20.7.12

Edgar Allan Poe, Svarti kötturinn









Svarti kötturinn

Hvorki býst ég við því né krefst þess, að nokkur trúi þessari sögu, sem ég læt nú koma fyrir almenningssjónir, því hún er svo undarleg en þó svo lík því, sem oft kemur fyrir í daglegu lífi. Ég myndi vissulega vera genginn frá vitinu, ef ég ætlaðist til þess, þar eð ég naumast gat trúað eigin augum. Og þó er ég ekki vitskertur og vissulega er mig ekki að dreyma, en á morgun á ég að deyja og því langar mig til að létta í dag byrði af sál minni. Aðal tilgangur minn er að reyna að birta mönnum leyndardómsfulla viðburði, sem ég þó ekki ætla að útskýra. Með afleiðingum sínum hafa þessir viðburðir skelft mig, þjáð mig og eyðilagt líf mitt. Samt sem áður ætla ég mér ekki að reyna til að útskýra þá; í mínum augum hafa þeir aðeins verið ógurlegir, en hjá öðrum vekja þeir ef til vill fremur undrun en ótta. Verið getur, að einhver hygginn maður á ókomnum öldum geti sett sér fyrir sjónir eðlilegar ástæður fyrir heilaspuna mínum — einhver gáfugarpur, sem er stilltari, djúpsærri og hraustbyggðari en ég og sem ekki getur fundið annað en eðlilega röð af ástæðum og orsökum til viðburða þeirra, sem ég óttasleginn skýri frá.

Á æskuárum mínum var mér viðbrugðið fyrir góðlyndi og mannúð og svo kvað jafnvel rammt að viðkvæmni minni, að leikbræður mínir gerðu gys að mér. Sér í lagi hafði ég gaman af ýmsum dýrum og foreldrar mínir leyfðu mér að hafa hjá mér heilan hóp af gæludýrum. Ég var mestan tíma dagsins hjá þeim og aldrei var ég ánægðari heldur en þegar ég var að gefa þeim að éta og hlynna að þeim.  Þetta einkennilega lundarfar mitt þróaðist með tímanum og á fullorðinsárum mínum varð það orsök helstu ánægjustunda minna. Fyrir þeim manni, sem hefur haft gaman af tryggum og vitrum hundi, þá þarf ég ekki að útskýra þá miklu ánægju, sem hægt er að afla sér á þann hátt. Í velvild dýranna til vor, óeigingirni og ósérplægni þeirra er eitthvað það, sem rennur þeim til rifja, sem oft hefur komist að raun um hve vinátta mannanna og tryggð er á veikum grundvelli byggð.

Ég var ungur þegar ég kvæntist og mér til mikillar gleði fann ég hjá konu minni líkar lyndiseinkunnir og ég sjálfur hafði til að bera. Jafnskjótt og hún varð þess vör, að ég hafði yndi af húsdýrum, þá sat hún sig aldrei úr færi þegar henni gafst kostur á að ná dýri, sem hafði eitthvað mjög aðlaðandi við sig. Við áttum fugla, gullfiska, fallegan hund, kanínur, lítinn apa og kött.

Kötturinn var afar stór og fallegur, kolsvartur að lit og aðdáanlega vitur. Konan mín var eigi laus við hjátrú, og þegar hún talaði um greind hans, þá bar hún oft fyrir sig forna hjátru, þar sem kettirnir eru skoðaðir sem nornir í dularklæðum. Raunar var þetta ekki alvara hennar, en ég  gat þessa af því mér af hendingu datt það hug.

Plúto — svo hét kötturinn — var eftirlætisgoðið mitt og lék ég mér oft að honum, ég gaf honum að eta og hann elti mig innan um allt húsið. Ég átti jafnvel fullt í fangi með að aftra honum frá að elta mig út á götuna.

Vinátta okkar hélst þannig við í mörg ár. Lunderni mitt og lyndiseinkunnir breyttust mjög á þeim tíma til hins verra og var það afleiðing af ofnautn áfengra drykkja, þótt skömm sé frá að segja. Ég varð þunglyndari dag frá degi, bráðlyndari og tók minna og minna tillit til tilfinninga annara. Ég leyfði mér að vera ókurteis í orðum við konu mína og að lokum dirfðist ég jafnvel að beita grimmd við hana. Uppáhaldsdýrin mín fengu eðlilega að kenna á þessari breytingu á lundarfari mínu, ekki einungis vanrækti ég þau, heldur misþyrmdi ég þeim einnig. Þó var mér enn svo vel við Plútó, að ég fór ekki illa með hann, þótt ég hefði enga samvisku af að skeyta skapi mínu á kanínunum, apanum og hundinum í hvert skipti, sem þau af tilviljun urðu á vegi mínum. En sjúkdómur minn fór í vöxt — því hvaða sjukdómi er hægt að líkja við drykkjuskapinn — og að lokum fékk Plútó, sem nú var farinn að eldast og þar af leiðandi orðinn ófrínni ásýndum, að kenna á geðvonsku minni.

Eitt kvöld kom ég mjög ölvaður heim, þaðan sem ég hafði haldið til í nánd við bæinn; virtist mér þá kötturinn forðast mig. Ég þreif þegar til hans, en þegar hann fann hversu harðhentur ég var, varð hann hræddur og beit mig dálítið í hendina. Ég varð strax afar reiður og þekkti ekki lengur minn innri mann. Sálin, sem áður bjó í mér, virtist nú allt í einu hafa flúið líkamann og djöfulleg fólska, æst af brennivíninu, svall mér í æðum. Ég tók lítinn hníf upp úr vestisvasa mínum, opnaði hann, þreif barka vesalings dýrsins og stakk á einu vetfangi annað augað úr því. Ég blygðast mín og fyrirverð mig og kalt vatn rennur mér milli skinns og hörunds þegar ég skrifa um þetta svívirðilega grimmdarverk.

Þegar ég hafði sofið úr mér vímuna og vaknaði morguninn eftir, þá var ég bæði óttasleginn og iðraðist afbrotsins, sem ég hafði framið. En þessi iðrunar og ótta-tilfinning var þó óglögg og ekki hafði þetta fengið mikið á mig. Ég hélt áfram ólifnaði mínum og drekkti í víninu endurminningunni um ódáðaverkið.

Kötturinn var lengi að ná sér; tóma augnatóftin var hræðileg sjón, en ekki virtist hann lengur hafa neinar kvalir. Hann ráfaði fram og aftur í húsinu eins og hann var vanur, en eins og við mátti búast varð hann afar hræddur og lagði á flótta í hvert sinn sem ég kom nærri honum. Svo miklar leifar voru eftir af viðkvæmni minni, að mér féll illa að kötturinn, sem áður hafði verið svo elskur að mér, hataði mig svona áþreifanlega. En brátt hvarf þessi tilfinning og hatur til kattarins kom í þess stað. Andi mannvonskunnar, sem virtist ætla að gera út af við mig, greip mig nú. Heimspekinganir minnast ekki á þennan anda og þó er ég sannfærður um að illskan er hjartans frumlegi arfur, hún er ein af hinum ógreinanlegu og upprunalegu eiginlegleikum og tilfinningum, sem einkenna lundemi manna.

Hver af oss hefur ekki oft og einatt framið grimmdarverk aðeins af þeirri orsök, að vér vitum, að vér eigum ekki að gera það? Höfum vér ekki sífellt sterka löngun til að breyta þvert á móti því, sem samviska vor býður oss — til þess að breyta á móti lögunum, einungis af því að vér vitum að þau eru lög? Eins og ég hef þegar sagt, gagntók andi mannvonskunnar mig að lokum.
Það var þessi óskiljanlega þrá sálarinnar til að breyta móti betri vitund — til að bjóða sínu eigin eðli byrginn — til að gera illt verra — sem knúði mig til þess að halda áfram grimmd minni og fullkomna það tjón, sem ég hafði valdið saklausu dýri. Það var einn morgun, að ég lagði rólegur snöru um háls kattarins og hengdi hann upp í tré; ég gat ekki tára bundist og fékk ákaft samviskubit, þegar ég hugsaði um það, að ég hafði hengt hann af þeirri orsök, að ég vissi, að honum hafði þótt vænt um mig, af því ég fann, að hann hafði ekki verið að neinu leyti sök í reiði minni, að ég hafði hengt hann af því að ég vissi, að ég með því verki drýgði synd — dauðasynd, sem mundi stofna minni ódauðlegu sál í háska og gera mig ómaklegan náðar guðs.

Morguninn eftir að ég hafði framið þetta grimmdarverk hrökk ég upp úr fasta svefni við það, að kallað var: „Eldur uppi“. Gluggatjöldin við rúmið mitt voru að brenna og allt húsið stóð í ljósum loga.

Það var með mestu naumindum að ég komst af ásamt konu minni og þjóni. Eyðileggingin var fullkomin. Allar eigur mínar brunnu, svo að örvæntingin náði, sem vonlegt var, yfirráðum yfir mér.

Ég var ekki svo ístöðulítill, að ég reyndi að gera mér í hugarlund samband milli þessarar óhamingju og grimmdarverksins, sem orsakar og afleiðingar, heldur segi ég afdráttarlaust frá atvikum eins og þau komu fyrir. Daginn eftir húsbrunann skoðaði ég rústirnar. Veggirnir höfðu allir hrunið nema einn, sem var stofuveggurinn við höfðalagið á rúmi mínu og var hann hér um bil í miðju húsinu. Gifsið, sem nýlega hafði verið steypt á þennan vegg, var að mestu leyti óskemmt af eldinum. Við þennan vegg var mikill fjöldi manna saman kominn og margir þeirra virtust virða sérstakan part af honum fyrir sér með mikilli eftirtekt. Ég varð forvitinn þegar ég heyrði, að þeir voru að tala um eitthvað, sem þeim þótti undarlegt og óskiljanlegt.

Ég gekk nær og sá á veggnum mótaða mynd af afar stórum ketti. Mótið var mjög nákvæmt og jafnvel sást far eftir snöruna, sem hafði hangið um háls dýrsins.

Þegar ég fyrst kom auga á þessa afturgöngu — því sem afturgöngu varð ég að skoða það — varð ég gagntekinn af undrun og ótta, en að lokum fór ég að gera mér í huganum grein fyrir, hvernig á þessu gæti staðið. Ég mundi það, að ég hafði hengt köttinn í garðinum rétt hjá húsinu. Strax og gefið var merki um, að eldur væri uppi, hafði fjöldi fólks safnast saman í þessum garði og svo hafði einhver skorið á snöruna, sem kötturinn hékk í og kastað honum í gegnum opna gluggann á herbergi mínu, líklega til þesa að vekja mig. Þegar veggirnir hrundu höfðu þeir þrýst dýrinu, sem ég hafði leikið svo grátt, inn í gifsið, en með því það var ekki orðið hart og logarnir léku um það, þá hafði komið mót eftir kattarhræið eins og það kom mér nú fyrir sjónir.

Þótt ég gæti þannig hæglega friðað skynsemi mína með líklegum rökum, hvað sem samviskunni leið, viðvíkjandi þessum undarlega viðburði, sem ég nú hef sagt frá, þá varð samt ekki hjá því komist, að þetta hafði mikil áhrif á ímyndunarafi mitt. Marga mánuði á eftir kom mér sí og æ mynd kattarins í hug og hjá mér kviknaði óljós tilfinning, sem virtist vera iðrun, þótt því væri ekki svo varið. Það kvað svo rammt að, að ég fór að barma mér yfir kattarmissinum og leita á veitingastöðum, þar sem ég var nú daglegur gestur, að leikfangi af sömu tegund og með líku útliti til þess að fylla upp í skarðið.

Eitt kvöld, þegar ég sat sem oftar á gildaskála og vínið var farið að svífa á mig, tók ég skyndilega eftir einhverju svörtu, sem lá á stóru vínfati, er var helsta búsgagnið í herberginu.
Það kom mér á óvart að hafa ekki tekið eftir þessu fyrr þótt ég hefði nú um nokkra hríð horft í áttina til þess. Ég gekk að fatinu og snart þetta svarta með hendinni.
Það var svartur köttur — mjög stór — fyllilega eins stór eins og Plútó og mjög líkur honum nema að einu leyti. Það var ekkert einasta hvítt hár á Plútó, en þassi köttur hafði stóran hvítan blett, sem náði nálega yfir alla bringuna. Um leið og ég kom við hann reis hann snögglega á fætur, malaði hátt, strauk sig við lófa minn og virtist hrifinn af því að ég skyldi taka eftir sér. Þetta var þá einmitt dýrið, sem ég var að leita að. Ég falaði þegar köttinn af gestgjafanum, en hann kvaðst ekkert eiga með hann, vissi engin deili á honum og hafði meira að segja aldrei séð hann fyrr.

Ég klappaði kisu í sífellu og þegar ég bjóst til heimferðar virtist hún því ekki mótfallin að koma með mér, það lét ég eftir henni og á leiðinni var ég að klappa henni öðru hverju. Þegar heim kom, gerði kötturinn sig strax heimakominn og náði fullkominni hylli konu minnar.

En hvað mig snerti, þá fékk ég brátt óbeit á honum, þótt ég hefði gert mér hið gagnstæða í hugarlund; ég veit ekki hvernig því var varið, en víst var það, að ég fylltist óvildar og gremju yfir því, hve kettinum þótti innilega vænt um mig. Þessar óbeitar- og gremjutilfinningar snerust brátt upp í beiskasta hatur. Ég sneiddi mig hjá kettinum; einhver blygðunartilfinning og endurminningin um mitt fyrra grimmdarverk aftraði mér frá að misþyrma honum. Það liðu svo margar vikur, að ég hvorki barði hann eða fór illa með hann á annan hátt, en smátt og smátt fékk ég svo mikinn viðbjóð á honum, að ég forðaðist að koma nærri honum, eins og hann væri skrattinn sjálfur.

Án efa hefur það aukið hatur mitt til kattarins, að ég sá morguninn eftir að ég kom með hann heim, að hann hafði misst annað augað eins og Plútó. Aftur á móti fékk kona mín, sem eins og ég áður hef getið um var mjög viðkvæm og tilfinninganæm, enn meiri mætur á honum fyrir þetta. En hin mannúðlega viðkvæmni mín, sem í æsku hafði vakið hjá mér svo hreinar tilfinningar var nú horfin.

Því meiri óbeit, sem ég fékk á kettinum, því vænna þótti honum um mig, að mér virtist. Lesarinn mun eiga örðugt með að gera sér í hugarlund hve fylgispakur hann var mér. Þegar ég settist niður, þá skreið hann undir stólinn minn, eða hann stökk upp á kné mér og þreytti mig með sínum viðbjóðslegu ástaratlotum. Stæði ég á fætur, þá flæktist hann fyrir fótum mér, svo mér lá við falli, eða hann læsti klónum í fötin og skreið upp á bringu mína. Oft langaði mig til að gera út af við hann með einu höggi, en samt gerði ég það ekki, sumpart sökum endurminningarinnar um minn fyrri glæp, en þó öllu fremur — svo ég segi eins og satt var — af ótta fyrir dýrinu.

Ég var að vísu ekki beinlínis hræddur við, að hann gerði mér líkamlegt mein, og þó mundi það verða erfitt að útlista þennan ótta á annan hátt. Ég blygðast mín fyrir að játa það, já, jafnvel í þessum fangaklefa gengst ég við því með skelfingu, að sú óbeit og skelkur, sem dýrið skaut mér í bringu, jókst við mjög ómerkilegaa heilaspuna, sem erfitt er að gera sér grein fyrir. 

Konan mín hafði oftar en einu sinni vakið eftirtekt mína á hvíta blettinum, sem ég minntist á og sem var það eina verulega atriði, sem greindi þennan kött frá hinum, sem ég hafði drepið. Eins og lesarinn minnist var þessi blettur í fyrstunni lítill, en hann hafði vaxtð smátt og smátt og var nú orðinn all stór með sinni þverrák til hverrar hliðar.

Nú leit bletturinn út eins og hlutur, sem ég kvíði fyrir að nefna á nafn —og sérstaklega af þessari ástæðu forðaðist ég dýrið og óttaðist það, og feginn hefði ég viljað koma skrímslinu fyrir kattarnef hefði ég þorað það. —Nú líktist bletturinn viðbjóðslegri og draugslegri mynd — hann líktist gálga — þessu hryggilega grimmdarfulla vopni, sem tekst á við ótta og afbrot, kvalir og dauða.

Nú varð ég óhamingjasamastur allra manna. En að skynlaus skepna skyldi geta leikið mig svona grátt, mig, manninn, skapaðan eftir guðs mynd, en svona var því nú samt varið, því miður. Ég naut mín hvorki dag né nótt, því á daginn skildi kötturinn aldrei við mig og á nóttunni vaknaði ég á hverjum klukkutíma við vondan draum; þá ég fann, að hann andaði framan í mig og lá með öllum sínum þunga á brjósti mér; það var sannarleg martröð, sem ég ekki orkaði að hrista af mér.

Við þær þjáningar sem þessi óttalegu augnablik ollu mér hvarf að fullu og öllu sá mannúðarneisti, sem ég enn hafði til að bera.
Illar, saurugar hugsanir voru mínir einustu förunautar. Ég varð afar þunglyndur og hataði alla hluti og alla menn; en kona mín bar öll mín skyndilegu og tíðu reiðiköst að jafnaði með þögn og þolinmæði.

Það var einn dag, að hún fór með mér til einhverra bústarfa niður í kjallarann undir gamla húsinu, sem við sökum fátæktar vorum neydd til að búa í. Kötturinn elti mig niður stigann, sem var mjög brattur, og flæktist svo fyrir fótum mér, að mér lá við falli og réði ég mér því eigi fyrir reiði. Ég þreif öxi mikla, og gleymdi nú í bræði minni þeim barnslega ótta, sem hingað til hafði haldið mér í skefjum, reiddi til höggs og hefði auðvitað steindrepið skepnuna á einu augnabliki, ef ég hefði hitt að ósk minni. En konan mín hindraði höggið. Við þessi afskifti hennar varð ég sem djöfulóður maður, reif mig af henni og keyrði öxina á kaf í köfuðið á henni, svo hún féll dauð til jarðar án þess að gefa hljóð frá sér.

Þá er ég hafði drýgt þetta svívirðilega morð, fór ég að hugsa um með mestu stillingu, hvernig ég skyldi koma líkinu undan. Ég vissi að ég gat hvorki nótt né dag flutt líkið út úr húsinu án þess að nábúar mínir gætu orðið þess varir. Mörg ráð duttu mér í hug, t.d. að brytja líkið í smáa parta og brenna þá svo eða grafa holu í kjallaragólfið og dysja það þar. Einnig datt mér í hug að kasta því í brunninn í garðinum eða setja það í kassa eins og það væri verslunarvara og fá svo einhvern undir því yfirskini til þess að bera það burt. En loks fékk ég hugmynd, sem mér virtist taka hinum öllum fram. Ég ákvað að múra það inn í kjallaravegginn, eins og sagt er að munkarnir á miðöldunum hafi gert við þá, sem þeir réðu af dögum.

Kjallarinn var vel til þess fallinn. Steinarnir í veggjunum voru ekki mjög fastir og kalki hafði nýlega verið klínt á þá, en sökum rakans hafði það ekki harðnað.
Ég var viss um, að ég gæti náð út nokkrum múrsteinum, látið líkið inn í vegginn og komið öllu í samt lag aftur, svo enginn gæti séð neitt grunsamlegt. Og þessi von lét sér ekki til skammar verða. Með járnkarli gat ég hæglega losað múrsteinana, reisti svo líkið upp við innri vegginn og studdi það meðan ég kom steinunum í samt lag aftur án mikillar fyrirhafnar; því næst sótti ég með mestu varkárni leir og sand, bjó til leðju og klíndi henni á vegginn svo ekki var hægt að sjá nein missmíði. Þegar þessu verki var lokið, fullvissaði ég sjálfan mig um, að því væri í engu ábótavant; veggurinn var eins heillegur og áður og steinmolana tíndi ég upp með mestu nákvæmni. Ég leit sigri hrósandi í kring um mig og sagði við sjálfan mig: „Að minnsta kosti hefur þetta starf mitt ekki verið árangurslaust“.

Nú fór ég að líta í kring um mig eftir kettinum, sem var orsök til allrar þessarar ógæfu, því nú hafði ég fastákveðið að drepa hann.

Hefði ég komið auga á hann í þessari svipan, þá mundi það án efa hafa orðið hans bani, en nú leit út fyrir, að þessi grimmdarreiði mín hefði skotið honum skelk í bringu, svo honum ekki þætti álitlegt að koma nærri mér fyrr en mér rynni reiðin. Ég get ekki lýst því, hve innilega það gladdi mig og hve þungum steini það velti frá brjósti mér, að þetta dýr, sem ég hataði af lífi og sál, var horfið úr návist minni. Það kom ekki alla nóttina og var það nú í fyrsta skipti, sem ég gat sofið í næði, frá því það kom í húsið. Já, ég gat sofið, þótt blóðsökin hvíldi á sál minni.
Það liðu tveir eða þrír dagar og ekki kom þessi plága aftur. Nú gat ég aftur um frjálst höfuð strokið. Skrímslið hafði í angist sinni flæmst burtu frá húsinu; nú átti ég aldrei að sjá það oftar Þannig hugsaði ég og var hinn kátasti, því glæpurinn olli mér ekki neinu samviskubiti. Það voru að vísu lagðar fyrir mig ýmsar spurningar viðvíkjandi konu minni, en þeim átti ég ekki örðugt með að svara; sömuleiðis var gerð leit eftir henni, en auðvitað árangurslaust. Ég var því farinn að telja það næstum því víst, að ég gæti lifað hamingjusömu lífi, það sem eftir væri æfinnar.

Fjórða daginn eftir að morðið var framið, komu nokkrir lögregluþjónar aftur heim til mín, til þess að gera nýja og nákvæmari rannsókn. Mér varð ekki neitt hverft við þetta, því nú var ég orðinn sannfærður um, að fylgsnið yrði ekki fundið með neinu móti. Lögregluþjónarnir höfðu mig með sér meðan á leitinni stóð og skoðuðu nú nákvæmlega hvern krók og kima. Að lokum fóru þeir niður í kjallarann í þriðja eða fjórða sinn. Ég var eins öruggur og rólegur sem saklaust barn og gekk fram og aftur um kjallaragólfið með hendurnar krosslagðar á brjóstinu. 

Lögregluþjónarnir voru sannfærðir um, að þar væri ekkert grunsamlegt að finna og gerðu sig líklega til að fara. Ég réði mér varla fyrir gleði og sárlangaði til að láta þá heyra á mér, að ég væri alls óhræddur, til þess að sannfæra þá enn betur um sakleysi mitt.

Þegar þeir voru að fara upp stigann sagði ég loks: „Herrar mínir, það gleður mig, að ég hef eytt grunsemd ykkar, ég óska ykkur gæfu og gengis og vonast til að þið gætið betur kurteisinnar eftirleiðis. En svo ég snúi mér nú að öðru — þetta hús er mjög vel byggt, virðist ykkur það ekki?“ (Ég var svo gáskafullur, að ég vissi naumast hvað ég sagði).

„Mér er óhætt að segja, að þetta hús er mjög vandað hvað bygginguna snertir, þessum múrveggjurm er ekki fisjað saman.“ í sama bili laust ég með stafnum mínum mikið högg á vegginn, einmitt á þeim stað, þar sem lík konunnar minnar sælu var fólgið.

Ég bið guð að hjálpa mér og frelsa mig úr klóm hins vonda! 
Hljóðinu, sem kom fram við það, að ég laust á vegginn var svarað innan frá fylgsninu. Fyrst líktist þetta grafarhljóð barnskjökri, það var lágt og ósamanhangandi, en breyttist brátt í sárt og óslitið óp mjög undarlegt og ónáttúrlegt. Þessi óhljóð líktust kveinstöfum, sem létu jafnframt í ljósi sambland af ótta og gleði; þau gátu naumast komið annars staðar frá en úr Helvíti, sem angistarkvein hinna útskúfuðu og fagnaðaróp púkanna, sem gleðjast yfir kvölum þeirra.

Ég þarf ekki að lýsa því, hvað mér bjó í brjósti áður en ég hné meðvitundarlaus upp að hinum veggnum. Lögregluþjónarnir stóðu sem steini lostnir í stiganum meðan á þessu stóð, réðust því næst allir á murvegginn og rifu hann niður. Blóði drifið og hálfrotnað lík lá frammi fyrir þeim. Á höfði þess sat kattar-andstyggðin með gapandi gin og stóðu gneistar úr auganu, sem ekki var nema eitt í hausnum. Þetta var kötturinn, sem olli því, að ég framdi morðið, og sem ofurseldi mig nú böðlinum. Ég hafði grafið hann með líkinu.