Síður

14.7.12

William Shakespeare, Ríkharður III







Eyvindur Karlsson les

Nú hefur sjálfur sólguð Jórvíkinga 
breytt vetri rauna vorra í sumar-dýrð. 
Hvert ský, sem yfir ættum vorum grúfði, 
er grafið djúpt í dimman hafsins barm. 
Um enni vor er sigur-sveigum hlaðið, 
og rofnir skildir skarta á vegg til minja, 
orrahríð snúið uppí gaman-fundi, 
hergöngu-lagi í léttúðugan dans. 
Stríðsguðinn hefur upp lyft ygglibrúnum, 
því hann, sem fyrr sat hrinbrynjaðan fák          10 
og setti hroll að hræddum fjenda-sálum, 
sprangar nú liðug spor í kvenna-dyngju 
við lostasælan lútu-strengja klið. 
En ég, sem var ekki' ætlaður til ásta, 
né til að hampa hylli spegilsins, 
ég, klúr í sniðum, sneyddur þokkans valdi 
sem reisir kamb við káta lipurtá, 
ég, firrtur þessum fagra gjörvileik, 
svikinn um vöxt af fláttskap forlaganna 
og sendur fyrir tímann, vesöl vansmíð            20 
hálfköruð inní heimsins andardrátt,  
í þokkabót svo bæklaður og haltur 
að rakkar gelta að sjá mig hökta hjá, 
nei, ég hef enga sælli dægradvöl 
á þessum mildu friðarflautu-tímum 
en laumast til að líta á skuggann minn 
ef sólin skín, og sjá minn óskapnað. 
Og fyrst mér reynist ekki í ástum fært 
að kæta þessa tungumjúku tíð, 
þá skal ég klífa á kjöl með hrottaskap              30 
sem hatar glys og glaum vors aldarháttar. 
Ráð hef ég bruggað, meinlegt forspjall magnað 
af spádóms-galdri, vísna-dári og draumum, 
sem kveikir heljar-hatur milli kóngs 
og hertogans af Klarens, bróður míns. 
Ef Játvarð konung má svo traustan telja 
sem ég er lævís, lendir hertoginn 
af Klarens beint í dýflissuna í dag; 
því spásögn hermir bert, að bruggað sé 
banaráð sonum Játvarðs kóngs, af „G“!             40 
Sökktu minn þanki, í sálar djúp; hér kemur 
sá herra af Klarens. 
                                                                              William Shakespeare, Ríkharður III