Síður

11.7.12

Ljóðastríð


 

Það má segja að hér sé skáldskapurinn orðinn furðulega flókinn. Orðaröð er breytt og flókin samheiti notuð í stað einfaldra orða. Það fór enda svo að úr þessu öllu varð dálítið ljóðastríð á Íslandi. Það er líklega rétt að segja að upptök þess stríðs hafi verið hræðilegur atburður úti í Noregi. Þannig var að hingað komu fréttir um að kona hefði verið úti á gangi með unga tvíbura þegar hún lenti í mjög vondu veðri. Svo vondu að hún komst ekki á milli bæja. Þegar hún sá að þau myndu ekki bjargast klæddi hún sig úr hverri spjör og klæddi börnin sín í og lagðist svo hjá þeim svo þau væru í skjóli og fraus í hel. Morgunin eftir fannst konan og höfðu þá bæði börnin lifað.



Um þetta samdi ritstjóri nokkur ljóð sem hann birti á áberandi stað í tímariti sínu. Þar lýsir hann fundinum svona:

Að næsta morgni menn hana finna,
í megnis frosti dána, helstinna.
En þá stranga upp taka reifa,
í þeim bæði börnin sig hreyfa.


Þetta þótti ungu eyfirsku skáldi í Kaupmannahöfn ofsalega illa farið með fallegt efni. Hann hét Jónas Hallgrímsson. Í bréfi til vinar síns leikur hann sér að því að yrkja kvæðið upp á nýtt – en núna eins og maður myndi yrkja ef maður hefði snefil af smekkvísi og hæfileikum. Þetta sama erindi varð svona í meðförum Jónasar.


Svo þegar dagur úr dökkvanum rís,
dauð er hún fundin á kolbláum ís. 
Snjóhvíta fannblæju lagði yfir lík
líknandi vetur, en miskunnarrík
sól móti sveininum lítur.



Þess má geta að Jónas sá enga ástæðu til þess að láta konuna burðast með tvö börn í ljóðinu þegar eitt dugði jafn vel. Stundum er sagt að hafa skuli það sem betur hljómar. Það var eiginlega lífsspeki Jónasar.

Mörgum mislíkaði hrokinn og rembingurinn í þessu unga skáldi suður í Kaupmannahöfn og fremsta rímnaskáld þjóðarinnar kom vini sínum ritstjóranum til varnar og orti níðkvæði um Jónas og félaga. Þegar svo þetta sama skáld gaf seinna út rímur, sem ekki þóttu sérlega góðar, stökk Jónas til og hefndi fyrir ljóðið.

Hann skrifaði í tímarit sitt Fjölni ritdóm um rímurnar þar sem hann tætti þær í sig með ákaflega kraftmiklum, og sumir myndu eflaust segja ruddalegum, hætti (skoða má dóminn hér). Hann tætti sérstaklega í sig samheitin og taldi upp mörg dæmi um bæði ljótt og illa hugsað skáldamál. Eftir þetta fór rímnakveðskapur hratt úr tísku hjá þjóðinni – sem kannski sést best á því að skáldið sem Jónas tók svona í gegn dó úr hungri og ofdrykkju í Reykjavík rúmum áratug seinna, þrátt fyrir að hljóta að teljast eitt af fremstu skáldum þjóðarinnar hvað sem Jónasi fannst.