14.7.12

James Thurber, Kanínurnar sem ollu öllum vandræðunum



Kanínurnar sem ollu öllum vandræðunum 


Fyrir svo stuttu síðan að jafnvel börn rekur minni til þess var kanínufjölskylda sem bjó nálægt úlfastóði. Úlfarnir tilkynntu að þeim líkuðu ekki lífshættir kanínanna. (Úlfarnir voru mjög hrifnir af eigin lífsháttum, því það voru réttir lífshættir). Nótt eina fórust nokkrir úlfar í jarðskjálfta og var kanínunum kennt þar um, því það er alkunna að kanínur stappa á jörðinni með afturfótunum og valda jarðskjálftum. Aðra nótt drapst einn úlfurinn eftir að eldingu sló niður í hann og var kanínunum einnig kennt um það, því það er alkunna að grænmetisætur valda eldingum. Úlfarnir hótuðu að siða kanínurnar til, ef þær yrðu ekki til friðs, og kanínurnar ákváðu að hlaupast á brott og setjast að á eyðiey. En hin dýrin, sem bjuggu mun lengra frá, skömmuðu þær, og sögðu „Þið verðið að vera kyrrar og vera hugrakkar. Þetta er ekki heimur fyrir þá sem hlaupast á brott. Ef úlfarnir ráðast á ykkur munum við koma ykkur til hjálpar, að öllum líkindum.“ Svo kanínurnar héldu áfram að búa nálægt úlfunum og dag einn varð hræðilegt flóð sem drekkti mörgum úlfinum. Kanínum var þar kennt um, því það er alkunna að gulrótanartarar með löng eyru valda flóðum. Úlfarnir náðu kanínunum og fangelsuðu þær, því það var kanínunum sjálfum fyrir bestu. 


Þegar ekkert fréttist af kanínum í nokkrar vikur heimtuðu hin dýrin að fá að vita um afdrif þeirra. Úlfarnir svöruðu því til að kanínurnar hefðu verið étnar, og fyrst þær hefðu verið étnar væri málið nú innanríkismál. En hin dýrin vöruðu við því að þau kynnu að safnast saman gegn úlfunum nema einhver ástæða væri gefin fyrir eyðingu kanínanna. Svo að úlfarnir gáfu þeim ástæðu. „Þær reyndu að flýja“, sögðu úlfarnir „og eins og þið vitið er þetta ekki heimur fyrir þá sem hlaupast á brott.“ 


 Boðskapur sögunnar: Flýðu undir eins til næstu eyðieyjar.