Ein af ástæðum þess hve orðaforði ensku er ólíkur íslensku er að fleiri þjóðir lögðu undir sig svæði sem nú tilheyra Englandi. Rómverjar höfðu þar allnokkuð veldi og normanar, sem voru franskir ættbálkar. Í því sambandi er gaman að sjá hvernig stéttarmunur hefur haft áhrif á þróun enskrar tungu. Á tímabili var yfirstéttin í Englandi frönskumælandi en verkafólkið talaði forna ensku. Þetta verður skemmtilega ljóst þegar borin eru saman nöfn lifandi dýra annarsvegar og þess matar sem unninn er úr dýrunum.
Á ensku heitir kýr enn cow en kjöt af nautgripum heitir beef. Sama kjöt á frönsku heitir beouf.
Kálfur er calf en kálfakjöt er veal (veau á frönsku).
Svín er swine en svínakjöt er pork (porc).
Hæna er hen en hænsnakjöt er poultry (poulet).
Þannig komst á sú hefð að frönskumælandi yfirstéttin borðaði máltíðir með frönskum nöfnum en forn-enskumælandi undirstéttin gætti dýra með enskum heitum.
Á íslandi skapaðist aldrei hefð fyrir miklum innflutningi fólks af útlendum uppruna. Þess vegna var yfirleitt aðeins talað eitt mál í landinu, sem breyttist lítið með tímanum miðað við mörg önnur mál. Þó hafði það auðvitað sín áhrif að tilheyra Danmörku nokkuð lengi. Mörg dönsk orð hafa verið tekin upp í íslensku og Halldór Laxness sagði einu sinni að þjóðin væri orðin svo léleg í dönsku að hún vissi ekki lengur hvað væri íslenska og hvað dönskuslettur.