Úr 1. Mósebók Gamla-Testamentisins
Jósef og bræður hans
[...]
3Ísrael unni Jósef mest allra sona sinna því að hann hafði átt hann í elli sinni. Og hann lét gera honum dragsíðan kyrtil. [1]5Eitt sinn dreymdi Jósef draum. Þegar hann sagði bræðrum sínum frá honum hötuðu þeir hann enn meir. 6„Heyrið nú hvað mig dreymdi,“ sagði hann. 7„Við vorum úti á akri að binda kornknippi og mitt kornknippi reisti sig og stóð upprétt en ykkar kornknippi röðuðu sér umhverfis og lutu mínu.“ 8Þá sögðu bræður hans við hann: „Ætlarðu að verða konungur og ríkja yfir okkur?“ Og þeir hötuðu hann enn meir vegna drauma hans og þess sem hann sagði.
9Síðan dreymdi hann annan draum og sagði bræðrum sínum frá honum: „Mig dreymdi annan draum. Mér þótti sólin, tunglið og ellefu stjörnur lúta mér.“10Þegar hann sagði föður sínum og bræðrum frá þessu ávítaði faðir hans hann og sagði: „Hvaða draumur er þetta sem þig hefur dreymt? Eigum við að koma, ég og móðir þín og bræður þínir, og lúta til jarðar fyrir þér?“ 11Og bræður hans öfunduðu hann en faðir hans festi þetta í huga sér.
Jósef seldur til Egyptalands
12Dag nokkurn, er bræður hans voru að heiman og gættu hjarðar föður síns í Síkem, 13mælti Ísrael við Jósef: „Komdu, ég ætla að senda þig til bræðra þinna þar sem þeir halda hjörðinni á beit í Síkem.“ Jósef svaraði: „Hér er ég.“ 14Ísrael sagði: „Farðu og athugaðu hvort bræðrum þínum og hjörðinni líður vel og komdu svo og segðu mér frá því.“Og hann sendi hann úr Hebronsdal og hann kom til Síkem.
15Þegar hann reikaði þar um úti á víðavangi varð maður á vegi hans. Og maðurinn spurði hann: „Að hverju leitar þú?“ 16„Ég er að leita að bræðrum mínum,“ svaraði Jósef. „Geturðu sagt mér hvar þeir halda sig með hjörðina?“17Maðurinn svaraði: „Þeir eru farnir héðan því að ég heyrði þá segja: Við skulum fara til Dótan.“ Jósef hélt þá á eftir bræðrum sínum og fann þá í Dótan.
18Er þeir sáu hann álengdar og áður en hann var kominn til þeirra lögðu þeir á ráðin um að drepa hann. 19Þeir sögðu hver við annan: „Sjáið, þarna kemur draumamaðurinn. 20Komum og drepum hann. Síðan köstum við honum ofan í gryfju og segjum að villidýr hafi étið hann. Þá sjáum við hvað verður úr draumum hans.“ 21Þegar Rúben heyrði þetta vildi hann bjarga honum úr greipum þeirra og sagði: „Nei, við skulum ekki drepa hann.“ 22Til þess að geta bjargað honum úr greipum þeirra og fært föður sínum hann aftur sagði Rúben: „Úthellið ekki blóði. Kastið honum í þessa gryfju sem er hér í eyðimörkinni en leggið ekki hendur á hann.“
23Er Jósef kom til bræðra sinna klæddu þeir hann úr kyrtlinum, dragsíða kyrtlinum, sem hann var í, 24tóku hann og köstuðu honum í gryfjuna. En gryfjan var tóm, ekkert vatn var í henni. 25Þegar þeir voru sestir niður til að matast komu þeir auga á lest Ísmaelíta sem var að koma frá Gíleað. Báru úlfaldar þeirra reykelsi, balsam og myrru sem átti að flytja til Egyptalands. 26Þá sagði Júda við bræður sína: „Hvað gagnar það okkur að drepa bróður okkar og leyna morðinu? 27Komið, við skulum selja hann Ísmaelítum en ekki leggja hendur á hann því að hann er bróðir okkar, hold okkar og blóð.“ Og bræður hans féllust á það.
28En kaupmenn frá Midíanslandi áttu leið þar fram hjá. Þeir tóku Jósef og drógu hann upp úr gryfjunni og seldu hann Ísmaelítunum fyrir tuttugu sikla silfurs en þeir fóru með Jósef til Egyptalands.
29Er Rúben kom aftur að gryfjunni var Jósef ekki þar. Reif hann þá klæði sín,30sneri til bræðra sinna og sagði: „Drengurinn er horfinn. Hvað á ég til bragðs að taka?“ 31Þá tóku þeir kyrtil Jósefs, slátruðu geithafri og dýfðu kyrtlinum ofan í blóðið. 32Því næst sendu þeir kyrtilinn og létu færa föður sínum hann með þessum orðum: „Þetta fundum við. Athugaðu hvort þetta geti verið kyrtill sonar þíns.“ 33Jakob þekkti hann og sagði: „Já, þetta er kyrtill sonar míns. Villidýr hefur étið hann. Jósef er sundur rifinn.“ 34Jakob reif klæði sín, lagði hærusekk um lendar sínar og harmaði son sinn langan tíma. 35Allir synir hans og dætur reyndu að hughreysta hann en hann lét ekki huggast og sagði: „Ég mun harma son minn þar til ég stíg sjálfur niður til heljar.“ Og hann hélt áfram að syrgja Jósef.
36Á meðan seldu Midíanítar hann til Egyptalands, Pótífar hirðmanni faraós og lífvarðarforingja.
[...]
Jósef og eiginkona Pótífars
1Jósef var fluttur til Egyptalands þar sem Pótífar, egypskur hirðmaður faraós og lífvarðarforingi, keypti hann af Ísmaelítunum sem fluttu hann þangað. 2En Drottinn var með Jósef svo að hann varð lánsamur. Hann dvaldist í húsi hins egypska húsbónda síns. 3Þegar húsbónda hans varð ljóst að Drottinn var með honum og að Drottinn lét honum heppnast allt sem hann tók sér fyrir hendur,4þá fann Jósef náð í augum hans og þjónaði honum. Hann setti Jósef yfir hús sitt og trúði honum fyrir öllu sem hann átti. 5Frá þeirri stundu, er hann hafði sett Jósef yfir hús sitt og yfir allt sem hann átti, blessaði Drottinn hús hins egypska manns vegna Jósefs. Hvíldi blessun Drottins yfir öllu sem hann átti, innan húss og utan. 6Pótífar fól Jósef til umráða allar eigur sínar og lét sig ekki varða um annað en matinn sem hann neytti.Jósef var vel vaxinn og fríður sýnum. 7Þar kom að kona húsbónda hans renndi hýru auga til hans og sagði: „Leggstu með mér!“ 8Jósef færðist undan og sagði við hana: „Húsbóndi minn lætur sig ekki varða um neitt í húsinu undir minni stjórn og hefur trúað mér fyrir öllum eigum sínum. 9Hann hefur ekki meira vald í þessu húsi en ég og hann neitar mér ekki um neitt nema þig vegna þess að þú ert kona hans. Hvers vegna skyldi ég þá aðhafast svo illt og syndga á móti Guði?“ 10Þó að hún reyndi að tala Jósef til dag eftir dag þá lét hann ekki að vilja hennar að leggjast hjá henni og vera með henni.
11Dag einn er hann gekk til vinnu sinnar inn í húsið og enginn heimilismanna var þar inni 12greip hún í skikkju hans og sagði: „Leggstu með mér!“ Hann skildi skikkjuna eftir í hendi hennar og lagði á flótta út. 13Þegar hún sá að hann hafði látið eftir skikkjuna í hendi hennar og var flúinn út 14þá kallaði hún á heimafólk sitt og sagði: „Sjáið, hann hefur fært okkur hebreskan mann sem skemmtir sér á kostnað okkar. Hann kom inn til mín og vildi leggjast með mér en ég æpti hástöfum. 15Þegar hann heyrði hróp mín og köll lét hann skikkju sína eftir hjá mér og lagði á flótta.“ 16Hún geymdi skikkju hans þangað til húsbóndi hans kom heim. 17Þá endurtók hún sögu sína og sagði: „Hebreski þrællinn, sem þú færðir okkur, kom til mín til þess að gamna sér. 18En þegar ég hrópaði og kallaði skildi hann skikkju sína eftir hjá mér og lagði á flótta.“
19Er húsbóndi hans heyrði konu sína skýra frá hvernig þræll hans hafði komið fram við hana reiddist hann mjög. 20Lét húsbóndinn taka Jósef og setja hann í fangelsið þar sem fangar konungs voru geymdir. Þar var hann hafður í haldi.
21En Drottinn var með Jósef, auðsýndi honum miskunn og lét hann finna náð í augum fangelsisstjórans 22sem setti Jósef yfir alla hina fangana og gerði hann ábyrgan fyrir allri vinnu í fangelsinu. 23Fangelsisstjórinn þurfti ekki að skipta sér af neinu sem Jósef var trúað fyrir því að Drottinn var með honum. Allt sem hann tók sér fyrir hendur lét Drottinn lánast honum.
Jósef ræður drauma í fangelsinu
1Nokkru síðar brutu byrlari Egyptalandskonungs og bakarinn gegn herra sínum, konunginum. 2Faraó reiddist báðum hirðmönnum sínum, yfirbyrlaranum og yfirbakaranum, 3og lét hneppa þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, í fangelsið þar sem Jósef var í haldi. 4Lífvarðarforinginn fól Jósef að þjóna þeim.
Er þeir höfðu verið um hríð í varðhaldi 5dreymdi þá báða draum, byrlara og bakara Egyptalandskonungs, sem sátu í fangelsinu, sinn drauminn hvorn sömu nóttina, og hafði hvor draumurinn sína merkingu. 6Þegar Jósef kom inn til þeirra um morguninn sá hann að þeir voru daufir í dálkinn. 7„Hvers vegna eruð þið svo daprir í bragði í dag?“ spurði hann þá hirðmenn faraós sem sátu með honum í varðhaldi í húsi húsbónda hans. 8Þeir svöruðu: „Okkur hefur dreymt draum og hér er enginn sem getur ráðið hann.“ Þá sagði Jósef: „Er það ekki Guðs að ráða drauma? Segið mér þó drauminn.“
9Þá sagði yfirbyrlarinn Jósef draum sinn: „Mig dreymdi vínvið fyrir framan mig,“ sagði hann. 10„Á vínviðinum voru þrjár greinar og jafnskjótt sem hann skaut frjóöngum spruttu blóm hans út og klasar hans urðu þroskuð vínber. 11Ég hélt á bikar faraós í hendinni, tók vínberin og kreisti safann úr þeim í bikarinn og rétti faraó síðan bikarinn.“
12Þá sagði Jósef við hann: „Ráðning draumsins er þessi: Vínviðargreinarnar þrjár merkja þrjá daga. 13Að þrem dögum liðnum mun faraó hefja höfuð þitt og veita þér aftur fyrra embætti þitt. Þá munt þú aftur bera faraó bikarinn eins og þú varst vanur að gera þegar þú varst byrlari hans. 14En minnstu mín þegar hagur þinn vænkast. Sýndu mér þann vináttuvott að nefna mig við faraó og hjálpa mér þannig úr þessu húsi. 15Mér var rænt úr landi Hebrea og hér hef ég ekki heldur neitt það til saka unnið að ég yrði settur í þessa dýflissu.“
16Þegar yfirbakarinn heyrði hversu góð ráðning hans var sagði hann við Jósef: „Mig dreymdi líka að ég bæri á höfðinu þrjár körfur með hveitibrauði. 17Í efstu körfunni var alls konar brauð handa faraó en fuglarnir átu það úr körfunni á höfði mér.“ 18Þá sagði Jósef: „Ráðning draumsins er þessi: Körfurnar þrjár merkja þrjá daga. 19Að þrem dögum liðnum mun faraó hefja höfuð þitt af þér,[1]
20Á þriðja degi, á afmælisdegi sínum, hélt faraó öllum þjónum sínum veislu. Þá leysti hann yfirbyrlarann og yfirbakarann úr haldi [2]
Jósef ræður drauma faraós
1Að tveim árum liðnum dreymdi faraó að hann stæði við Níl 2og að upp úr ánni kæmu sjö fallegar og vel aldar kýr sem fóru að bíta sefgresið. 3Á eftir þeim komu sjö aðrar kýr upp úr ánni, ljótar og horaðar. Þær staðnæmdust hjá hinum kúnum á árbakkanum. 4Síðan átu ljótu og horuðu kýrnar upp sjö fallegu og vel öldu kýrnar. Þá vaknaði faraó.5Hann sofnaði aftur og dreymdi annan draum þar sem sjö öx uxu á einni stöng, þrýstin og væn. 6Á eftir þeim spruttu sjö öx, grönn og skrælnuð af austanvindi. 7Grönnu öxin svelgdu í sig þrýstnu og fullu öxin sjö. Þá vaknaði faraó og varð ljóst að þetta hafði verið draumur.
8Um morguninn var honum órótt í skapi. Sendi hann þá eftir öllum spásagnarmönnum Egyptalands og vitringum. Faraó sagði þeim drauma sína en enginn gat ráðið þá fyrir hann.
9Þá tók yfirbyrlarinn til máls og sagði við faraó: „Ég minnist í dag synda minna.10Faraó reiddist okkur yfirbakaranum, þjónum sínum, og hneppti í varðhald í húsi lífvarðarforingjans. 11Nótt eina dreymdi okkur báða draum, sinn drauminn hvorn, og hafði hvor draumurinn sína merkingu. 12Þar var með okkur ungur Hebrei sem var í þjónustu lífvarðarforingjans. Við sögðum honum drauma okkar og hann réð þá báða fyrir okkur. 13Svo fór að ráðning hans á draumunum rættist því að ég var aftur settur í embætti mitt en hinn var hengdur.“
14Þá sendi faraó eftir Jósef og var hann í skyndi sóttur í fangelsið. Eftir að hann hafði verið klipptur og honum fengin ný klæði gekk Jósef fyrir faraó. 15Þá sagði faraó við hann: „Mig dreymdi draum sem enginn hefur getað ráðið. En um þig hef ég heyrt að þú ráðir hvern þann draum sem þú heyrir.“ 16Jósef svaraði: „Ekki er það á mínu valdi en Guð mun veita faraó svar sem boðar honum heill.“
17Faraó sagði við Jósef: „Mig dreymdi að ég stæði á bakka Nílar 18þegar upp úr ánni komu sjö vel aldar og fallegar kýr og fóru að bíta sefgresið. 19Á eftir þeim komu upp sjö aðrar kýr, svo renglulegar, ljótar og horaðar að ég hef engar séð jafnljótar í öllu Egyptalandi. 20Þessar horuðu og ljótu kýr átu sjö feitu kýrnar. 21Er þær höfðu étið þær var það ekki á þeim að sjá því að þær voru jafnljótar og áður. Þá vaknaði ég. 22Mig dreymdi líka að ég sæi að sjö öx uxu á einni stöng, full og væn. 23Á eftir þeim spruttu sjö kornlaus öx, grönn og skrælnuð af austanvindi, 24og grönnu öxin svelgdu í sig vænu öxin sjö. Ég hef sagt spásagnarmönnunum frá þessu en enginn gat útskýrt það fyrir mér.“
25Jósef sagði við faraó: „Það sem faraó dreymdi er einn og sami draumurinn. Guð hefur birt faraó hvað hann hefur í hyggju. 26Sjö vænu kýrnar merkja sjö ár og sjö vænu öxin merkja einnig sjö ár. Þetta er einn og sami draumur. 27Sjö mögru og ljótu kýrnar, sem komu á eftir hinum, merkja sjö ár og sjö tómu öxin, sem skrælnuð voru af austanvindi, merkja sjö ára hungursneyð. 28Eins og ég hef þegar sagt faraó þá hefur Guð birt honum hvað hann hefur í hyggju. 29Sjö allsnægtaár koma um allt Egyptaland. 30Í kjölfar þeirra kemur sjö ára hungursneyð svo að allar nægtirnar í Egyptalandi gleymast. Hungursneyðin mun eyða landið. 31Nægtirnar verða óþekktar í landinu vegna hungursneyðarinnar sem á eftir kemur því að hún verður mjög mikil.32Ástæðan til þess að þig dreymdi tvisvar hið sama er sú að þetta er fastráðið af Guði og Guð mun fljótlega láta það verða.
33Þess vegna ætti faraó nú að svipast um eftir hyggnum og vitrum manni og setja hann yfir Egyptaland. 34Faraó láti til sín taka og skipi umsjónarmenn yfir landið og taki fimmtung af afrakstri Egyptalands á sjö nægtaárunum. 35Á góðu árunum, sem fara í hönd, skulu þeir safna vistum og fá faraó kornbirgðirnar til umráða og geyma þær í borgunum. 36Vistirnar skulu vera forði fyrir landið á mögru árunum sjö, sem koma munu yfir Egyptaland, þannig að hungursneyðin eyði ekki landinu.“
Jósef verður ráðsherra
37Faraó og öllum þjónum hans leist vel á þessi ráð. 38Faraó sagði við þjóna sína: „Er annan slíkan mann að finna sem Guðs andi býr í?“ 39Faraó sagði við Jósef: „Af því að Guð hefur birt þér allt þetta þá er enginn svo hygginn og vitur sem þú. 40Ég set þig yfir hús mitt og öll þjóð mín mun hlýða þér. Aðeins hásætið hef ég fram yfir þig.“41Faraó sagði við Jósef: „Ég set þig yfir allt Egyptaland.“ 42Hann tók innsiglishring sinn af hendi sér og dró á hönd Jósefs, lét síðan færa hann í dýrindis línklæði og hengdi gullkeðju um háls honum. 43Hann lét aka honum í næstbesta vagni sínum og menn hrópuðu fyrir honum: „Abrek“, [1]
44Faraó sagði við Jósef: „Ég er faraó, enginn hreyfi legg né lið í Egyptalandi nema þú skipir svo fyrir.“ 45Og faraó nefndi Jósef Safenat-panea og gaf honum fyrir konu Asenat, dóttur Pótífera, prests í Ón. Síðan ferðaðist Jósef um Egyptaland.
46Jósef var þrítugur að aldri er hann gekk í þjónustu faraós Egyptalandskonungs. Síðan hélt Jósef burt frá faraó og ferðaðist um allt Egyptaland.
47Nægtaárin sjö varð mikil uppskera í landinu. 48Þá lét Jósef safna saman öllum vistum nægtaáranna sjö í Egyptalandi og safnaði vistunum í borgirnar. Í sérhverja borg safnaði hann vistunum af ökrunum umhverfis hana. 49Jósef hrúgaði saman korni sem sandi á sjávarströnd. Það var svo mikið að menn gáfust upp á að mæla það því að það varð ekki mælt.
50Jósef fæddust tveir synir áður en fyrsta hallærið kom. Þá syni fæddi Asenat honum, dóttir Pótífera, prests í Ón. 51Jósef nefndi hinn frumgetna Manasse, „því að Guð hefur látið mig gleyma bæði þjáningum mínum og ætt,“ sagði hann. 52En hinn nefndi hann Efraím, „því að Guð hefur gert mig frjósaman í landi eymdar minnar,“ sagði hann.
53Þegar nægtaárin sjö í Egyptalandi voru á enda 54tóku við sjö ár hungursneyðar eins og Jósef hafði sagt. Í öllum löndum var hallæri en um allt Egyptaland var til brauð.
55Þegar hungursneyðin gekk síðan yfir allt Egyptaland heimtaði lýðurinn brauð af faraó en hann svaraði: „Farið til Jósefs og gerið eins og hann segir ykkur.“ 56Hungrið gekk yfir allan heiminn og Jósef opnaði öll forðabúrin og seldi Egyptum korn er hungrið svarf að í Egyptalandi. 57Menn komu þá frá öllum löndum til Egyptalands til þess að kaupa korn hjá Jósef því að hungrið svarf hvarvetna að.
Bræður Jósefs koma til Egyptalands
1Jakob frétti að til væri korn í Egyptalandi og sagði við syni sína: „Eftir hverju bíðið þið?“ 2Og hann hélt áfram: „Ég hef heyrt að til sé korn í Egyptalandi. Farið þangað og kaupið korn handa okkur svo að við höldum lífi og deyjum ekki.“ 3Þá lögðu tíu bræður Jósefs af stað til að kaupa korn í Egyptalandi. 4En Jakob lét ekki Benjamín, bróður Jósefs, fara með bræðrum sínum því að hann óttaðist að hann kynni að verða fyrir slysi.5Synir Ísraels voru meðal allra þeirra sem komu til að kaupa korn því að hungursneyð ríkti í Kanaanslandi. 6En Jósef var við stjórnvölinn í Egyptalandi og það var hann sem seldi öllum íbúum landsins korn. Bræður Jósefs komu, lutu honum og féllu fram á ásjónu sína. 7Þegar Jósef sá bræður sína þekkti hann þá en lét ekki á því bera heldur spurði hranalega: „Hvaðan komið þið?“ Þeir svöruðu: „Frá Kanaanslandi til að kaupa vistir.“
8Jósef þekkti bræður sína en þeir þekktu hann ekki. 9Hann minntist draumanna sem hann hafði dreymt um þá og sagði: „Þið eruð njósnarar, komnir til þess að finna veilur í vörn landsins.“ 10„Nei, herra minn,“ svöruðu þeir, „þjónar þínir eru komnir til að kaupa vistir. 11Við erum allir synir sama manns, heiðarlegir menn og ekki njósnarar.“ 12En Jósef sagði við þá: „Nei, þið eruð komnir til að leita að veilum í vörn landsins.“
13Þeir svöruðu: „Við þjónar þínir erum tólf bræður, synir sama manns í Kanaanslandi. Yngsti bróðirinn er nú hjá föður okkar og einn er ekki lengur á lífi.“ 14Jósef sagði: „Þið eruð njósnarar eins og ég sagði. 15En þannig mun ég reyna ykkur: Svo sannarlega sem faraó lifir skuluð þið ekki sleppa héðan nema yngsti bróðir ykkar komi hingað. 16Sendið einn ykkar eftir honum en þið hinir skuluð vera hér í haldi þar til í ljós er komið hvort þið hafið sagt satt. Reynist það ekki vera eruð þið njósnarar, svo sannarlega sem faraó lifir.“17Síðan hafði hann þá í varðhaldi í þrjá daga.
18Á þriðja degi sagði Jósef við þá: „Ef þið gerið eins og ég segi munuð þið halda lífi því að ég óttast Guð. 19Til að sýna að þið séuð heiðarlegir skal einn ykkar bræðranna verða eftir í böndum í dýflissunni þar sem þið voruð en þið hinir megið halda heim á leið með korn til bjargar þurfandi heimilum ykkar.20Komið svo til mín með yngsta bróður ykkar og sýnið þannig að þið hafið sagt satt og þá munuð þið ekki týna lífi.“ Þeir féllust á það.
21Bræðurnir sögðu hver við annan: „Þetta er refsingin fyrir það sem við gerðum bróður okkar. Við sáum örvæntingu hans þegar hann baðst vægðar en við létum sem við heyrðum það ekki. Þess vegna erum við lentir í þessum vanda.“
22Rúben svaraði þeim: „Ég bað ykkur að skaða ekki drenginn en þið létuð sem þið heyrðuð það ekki og nú fáum við að gjalda fyrir blóð hans.“
23Þeir vissu ekki að Jósef skildi þá því að hann hafði talað við þá með aðstoð túlks. 24Þá vék Jósef frá þeim og grét en sneri síðan til þeirra aftur og talaði við þá. Hann tók Símeon úr hópnum og lét binda hann fyrir augum þeirra. 25Því næst gaf Jósef fyrirmæli um að fylla sekki þeirra af korni og láta silfurpeninga hvers þeirra aftur í sekk hans og fá þeim nesti til ferðarinnar og það var gert.