14.7.12

Sigrún Sveinbjörnsdóttir, Úr ávarpi til fermingarbarna





Síðastliðið sumar var ég á ferðalagi í útlöndum með hópi fólks – ungum og gömlum. Einn daginn stóð til að fara með lyftu upp á efstu hæð í einu hæsta húsí heims. Þá kom til mín einn ferðalanganna – hann var 6 ára – og spurði mig hvort ég gæti orðið eftir með honum á meðan hinir færu með lyftunni upp – því hann þyrði alls ekki í lyftur – hann væri svo hræðilega hræddur við þær. Ég reyndi að tala hann til – og foreldrar hans reyndu líka að tala hann til – en allt kom fyrir ekki – svo ég varð við ósk hans um að bíða niðri með honum. Þegar svo að því kom að fólkið tíndist inn í lyftuna hvert af öðru – og lyftudyrnar voru við það að lokast þá skaust stráksi fram – og inn í lyftuna – en eftir stóð ég með spurn í augum. Hvað hafði gerst?
Fólkið kom aftur úr lyftuferðalaginu  og þá spurði ég strákinn hvað hefði eiginlega gerst, hvað hann hefði verið að hugsa –en hann sagði:
Það stóð utan á innkaupapokanum sem við fengum í búðinni í gær að við ættum -á hverjum degi – að gera eitthvað sem við erum hrædd við. Og ég er svo hræddur við lyftur – þessvegna fór ég í lyftuna með hinum. Drengurinn, sem nú er orðinn 7 ára, fylgir þessari reglu að gera eitthvað sem hann er einmitt hræddur við, kannski ekki á hverjum degi, en nógu oft til að gleyma ekki reglunni. Hann er hættur að vera hræddur við ýmislegt sem skelfdi hann áður – en það sem er mikilvægara, hann veit að ef hann verður hræddur þá getur hann sjálfur gert ýmislegt til að sigrast á óttanum.
Ef við æfum okkur þá verðum við flínk – ef við æfum okkur í hugrekki þá verðum við hugrökk. Ef við erum hugrökk þá þorum við að vera við sjálf, jafnvel þótt það þýði að við erum ekki eins og hinir og jafnvel þótt það þýði að einhverjum finnist það asnalegt.


Sigrún Sveinbjörnsdóttir