17.7.12

Kristín Geirsdóttir frá Hringveri, Uppboðsdagur



Naust lágu úti við sjó. Niður af bænum var dálitil vík, aðdjúp með mjúkri sandfjöru, þar var gott að lenda og þar skoluðu öldurnar oft upp rekavið og auk þess allskonar skrítnum skeljum og kufungum. Naustafjaran skemmdi aldrei neitt, hversu viðkvæmt og brothætt sem það var. 


Einu sinni rak þar lík af útlendum sjómanni, sem farist hafði af togara úti á firðinum, það var fært til kirkju og grafið í vígðri mold, og Rannveig í Naustum leit síðan alltaf eftir leiðinu. 


Það var sagt, að í fornöld hefði verið skipalægi og uppsátur í Naustum, og á höfðanum við víkina norðanverða var hár fornmannahaugur, sem sást að langar leiðir. Þar átti að vera leyndur fjársjóður úr forneskju, en enginn þorði að grafa eftir honum, því þá átti Naustabærinn að brenna, og það var óheillamerki að ganga í berhögg við gömul munnmæli.  


Hallur gamli í Naustum renndi byttuskelinni sinni að landi hráslagakaldan morgun í júníbyrjun. Í lendingunni var dálítið kvikugjálfur, byttan ruggaði sitt á hvað, en Hallur var enginn viðvaningur, hann sætti lagi meðan aldan féll út, stökk ofan í fjöruborðið, kippti í farið og smámjakaði því upp úr flæðarmálinu, síðan sótti hann nokkur hvalbeinsrif og raðaði i fjöruna framan við farið, það rann betur eftir þeim en samt veitti honum erfitt að setja einn, honum vannst það meira af lagi og gömlum vana en kröftum. Loks hafSði hann komið byttunni upp á grastorfuna ofan við fjöruna, þar var henni óhætt. — Hallur varp mæðinni og þurrkaði svitann af enni sér með rifnum tóbaksklút, hallaði sér að borðstokknum og starði sljóum augum út á víkina. 


Andlit hans var dökkt og hrukkótt, tekið af endalausum barningi við brim og hríðar, hárið og vangaskeggið grátt og úfið, en svipurinn dapur og góðlátlegur. Hann átti ennþá bágt með að átta sig á því hann Hallur gamli, að þetta væri í síðasta sinn, sem hann kippti byttunni sinni a land i Naustafjörunni, hugsunin um það gerði hann ringlaðan. Það var eins og heimskulegur draumur, sem gott er að gleyma, þegar maður vaknar. 


En hann gat bara ekki vaknað upp frá þessu. Að stundarkorni liðnu átti að halda uppboð á ruslinu hans— byttunni líka, og á morgun flyttu þau svo alfarin, Rannveig og hann, það hafði þó hvorugt þeirra ætlað að fara lifandi frá Naustum.