Þegar breski auðjöfurinn Stephen Courtauld keypti miðaldahöllina Eltham Palace í suðausturhluta Lundúna árið 1933 var hún í niðurníðslu. Cortauld og eiginkona hans Virginia spöruðu engu til að gera höllina upp og byggðu á hallarsvæðinu nýtt hús frá grunni í glæsilegum og ríkmannlegum Art Deco-stíl.
Í hinni nýju Eltham Palace höfðu Cortauld-hjónin allt til alls, allan hugsanlegan lúxus. Meðal annars létu þau innrétta sérherbergi fyrir gæludýrið þeirra, lemúrinn Mah-Jongg.
Hjónin, sem voru barnslaus, höfðu keypt lemúrinn árið 1923 í magasínversluninni Harrods og hann fylgt þeim í hvert fótmál síðan. Í Eltham Palace fékk hann sérstaklega upphitað lítið herbergi með frumskógarmyndum máluðum á veggina. Herbergið var á annari hæð og þaðan gekk bambusstigi niður í forstofuna á jarðhæð svo „Jongy“ gæti heilsað upp á gesti.
Nóg var um gestakomur. Stephen Cortauld var erfingi mikils vefnaðarríkidæmis og hvorugt hjónanna vann nokkuð. Þeirra helsta iðja var að halda veislur fyrir fínustu Lundúnabúa — kvikmyndastjörnur, stjórnmálamenn jafnt sem aðalinn sjálfan — sem streymdu í höllina þeirra um hverja helgi.
Eltham Palace er í dag ferðamannastaður og ótrúleg húsakynnin hafa verið notuð sem svið ótal kvikmynda, auglýsinga og tónlistarmyndbanda. Þetta myndband með Florence + The Machine var til dæmis tekið þar upp:
En þó Cortauld-hjónin hafi verið félagsljón var lemúrinn Jongy það sennilega ekki. Vont orð fór af lemúrnum meðal fína fólksins sem vandi komur sínar til Eltham, enda átti hann til að bíta gesti við minnsta tilefni.
Örlagaríkasta árás Jongys átti sér þó stað áður en Courtauld-hjónin fluttu til Eltham. Árið 1930 notaði Stephen Courtauld brot af auðæfum sínum til þess að styrkja könnunarleiðangur til norðurheimskautsins. Markmið Breska íshafsleiðangurins (British Arctic Air Route Expedition) var að kortleggja strandlengju Grænlands og jafnframt að kanna veðurskilyrði á jökulbreiðunni og hvort að hægt væri mögulegt að fljúga yfir á leiðinni frá Kanada til Englands.
Leiðangursmenn, fjórtán talsins, voru allir ungir og óreyndir heimskautafarar. Stephen Cortauld bar nær allan kostnað af leiðangrinum, en með í för var bróðursonur hans, Augustine Cortauld.
Daginn áður en leiðangurinn átti að hefjast, vorið 1930, bauð Cortauld eldri til hádegisverðar um borð í snekkjunni sinni. Matarboðið tókst ekki betur en svo að Jongy beit loftskeytamanninn Percy Lemon og sleit slagæð. Lemon var gefið joð við blóðmissinum en reyndist með ofnæmi fyrir joði og veiktist heiftarlega. Fresta varð könnunarleiðangrinum í þrjá mánuði á meðan hann var að ná sér.
Breski íshafsleiðangurinn lagði loks af stað í júlí árið 1930. Loftskeytamaðurinn ómissandi Percy Lemon var með í för, eins og fer ekki framhjá þeim sem lítur á kort af Grænlandi. Hin tignarlegu Lemon-fjöll á austurströndinni, skammt frá Gunnbjörnsfjalli, hæsta tindi Grænlands, eru nefnd eftir honum.
Nánar er svo fjallað um leiðangurinn, og hlut Íslendinga í honum, hér.