15.7.12

Hvað er „gott“ við lífið?




Mesti og frægasti heimspekingur sögunnar, Sókrates, var dæmdur til dauða fyrir að vera sífellt að spyrja erfiðra spurninga. Menn álitu að með þessu spurningaflóði græfi hann undan öllu því sem gott væri og rétt – sem hefði sérlega skaðleg áhrif á unga fólkið sem þyrfti á því að „læra“ hvað væri gott og rétt en ekki efast um það eða rannsaka. Sókrates hafi svosem eignast volduga óvini með þessum „rannsóknum sínum“ því fæstir reyndust standa undir því þegar hann fór að rekja úr þeim garnirnar. Þá, eins og nú, var enginn skortur af fólki sem þóttist bæði vera og vita eitthvað. Sókrates nálgaðist þetta fólk yfirleitt alltaf eins. Sagðist glaður að hafa loks hitt einhvern sem vissi eitthvað, því sjálfur vissi hann ekki neitt, og því fagnaði hann að fá að læra eitthvað af þeim fróða. Síðan spurði hann og spurði þar til kom í ljós að viðmælandinn vissi í raun ekkert meira en hann – heldur þóttist aðeins gera það. Þetta varð mörgum mjög niðurlægjandi reynsla – og líklega raunveruleg ástæða þess að Sókrates var dæmdur til dauða.


Sókrates framkvæmdi aftöku sína sjálfur. Hann fékk reyndar tækifæri til að flýja úr fangelsinu en afþakkaði það. Áður en hann hélt til aftöku sinnar flutti hann dómurum sínum og ákærendum ræðu sem endar á orðunum: „Nú förum við héðan í sitthvora áttina. Ég til að deyja, þið til að lifa. Guð einn veit hvor ferðin verður betri.“


Sókrates drekkur eitrið




Varnarræðu hans má lesa hér í þýðingu Gunnars Dal.


En hvernig tryggir maður að leið manns í gegnum lífið verði góð? Hvað er „gott líf?“ 


Menn hafa hamast við að skilgreina hið góða líf síðan í fornöld. Svörin eru margvísleg enda viðhorfin til þess hvað felst í góðu lífi nokkuð misjöfn. 


Jóhann Björnsson, heimspekingur og kennari, hefur tekið saman gott ágrip um strauma og stefnur í heimspeki hins „góða lífs.“


Skoða má það hér.





Mig langar að benda ykkur sérstaklega á einn þeirra sem Jóhann talar um: Viktor Frankl.

Viktor Frankl
Viktor Frankl var austurrískur læknir og gyðingur sem var einn margra sem endaði í útrýmingarbúðum nasista. Lífið í útrýmingarbúðunum var nokkurn veginn eins hræðilegt og hugsast getur. Strax við komu var föngum skipt í tvo hópa, þá sem gátu unnið og hina sem gátu það ekki. Fyrri hópurinn var sendur inn í búðirnar en sá seinni beint í gasklefana og þaðan í líkbrennsluna. Þeir „heppnu“þurfti í mörgum tilfellum að horfa á eftir ástvinum sínum í dauðann strax fyrsta daginn. Næstu daga og vikur beið þeirra stöðug þrælavinna, ofbeldi, sjúkdómar og ótti. Fangarnir voru verulega vannærðir en samt var ætlast til að þeir ynnu erfiðsvinnu allt að ellefu klukkustundir á dag, sex daga vikunnar. Þetta leiddi til þess að menn vesluðust upp og urðu viðkvæmari fyrir allskyns sjúkdómum sem grasseruðu við þessar óheilnæmu aðstæður. Hver einasta máltíð skipti sköpum og þeir sem héldu ekki niðri fæðu dóu yfirleitt á skömmum tíma. Líf fanganna snerist um að halda sér á lífi frá einni máltíð til þeirrar næstu og sá sem varð uppvís að því að stela mat frá öðrum átti á hættu að vera tekinn af lífi af hinum föngunum. 



Hættulegustu fangarnir, sem yfirleitt voru ótíndir glæpamenn með hrottalega brotasögu, voru gerðir að „aðstoðarfangavörðum.“ Þeir gegnu oft harðar fram en nasistarnir við að kvelja og ofsækja fangana. Margir voru skotnir fyrir litlar sakir. Í hræðilegri bók, Íslendingsins Leifs Mullers, sem sjálfur var fangi í einum alræmdustu búðunum, segir hann frá gömlum manni sem ítrekað var laminn og hótað aftöku vegna þess að hann gat ekki gengið í takt – en Þjóðverjarnir kröfðust þess að fangarnir marseruðu í og úr talningu á hverjum degi. Einu sinni, þegar Leifur var að hvíla sig, varð hann var við að gamli maðurinn var einn úti að reyna af veikum mætti að marsera.



Viktor Frankl gat sem geðlæknir greint áhrif þessa hryllings á persónu manna. Hann veitti því sérstaka eftirtekt hverjir brugðust við með því að verða grimmir og kvelja samfanga fyrir stærri matarskammt og meira öryggi. Hann sá fjölmarga gefast upp og hlaupa á rafmagnsgirðinguna eða láta skjóta sig. Flestir vesluðust upp og voru búnir á sál og líkama þegar þeir loksins losnuðu, þ.e. ef þeir lifðu það lengi. Örfáir náðu þó á einhvern undraverðan hátt að viðhalda reisn sinni og lífsþorsta. 

Eftir að hann slapp úr búðunum skrifaði hann bók, Leitin að tilgangi lífsins, þar sem hann lýsti dvölinni í fangabúðunum og kenningu sinni um sálarlífið.



Frankl trúir því að hver einasti maður hafi margar innbyggðar hvatir, sem hann ýmist leitast við að veita útrás, bæla eða hunsa. Hver maður hefur hvöt til að næra sig, stunda kynlíf og, að mati Frankls, setja sér einhvern tilgang með lífinu. 


Það þekkja allir að eigin raun hversu miklu auðveldara er að gera hluti, hafi þeir einhvern tilgang. Ef rafmagnið fer og tölvan, sjónvarpið og ljósin hætta að virka getur hvert korter verið næstum óbærilega leiðinlegt. Maður liggur í myrkrinu og vorkennir sjálfum sér, því mann langar að sjá þátt sem er að byrja í sjónvarpinu eða segja frá rafmagnsleysinu á feisbúkk. En ætli maður að skella sér í notalegt kertaljósabað, eða lesa hrollvekju við kertaljós eða – eins og einn nemandi minn gerði einu sinni – taka áskorun kennarans um að nota ekkert rafmagn í heila viku, þá verður allt eitthvað svo miklu auðveldara. Aðstæður sem virðast ömurlegar geta orðið auðbærar við það eitt að öðlast nýjan tilgang.


Þessi þörf manna fyrir tilgang heldur Frankl að sé almenn og meðfædd. Hana sé hvorki hægt að bæla né hunsa án þess að maður finni fyrir verulegum neikvæðum afleiðingum, eins og þunglyndi eða lífsleiða. Að mati Franksl líður mjög mörgum illa í nútímasamfélaginu vegna þess að þeim hefur ekki verið kennt frá unga aldri að finna sér tilgang í lífinu – setja sér markmið með því. Hann bendir á að þótt flestir séu frjálsir, sem hann var vissulega ekki í fangabúðunum, þá veiti frelsið þeim enga sérstaka hamingju því frelsi eitt og sér sé lítils virði. Frjáls maður er ekki heill fyrr en hann áttar sig á því að frelsi fylgir ábyrgð. Ábyrgð á að nota frelsið til góðs, frekar en ills eða alls ekki. Frankl lagði til að reist væri stytta á vesturströnd Bandaríkjanna, Ábyrgðarstyttan, til mótvægis við Frelsisstyttuna. Búið er að hanna styttuna og verið er að safna fé til að reisa hana. Það gengur hægt.






Þegar Frankl leið sem verst í fangabúðunum og var hættur að trúa því að hann myndi lifa þetta af eða sjá tilganginn í því að halda áfram dreif hann sig út, eins og gamli maðurinn í skála Leifs, og stóð einn úti á mölinni. Hefði einhver séð til hans hefðu menn áreiðanlega haldið að hann væri búinn að missa það. En það sem hann gerði var að hann var að skrifa bók og fyrirlestur í huganum um reynslu sína. Stundum flutti hann meira að segja fyrirlesturinn fyrir ímyndaða áhorfendur. Þannig tók hann erfiða og ömurlega reynslu og gerði hana að einhverju gagnlegu. Hann vissi auðvitað ekki hvort hann myndi lifa af. Hann gæti orðið fárveikur hvenær sem er eða fengið byssukúlu í höfuðið. Hann vissi þó sem var að maður þarf ekki að undirbúa sig sérstaklega fyrir að deyja úr berklum eða vera skotinn. Það sem maður getur undirbúið sig fyrir er lífið sem maður vonar að maður eigi fyrir höndum. 


Þessi hugsun Frankls rímar vel við hugmynd sem Sigurður Nordal (sjá hér og hér) hafði um möguleikann á lífi eftir dauðann. 


Hann orðar hugsunina í frábærri dæmisögu sem gerist í Róm í keisaratíð Markúsar Árelíusar sem var bæði keisari og heimspekingur. Sagan kallast „Ferðin sem aldrei var farin“ og er svona í lauslegri endursögn.


Herforingi og náinn vinur Markúsar Árelíusar keisara dó og arfleiddi son sinn, sem var á táningsaldri, að veraldlegum eigum sínum. Sonurinn varð þannig í einu vetfangi algjörlega eigin herra og allauðugur. Hann bauð til sín vinum sínum og notaði peningana sína í að gera vel við sig og aðra í mat, drykk og skemmtun. Það leið ekki á löngu þar til einhverjir voru farnir að lifa hálfgerðu sníkjulífi á honum og þótt veislurnar yrðu stærri og dýrari og hann feitari og latari þá varð hann ekkert sérstaklega hamingjusamur. En hann gat þó gleymt sér yfir góðri steik eða skemmtun – að ekki sé talað um glasi af góðu vínu. 






Dag einn boðar keisarinn drenginn á sinn fund og segir að hann þurfi sárlega á þjónustu hans að halda. Verkefnið sé mjög mikilvægt en um leið hryggilega óljóst. Það eina sem hann geti sagt sé að drengurinn eigi að ferðast langt inn í ókunn lönd og leysa þar fyrir ættjörð sína fjölbreytt verkefni sem sum hver geti verið ölík öllu sem hann hafi áður kynnst. Kallið geti komið hvenær sem er, fyrirvaralaust.


Drengurinn fer heim og er nokkurn tíma að átta sig. Honum þótti nokkur heiður að vera valinn af keisaranum úr hinum stóra hópi Rómbervja, sem vafalítið var betur til þess fallinn að leysa svona verkefni en hann, hugrakkari, hraustari og fróðari. Um leið var hann óttasleginn því hann vissi ekki hvernig hann ætti að búa sig undir verkefnið.


Þegar heim kom skipaði hann öllum sem þar lágu út um allt eftir gleðskap næturinnar að koma sér heim. Síðan sat hann og hugsaði. Hann þóttist vita að hvert sem hann færi gæti hann þurft að ganga langar vegalengdir, jafnvel klífa fjöll eða hlaupa undan villidýrum – svo hann tók þá ákvörðun að það gengi ekki að vera feitur og úthaldslaus. Smátt og smátt fór hann að hreyfa sig, lyfta þungum hlutum, hlaupa og klífa til að koma sér í betra form. Hann þóttist líka vita að á ferðalaginu gæti hann ekki treyst á dýrindiseldamennsku, steikur og vín. Hann yrði að venja sig á að borða hollan og einfaldan mat – og kynna sér það hvernig hann gæti lifað af náttúrunni. Hann fór á bókasafnið og las allt sem hann fann um fjarlægar þjóðir, landslag og lífríki. Hann reyndi að læra hrafl í tungumálum þeirra þjóða sem Rómverjar þekktu og áttu viðskipti við – í þeirri von að það nýttist á ferðalaginu. Hann vissi líka að hann gæti ekki treyst á öll þau þægindi sem hann var orðinn vanur og vandi sig á það að sofa á hörðu steingólfinu við hliðina á mjúka rúminu sínu.


Á nokkrum árum varð hann ímynd líkamlegs og andlegs heilbrigðis. Hann var í betra formi en nokkru sinni fyrr – og raunar betra formi en flestir Rómverjar. Hann hafði vanið sig á að borða heilnæman mat sem veitti honum vellíðan og gaf honum styrk og kraft. Hann var orðinn fróður um allt milli himins og jarðar og hafði ánægju af að bæta við þekkingarforða sinn. 






Þá kom kallið frá Markúsi Árelíusi. Pilturinn fór á hans fund og stoð frammi fyrir keisaranum. Keisarinn tók honum vel og bað hann að fyrirgefa sér. Það hefði aldrei staðið til að senda drenginn eitt eða neitt. Markúsi hefði bara liðið svo illa yfir að horfa upp á efnilegan son kærs vinar síns veslast upp og sóa hæfileikum sínum og hann hefði beitt þessari blekkingu til að fá hann til að söðla um. Sér þætti leitt að hafa platað hann en hann vonaði að sér fyrirgæfist – þetta hefði verið gert af væntumþykju og góðum hug. Nú væri drengurinn orðinn skínandi fyrirmynd annarra og því rétt að hann fengi að vita sannleikans. Það væri undir drengnum sjálfum hvort hann færi til síns fyrra lífs eða héldi áfram á þessari leið.


Það þarf ekki að orðlengja það. Drengurinn fyrirgaf keisaranum og datt ekki eitt augnablik í hug að sökkva aftur ofan í líf innantóms unaðar og augnabliks sælu.