Síður

11.7.12

Helikopter...þyrilvængja...þyrla


 Reglulega hefur verið barist gegn útlenskum áhrifum í málinu. Stundum með því að finna upp orð í stað þeirra sem vantaði. Þannig stóð í Morgunblaðinu árið 1950 að Gísli Gíslason í Vestmannaeyjum hefði gefið peninga til kaupa á „helikoptervjel.“


Þremur árum seinna sagði  frá heimsókn „þyrilvængju“ á íslenska flugdeginum.


Sex árum eftir það var búið að taka íslenska orðið „þyrill“ sem merkti það sama og flugvélaskrúfa og breyta því í kvenkynsorðið „þyrla.“ Orðið „þyrla“ var auðvitað til í málinu áður – en sem sagnorðið „að þyrla“ (að þyrla upp ryki).

Í dag þykir orðið „þyrla“ algjörlega sjálfsagt og eðlilegt. Okkur þætti satt að segja kjánalegt að heyra þyrlur kallaðar „helikopter“ á íslensku. 

Önnur dæmi um vel heppnaða baráttu gegn slettum eru orðin „svalir.,“ „gangstétt,“ „grindverk“ og „skrifstofa.“ Þessi orð leystu af hólmi að öllu eða a.m.k. verulegu leyti orðin: „altan,“ „fortó,“ „stakket“ og „kontór.“