Síður

11.7.12

Breski íshafsleiðangurinn 1931 og misheppnuð björgun Íslendinga


af vefnum 

Screen Shot 2012-07-06 at 21.49.29
Í júlí árið 1930 lögðu fjór­tán ævin­týrafúsir ungir Bretar af stað til Grænlands. För þeirra hafði seinkað um þrjá mán­uði af þeirri óvenju­legu ástæðu að ofdekr­aður lemúr réðst á einn leið­ang­urs­manna sem þá var staddur í mat­ar­boði um borð í snekkju.


Þessum atburði og lemúrnum óstýri­láta hefur vef­ritið Lemúrinn áður gert skil í grein:Hefðarlemúrinn sem beit heim­skautafara.

En nú skulum við sjá hvernig leið­ang­urs­mönnum tókst til þegar loks var lagt úr höfn, og af hverju kalla varð út íslenskan mál­vís­inda­pró­fessor til þess að bjarga Breta sem dvaldi aleinn í tjaldi á Grænlandsjökli.


Markmið leið­ang­urs­ins, sem kall­aður var British Arctic Air Route Expedition (eða Breski íshafs­leið­ang­ur­inn í íslenskum fjöl­miðlum) var bæði að kort­leggja aust­ur­strönd Grænlands, og gera veð­ur­rann­sóknir á Grænlandsjökli til þess að athuga hvort væri hægt væri að fljúga beint yfir jök­ul­inn á ferð milli Kanada og Evrópu.

Forsprakki leið­angrins var Henry „Gino“ Watkins. Hann var aðeins 23 ára gam­all en hæfur flug­maður og hafði þegar farið í tvo leið­angra á norð­ur­slóðir, fyrst til Edge-​​eyjar við Svalbarða og síðan til Labrador. Grænlandsleiðangurinn var hans djarf­asti til þessa.

Ferðafélaga sína valdi Watkins aðal­lega úr röðum skóla­fé­laga sinna úr Cambridge-​​háskóla. Meðalaldur þeirra var 25 ár og fæstir voru reyndir heimskautafarar.

Leiðangurinn naut stuðn­ings Konunglega land­fræði­fé­lags­ins en sá stuðn­ingur var aðal­lega tákn­rænn og mestan part kostn­að­ar­ins bar eig­andi lemúrs­ins sem minnst er á fyrr í grein­inni, breski auð­kýf­ing­ur­inn Stephen Courtauld. Hann var jafn­framt föð­ur­bróðir eins leið­ang­urs­manna, 26 ára gam­als verð­bréfa­sala, Augustine Courtauld.

Bretarnir ungu sigldu af stað til Grænlands 6. júlí um borð í gufus­konn­ort­unni Quest, sem áður hafði til­heyrt land­könn­uð­inum sein­heppna Edward Shackleton. Shackleton var á leið á Suðurskautið um borð í Quest þegar hann fékk hjarta­áfall og dó, þann 5. janúar 1921.

Gat það virki­lega boðað gott að hefja leið­ang­ur­inn um borð í skipi þar sem fræk­inn land­könn­uður hafði látið lífið?


Bækistöðvar leið­ang­ur­ins í Ammassalik.

Eftir átján daga sigl­ingu og stutta við­komu í Færeyjum kom Quest til hafnar í Ammassalik á Suðaustur-​​Grænlandi. Síðan tók við tveggja vikna erf­iði við að setja saman flug­vélar sem leið­ang­urs­menn höfðu með­ferðis og byggja yfir þær flug­skýli. Það var því komið fram á haust þegar loks var haldið upp á sjálfa jökulbreiðuna.

Uppi á miðjum jökli, rúma 225 kíló­metra vestur af strönd­inni og í 2500 metra hæð yfir sjáv­ar­máli settu Bretarnir upp veð­ur­at­hug­un­ar­stöð í byrjun sept­em­ber. „Stöðin“ var í raun eitt vesælt tjald hálf­grafið í snjó­inn innan um veð­ur­at­hug­un­ar­tækin, og þar áttu Bretarnir að dvelja yfir vet­ur­inn á mán­að­ar­löngum vöktum, tveir eða þrír í senn.


Veðurathugunarstöðin „Ice Cap Station“.

Veðrið gerð­ist þó fljótt mjög kalt og verra en Bretarnir virð­ust hafa átt von á. Mikil snjó­koma gerði það meðal ann­ars að verkum að veg­vísar að athug­un­ar­stöð­inni hurfu í snjó­dýpið. 26. októ­ber lögðu þrír Bretar — þar á meðal var Augustine Courtauld, bróð­ur­sonur auð­kýf­ings­ins — af stað á hunda­sleðum frá Ammassalik með vistir til þess að taka við af tveimur félögum þeirra sem höfðu verið í athug­un­ar­stöð­inni í mánuð.


Augustine Courtauld.

Á leið­inni yfir jök­ul­inn gerði hins­vegar svo mikið óveður að þeir voru nærri því sex vikur á leið­inni. Illa haldnir af kali komust þeir loks í athug­un­ar­stöð­ina 3. des­em­ber. Allmikið var þá gengið á vist­irnar þeirra, svo að ákveðið var að allir færu bara aftur til baka — Bretarnir tveir sem verið höfðu í athug­un­ar­stöð­inni síðan í októ­ber, og þeir þrír sem áttu að taka við af þeim.

En svo heimt­aði Augustine Courtauld að verða eftir á jökl­inum og halda áfram veð­ur­rann­sókn­unum. Hann væri hvorteðer svo illa kal­inn á tánum að hann legði ekki í aðra ferð yfir ísinn.

Hinir fóru aftur til byggða, þar sem þeir dund­uðu sér með félögum sínum að kort­leggja aust­ur­strönd­ina og veiða seli (víst með litlum glæsi­brag). Þegar líða tók á vet­ur­inn fór hins­vegar að hvarfla að ein­hverjum að hugs­an­lega gæti Courtauld verið illa staddur þarna aleinn uppi á jökl­inum í tjaldi með tak­mark­aðar vistir. Væri ekki ráð að fara að ná í hann?

Í apríl fór Watkins, forsprakki leið­ang­ur­ins, upp á jök­ul­inn en tókst ekki að finna veð­ur­at­hug­un­ar­stöð­ina aftur — hún var horfin í snjó­inn. Hann sendi sím­skeyti til Lundúna þar sem hann greindi aðstand­endum Courtauld frá þessu. Þaðan barst málið í blöðin, og fljót­lega varð mikið til fjöl­miðla­fár vegna Courtaulds, einum og yfir­gefnum á jökl­inum — meðal ann­ars á Íslandi:


Morgunblaðið, 2. maí 1931.

Ættingjar Courtaulds voru vellauð­ugir vefn­að­ar­kóngar og höfðu skilj­an­lega áhyggjur af drengnum. Og ein­hverjir virð­ast hafa brugðið á það ráð að leita til Íslend­inga. Í lok apríl fékk dr. Alexander Jóhannesson, pró­fessor í mál­vís­indum við Háskóla Íslands, sím­hring­ingu frá Bretlandi þar sem hann var beð­inn um að útvega flug­vél til þess að fljúga upp á jök­ul­inn í leit að Courtauld.

Alexander var, jafn­framt fræðistörfum, braut­ryðj­andi á sviði flug­mála á Íslandi og einn stofn­enda ann­ars Flugfélags Íslands árið 1928. Hann hófst strax handa.


Þann 30. apríl lagði varð­skipið Óðinn af stað í átt að Grænlandi. Um borð í skip­inu var flug­vél Flugfélagsins, Veiðibjallan. Veiðibjallan var ekki talin hafa nægi­legt flug­þol til þess að fljúga bein­ustu leið, og því var siglt með flug­vél­ina um borð í Óðni að haf­ís­rönd­inni milli Íslands og Grænlands. Síðan átti vélin að hefja sig til lofts af ísnum, fljúga til Ammassalik og síðan upp á jök­ull­inn með nauð­syn­legar vistir til Courtaulds.

Íslenska þjóðin fylgd­ist magn­þrungin með björg­un­ar­leið­angr­inum. Nákvæmar fréttir og skeyti frá „Dr. Alexander“ og öðrum leið­ang­urs­mönnum birt­ust dag­lega á fyrstu síðum íslenskra dag­blaða. Líklega voru Íslend­ingar ekk­ert óánægðir með þá til­hugsun að Íslend­ingar, með tveggja ára gam­alt flug­fé­lag, gætu unnið þá miklu hetju­dáð að bjarga bág­stöddum Breta á Grænlandsjökli.

Morgunblaðið skrif­aði svo á 1. maí: „Það mun eigi ofmælt, að öll íslenska þjóðin bíði þess með eft­ir­vænt­ingu hvernig þessum íslenska leið­angri reiðir af, hvernig það tekst fyrir full­hugum þeim sem réð­ust í för þessa, að verða hinum ensku vís­inda­mönnum að liði.“




Óðinn og Veiðibjallan á ísnum

Það varð áreið­an­lega ekki til þess að minnka hugs­an­legan þjóð­remb­ing, að ættingjar aum­ingja Augustines Courtaulds virt­ust ekki treysta Íslend­ingum einum fyrir örlögum hans. Um leið og Alexander var ræstur af stað höfðu þeir haft sam­band við sænskan flug­frömuð, Albin Ahrenberg, um að bjarga drengnum. Ahrenberg þessi hafði mun betri flug­kost, og lagði af stað fljúg­andi frá Malmö til Íslands, hafði hér stutta við­dvöl og hélt svo áfram til Grænlands.

Frá för Ahrenbergs var einnig greint nákvæm­lega í íslenskum dag­blöðum, svo­lítið sem og um keppni væri að ræða milli Alexanders og Ahrenbergs, eða Íslands og Svíþjóðar. Hver yrði fyrri til að koma Bretanum til bjargar?

Í glugga Morgunblaðshússins í Austurstræti var sett upp kort af norð­ur­hveli Jarðar þar sem merktar voru inn leiðir Ahrenbergs og Alexanders til Grænlands. Sannarlega æsilegt: „Þar voru jafn­harðan birtar í glugg­anum fregnir af leið­angri Óðins. Var oft mann­margt fyrir utan glugg­ann, því að menn fylgj­ast af miklum áhuga með þessum merki­lega íslenska björg­un­ar­leið­angri“ sagði Morgunblaðið sjálft frá 1. maí 1931.

Allur þjóð­remb­ingur var hins­vegar óverð­skuld­aður, því áform Alexanders og félaga mis­heppn­uð­ust. Þrátt fyrir nákvæmar útlist­anir Alexanders, í skeytum sínum til dag­blað­anna, á flug­leið­inni frá Ammassalik til bæki­stöðva Bretanna og þaðan upp á jök­ul­bung­una, komst Veiðibjallan varla í loftið. Líklega hefur ekki verið glað­legt yfir mann­fjöld­anum við Morgunblaðsgluggan þegar sú fregn barst að annar hreyf­ill vél­ar­innar hefði bilað eftir örfárra mín­útna flug.


Næstu daga voru tals­verðar deilur í íslenskum blöðum um hvað hafi eig­in­lega farið úrskeiðis. Alþýðublaðið sló því upp að leið­ang­ur­inn hafi í raun farið út um þúfur vegna ósættis leið­ang­urs­manna og kall­aði málið „ógur­legt hneyksli“ sem væri íslensku þjóð­inni „til mink­unar frammi fyrir öllum heimi“. Líklega var það þó frekar, að vit­laust bensín hafði verið sett á vélina.

Þrátt fyrir þessi gríð­ar­legu von­brigði íslensku þjóð­ar­innar allrar héldu fjöl­miðlar áfram að fylgj­ast með Svíanum Ahrenberg — kannski með örlitlum sem­ingi. Hans för varð þó ekki svo glæst heldur, því þegar hann var loks kom­inn upp á jökul og tókst að koma auga á veð­ur­at­hug­un­ar­stöð­ina hálf­grafna í snjó­inn, var Coultrauld á bak og burt.


Courtauld skömmu eftir að honum var bjargað eftir fimm mán­aða vet­ur­setu á Grænlandsjökli.

Gino Watkins forsprakki Bretanna hafði gert aðra til­raun til þess að kom­ast að athug­un­ar­stöð­inni, fundið Courtauld og farið með til byggða. Hann var þá nokkuð magur og kal­inn, og einmana eftir fimm mán­aða ein­veru á jökl­inum, en ann­ars við ágæta heilsu.

Honum hafði tek­ist að drýgja vist­irnar út vet­ur­inn, og hafði að auki „nóg af tób­aki, ágætt úrval af klass­ískum og nýrri bókum og góðan lampa til að lesa við“.

Þegar til byggða var komið sendi Courtauld áhyggju­fullu ættingjum sínum sím­skeyti þar sem hann baðst undan fleiri „hysterískum björgunarleiðangrum.“


Allt fjöl­miðla­fárið og leið­angrar bæði Íslend­ing­anna og Ahrenbergs virð­ast því hafa verið óðagát og vit­leysa frá byrjun. Courtauld hafi aldrei verið í svo bráðri lífs­hættu sem talið var. Sigurður Jónsson flug­maður sem var á Óðni sagði í við­tali við Morgunblaðið 1969 að leið­ang­ur­inn hafi verið „fljótræði“:

Þó er það vart við okkur að sak­ast, heldur hygg ég að ótti og van­hugs­aðar aðgerðir aðstand­enda Courtaulds hafi dregið okkur út í þetta. […] Það var eins og [Bretunum] væri ekk­ert um ferð okkar gefið, enda kom­umst við að þvi seinna, að aðstand­endur Courtaulds sendu leið­angur þennan án þess að hafa sam­ráð við Watkin.“

Courtauld snéri aftur til Grænlands fjórum árum síðar og náði þá fyrstur manna tindi hæsta fjalls Grænlands, Gunnbjörnsfjalli. Ljúkum nú þess­ari furðu­sögu á myndum úr leið­angri Bretanna ungu. Myndirnar tók Henry Iliffe Cozens og þær eru fegnar frá Scott-​​heimskautarannsóknarsetrinu við Cambridge-​​háskóla.


Innfæddir fylgj­ast með þegar ein De Havilland Moth-​​flugvéla leið­ang­urs­ins er dregin yfir ísþekju.


Flugvél Ahrenbergs lent á Grænlandi.




Grænlendingar og selskinnstjald.





Lemon, loft­skeyta­mað­ur­inn lemúrsbitni.


Grænlenskur hval­veiði­bátur.