hvert jörðin stefnir – eitthvað dautt, kalt og líflaust.

Mér er sagt að sjónarmið sem þessi séu niðurdrepandi og fólk segir stundum að ef það tryði þessu þá gæti það ekki lifað lengur. Takið ekki mark á þessu; þetta er allt staðleysa. Enginn hefur í raun og veru áhyggjur af því hvað muni gerast eftir milljónir ára. Jafnvel þótt þetta fólk haldi sig hafa áhyggjur af þessu þá er það að blekkja sig. Það hefur áhyggjur af mun veraldlegri hlutum, eða kannski er þetta allt bara slæmur magaverkur. Það er enginn í raun og veru alvarlega óhamingjusamur vegna þeirrar hugsunar að eitthvað muni henda þennan heim eftir milljónir ára. Þótt dapurlegt sé til þess að hugsa að lífið muni taka endi – að minnsta kosti held ég að við getum sagt sem svo þótt mér finnist stundum að það sé léttir þegar ég hugsa til þess hvernig margir eyða lífi sínu – þá er þessi hugsun ekki svo dapurleg að hún geri lífið óbærilegt. Hún fær mann bara til þess að beina sjónum sínum að öðrum hlutum.“

Þýðing: Dr. Ívar Jónsson