Stundum er sagt (líklega ranglega) að eskimóar eigi 50 mismunandi orð fyrir snjó sem öll tákni einhverja ákveðna tegund af snjó (t.d. slyddu, harðfenni eða púðursnjó). Orðið „snjór“ sem almennt yfirheiti yfir allar tegundir af snjó sé ekki til. Sama gildi um frumbyggja Tasmaníu, sem eiga nöfn yfir allar tegundir af trjám - en ekki orðið „tré.“ Ítalir eiga meira en 500 orð yfir mismunandi tegundir af makkarónum. Sum þeirra hljóma afar ólystug þegar þau eru þýdd yfir á önnur tungumál. „Strozzapreti“ merkir „kyrktir prestar“ og „vermicelli“ merkir „litlir ormar.“ Frumbyggjar Nýja-Sjálands, Maórarnir, eiga 35 orð yfir kúk. Ofangreint kemur fram í bók Bill Bryson, „Móðurmálið.“
Enginn veit með vissu hversu mörg orð eru til í íslensku. Orð fæðast og deyja. Einhver orð eru bara notuð einu sinni. Fjölmörg orð eru aðeins til í bókum og eru aldrei notuð. Varlega áætlað er hægt að safna saman lista af íslenskum orðum sem telur hálfa milljón orða. Hugsanlega liggur endanlegur fjöldi orða töluvert hærra en það. Enginn veit. Enginn veit heldur hve mörg orð eru til í þýsku, frönsku eða ensku. Við vitum þó að enskan á fleiri orð en íslenskan. Fyrst og fremst af tveim ástæðum. Í ensku er til óskaplegur fjöldi samheita og enskan er bræðingur nokkurra tungumála.
Samheiti gefa tungumáli mikla dýpt. Íslenskan er kannski dálítið lík frumbyggjamálunum sem nefnd voru áðan að því leyti að íslensk samheiti eru oftar en ekki nöfn á einhverjum fyrirbærum sem almenningur á Íslandi hafði fyrir augunum. Þannig er munur á slyddu og hagli þótt hvorttveggja sé snjór. Hafið á sér samheiti (sjór, ægir) sem og ýmis dýr (seppi, hvutti, hundur) (hestur, jór, fákur) (kýr, belja, kusa) (kisa, köttur).