18.7.12

Reynir Antonsson, Handtekinn fyrir njósnir í Alsír


Reynir Antonsson (f. 1948) fæddist alblindur en læknum tókst að bjarga örlítilli sjón á öðru auga. Hitt augað þurfti að fjarlægja og var annað úr postulíni sett í staðinn. Þegar honum varð ljóst að fyrir fatlaðan mann var lítið að gera í íslensku samfélagi upp úr 1960 ákvað hann að ganga menntaveginn og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og hélt síðan til Frakklands til náms. Þá hafði hann fengið að gjöf frá bekkjarfélögum sínum lítinn kíki sem hann hafði í bandi um hálsinn. Með kíkinum gat hann skoðað heiminn. Upp frá því fór hann margar ferðir um Evrópu þvera og endilanga og skoðaði heiminn gegnum þetta mjóa rör. Hér segir hann frá því þegar hann var handtekinn fyrir njósnir í Alsír.






„Þetta hefur sennilega verið árið 1972 um páskaleytið, því ég notaði fríið sem ég fékk frá skólanum. Ég man að ég fór þangað með ferju og fyrr en varði var ég kominn til borgarinnar El-Oued, sem stundum hefur verið kölluð borg hinna þúsund hvolfþaka. Hún er eins og nokkurskonar vin í Saharaeyðimörkinni. Þegar til borgarinnar kom fór ég að skoða mig um, þarna var yfirstandandi einhverskonar frjósemishátíð og ég í sakleysi mínu fylgdist með því sem fram fór með kíkinn fyrir öðru auganu. Vissi ég ekki fyrr til en að mér réðust tveir lögregluþjónar, alveg kolbrjálaðir, töluðu ekkert nema arabísku sem ég ekki skildi, og færðu mig til höfuðstöðvanna. Þar tók ekki betra við því yfirmaður þeirra var lítill sáttasemjari. Þrifu þeir af mér kíkinn og skoðuðu hann í krók og kring. Fór þeim all mikið á milli á arabísku. Yfírmaðurinn talaði einnig frönsku og sakaði hann mig um njósnir, sem var hálf hlægilegt því þarna var ekkert til að njósna um, hvorki hernaðarmannvirki né annað. Lauk viðskiptum mínum við þessa höfðingja á þá leið að yfirmaðurinn laust mig þéttingsfast í andlitið áður en mér var afhentur kíkirinn og mér kastað út. Lítið fór fyrir formlegheitum við þessar aðstæður og ekki höfðu þeir mikið fyrir því að biðjast afsökunar á framferði sínu. Held ég að þeir hafi einungis verið að sýna vald sitt, valið mig sem fórnarlamb en síðan séð að lítill akkur væri í að angra mig, enda héldu þeir mér ekki nema í 20 mínútur.“