17.7.12

Sigurjón Friðjónsson, Skrifamál einsetumannsins






Blátt. Allt loftið blátt. Dökkblátt; fagurblátt. Og í þessu bláa hafi sindrandi sólkringla yfir heiðarbrún. Eg leita að orðum og eg finn lengi ekki annað en þetta: Blátt; dökkblátt; fagurblátt. Og sindrandi sólkringla yfir lágri heiðarbrún - eins og hún væri á næstu grösum. Svo tínast orðin að: Þögn. Unaður. Sumardýrð. Helgidagskyrrð. Eg hika við „sumardýrð“.  Þetta er á góu. Enginn fuglasöngur; enginn  lækjarniður. - Lágur fossadynur í fjarska. -


„Helgidagskyrrð" minnir mig á messugjörð fyrir 50 árum. Eg sé Jón í Brekku á bekk framundan mér. Hann dottar; missir höfuðið niður á bringu; hrekkur við, lyftir upp höfðinu - og  missir það niður á bringu aftur. - Eg geng frá bænum; langar upp að Austurhlíð. En hún er enn í skugga. Eg geng út á hól og horfi yfir dalinn. Þögn. Unaður. - Þetta er nóg. Sindrandi sólkringla í bláu hafi; lofthafi. Lágur vatnaniður í fjarska. -


Uppruni trúarbragðanna í hræðslu! Hvílíkur barnaskapur. Hvað er eðlilegra en tilbeiðsla sólarinnar á fögrum morgni? Hvað er ákjósanlegra en unaður? Algleymisnautn líðandi stundar? Hvað upprunalegra en ástrík löngun til að halla sér að móðurbrjósti - eða föðurhjarta? Hvað sterkara en löngunin til að halla  sér að barmi. - Að barmi þínum - sem ert horfin fyrir löngu. - Drottinn minn! - Stingurinn. Örið, sem rifnar upp. Sárið, sem aldrei grær.  Unaður - og sorg. Alveg á næstu grösum hvað við annað.