21.7.12

Ljóð og list

Það er erfitt að ná utan um ljóð. Maður gæti sagt að ljóð geri það við orð sem tónlist geri við hljóð eða myndlist við liti. Það væri nokkuð nærri lagi. Vandinn er bara sá að ljóðið er dálítið árásargjarnt og ótamið – eða réttara sagt, skáldin. Mörg skáld vilja alls ekki láta fanga sig með einfaldri snyrtilegri útskýringu og hamast því við að stunda ljóðlist sína þannig að erfitt sé að útskýra hana eða flokka. Einhversstaðar er svæði þar sem ljóðlist rennur saman við tónlist og maður hættir að átta sig á því hvort er hvað. Og ef ljóð er útskýrt með því að líkja því við tónlist og tónlist er að einhverju leyti það sama og ljóð þá er maður eiginlega bara að segja: ljóð er ljóð. Eða hvað?

Ég ætla kannski ekki endilega að rembast við að skilgreina ljóð. Það þyrfti að vera hálfgalin manneskja sem heimtaði að nemendur lærðu slíka skilgreiningu. Ég ætla að láta mér nægja að varpa ljósi á ljóð. Það hyggst ég gera með því að fjalla um tvennskonar átök innan ljóðaheimsins. Fyrri átökin kalla ég „festa gegn leysingu“ en þau seinni „hugmynd gegn handverki.“ Ég skal reyna að vera eins skýr og ég get.

Festa gegn leysingu

Það sem ljóð gera er að þau nýta sér fegurð og áhrifamátt tungumálsins til að miðla hugmyndum eða tilfinningum á frjálsari hátt en prósi getur leyft sér. Hvað er prósi spyrð þú (eða ekki). Prósi er það sem þú ert að lesa núna. Samfelldur, venjulegur texti sem fylgir umferðarreglum um stafsetningu, greinarmerki og ýmislegt fleira (allavega oftast). Venjuleg samtöl eru líka prósi. Ljóð er frjálsara en prósi. Í ljóði má gera ýmislegt sem ekki þætti gott í samfelldum texta.

En þó að ljóð eigi að heita frjálsari en prósi þá hefur alltaf fylgt ljóðlist sterk tilhneiging til að binda það aftur, bara öðruvísi. Þetta er kannski best að útskýra með mynd. Skoðaðu húðflúrið:Allir sem reynt hafa að teikna svona mynd þekkja hversu vel manni líður þegar myndin tekst og maður horfir á hana í fyrsta sinn tilbúna. Allir sem hafa reynt að teikna svona mynd bera líka virðingu fyrir því þegar aðrir reyna svipað og tekst vel til. Sjáðu t.d. þetta:


Þetta er nú ekkert slor. 

Manni þarf ekki einu sinni að þykja þetta sérstaklega fallegt til að vita að þetta er kúnst og þrælerfitt.

Öll saga ljóðagerðar er saga þar sem menn reyna að gera það sama með orðum og hér er búið að gera með bleki.

Í íslensku voru ljóð lengi vel ætluð til áheyrnar. Hvert tungumál hefur sín sérkenni. Eitt af sérkennum íslensku er að áherslan er á byrjun orða. Ef þú prófar að biðja einhvern að segja „matur“ og hlustar grannt þá tekur þú eftir því að það er lögð miklu meiri áhersla á ma en tur, ef áherslan væri á seinni hlutann þá myndi orðið matur hljóma einhvernveginn eins og natur á sænsku. Það þætti Íslendingum afar skrítið. Ef þú trúir mér ekki skaltu smella á þetta og ímynda þér að maðurinn segi matur en ekki natur.

Íslendingar leggja semsagt áherslu á fyrri hluta orða. Þeir segja ekki ma-tuur heldur maa-tur. Og ef þú prófar að setja tó fyrir framan, þá færði tóó-matur. Áherslan er enn öll fremst. Við erum svo vön að hlusta á okkur tala að það getur verið erfitt að taka eftir þessu en það er augljóst ef grannt er gáð – að það er munur á tómatur og matur


Stuðlar

Þessi mikla áhersla á fyrri hluta orða hefur orðið þess valdandi að ljóðagerð á íslensku snerist mikið um það að láta þessi hljóð fléttast vel saman. Það þýddi, alveg eins og þegar þú teiknar flókamynstur, að um leið og fyrstu orðin eru komin í ljóðið þá ertu bundin af þeim þegar þú velur orðin sem á eftir koma.

Tökum dæmi:


Í ___ ___ hvarf hún inn um ___ ___ dyr

Strikin tákna atkvæði. Ég gæti sagt: „Í pilsi hvarf hún inn um aðrar dyr“ eða „Í flýti hvarf hún inn um stórar dyr.“ Í raun eru möguleikarnir óendanlegir. Íslensk ljóðahefð segir samt að í fyrstu línu í ljóði þá eigi sama hljóðið að koma tvisvar á hljómsterkum stað. 

Ef maður prófar að lesa þessa línu (og segja bara „bla bla“ þar sem vantar orð) þá sér maður að atkvæðin eru missterk í flutningi.

Í blabla hvarf hún inn um blabla dyr

Það þætti því nokkuð gott ef einhverjir tveir af þessum stöðum hefðu sama hljóðið. Skáldið kaus að fara þessa leið:

Í rökkri hvarf hún inn um dómsins dyr

Þannig kemur hljóðið á tvo áherslusterka staði. Þetta stílbragð hefur verið notað af þvílíku kappi í sögu íslenskra ljóða að það liggur við að það sé klisja að yrkja svona. Sjáðu bara öll dæmin:

Upp'í risinu sérðu lítljós
 (Bubbi, Rómeó og Júlía)

Bein leið, gatan liggur greið.
(KK, Bein leið)

Ein í bragga, Magga, gægist út um gluggann.
(Magnús Eiríksson, Braggablús)


Kvöldið er okkar og vor í Vaglaskóg
(Kristján frá Djúpalæk, Vor í Vaglaskógi)


Sama hljóðið sem kemur tvisvar á áberandi stað í sömu línu kallast stuðlar. Ljóð sem þannig er ort er sagt vera stuðlað.

Þó þarf maður að gæta sín. Stuðlar mega ekki vera nema tveir í sömu hendingu. Það þykir alveg ofsalega klúðurslegt að ofstuðla:

Hefði Bubbi tildæmis ákveðið að þetta hljómaði betur svona...

Upp'í risinu logar lítið ljós

...þá hefði hann fengið bágt fyrir. Það er ekki flott að ofstuðla. Nema auðvitað maður sé að gera það viljandi og það sé einhver meining í því. Þá má maður næstum allt. En þetta er auðvitað bara orðinn hálfgerður hryllingur:

Inn'í lampanum logar lítið ljósSérhljóðastuðlar


Samhljóð stuðlast aðeins með sjálfum sér, m með m og r með r. Sérhljóð má hinsvegar stuðla saman. Þannig má a stuðla með i og au með ei og o með ú o.s.frv. 

Það auðveldar auðvitað mikið. Enda vita allir sem farið hafa í leikinn „Ég segi orð og þú átt að byrja orð á stafnum sem mitt orða endar á“ hversu mikill skortur er t.d. á góðum íslenskum orðum sem byrja á i.

Hér þarf þó að muna eftir laumufarþeganum, hljóðinu é – sem er alls ekki sérhljóð heldur samhljóðið j klesst framan á sérhljóðið e. Þótt stafurinn é sé oft talinn til sérhljóða þá stuðlar é með joði.

Dæmi um stuðlaða sérhljóða:

Óðum steðjar sá dagur
(Vilhjálmur Vilhjálmsson, Lítill drengur)

Hér hefur það reyndar gerst að það eru tvö pör af stuðlum. 

Óðum steðjar að dagur

Það gerist stundum og þá þarf maður að kíkja niður í næstu línu til að sjá hvaða stuðlar eru aðal og hvaða auka.


Höfuðstafur

Við höfum áður nefnt að stuðlar eiga að vera á áhersluatkvæðum. Þá þarf að bera fram skýrt og greinilega. Þeir mega ekki hverfa í eitthvað muldur. Það þarf líka að vera notalega stutt á milli þeirra. Stuðull í fyrsta orði passar ekki endilega mjög vel við annan í síðasta orði. Það getur því verið ágætt að hafa annan um miðbikið.

En síðan er ein regla enn. 

Ætli maður að nota stuðla þá er eiginlega algjör synd að nýta sér ekki líka fyrirbærið höfuðstafur. Höfuðstafur er sama hljóðið og var í stuðlunum en í stað þess að vera ofstuðlað í sömu hendingunni/línunni þá kemur hann snemma í næstu línu (oftast alveg fremst).

Kvöldið er okkar og vor í Vaglaskóg.
Við skulum tjalda í grænum berjamó.

Takið sérstaklega eftir því hvernig Kristjáni frá Djúpalæk tekst að vera ekki með neina aukastuðla eða ofstuðlun. Hann er þarna með og o og ess og og og – það eina sem er endurtekið er vaffið í stuðlunum og höfuðstafnum.

Svona þykir harla vel gert. Ef hann hefði misst einbeitinguna og skrifað:

Kvöldið er okkar og vor í Vaglaskóg.
Við skulum tjalda í vænum berjamó.

Þá hefði það verið alveg skelfileg ofstuðlun.

Þegar maður er búinn með tvo stuðla og einn höfuðstaf, allt snyrtilega sett saman í tvær hendingar þá dembir maður sér í næstu línur og velur nýtt stuðlahljóð (eða notar það sama aftur, sem er kannski ekki alveg eins flott).

Leiddu mig vinur, í lundinn frá í gær.
Lindin þar niðar og birkihríslan grær.

Bundið mál

Saman kallast stuðlar og höfuðstafir ljóðstafir.

Þegar ljóð Kristjáns er skoðað sést að ekki aðeins notar hann ljóðstafi mjög glæsilega heldur rímar hann líka. Skóg rímar við mó og gær við grær. Það er semsagt ekki nóg með að hann þurfi að gæta þess að nota aðeins orð með réttum áhersluhljóðum heldur þurfa orðin líka að ríma. Það er þetta sem er átt við þegar talað er um bundið mál eða bundinn kveðskap. Eitt orð sett inn eða tekið út og það gæti þurft að breyta öllu.

Auðvitað er engin skylda að nota ljóðstafi í ljóð. Ofstuðlun getur jafnvel orðið hálfgert listform. Í íslensku Tinnabókunum er Kolbeinn kafteinn til að mynda að mörgu leyti skrautlegri karakter en í upprunalegu útgáfunni því þýðandinn hafði svo snilldarlegt lag á að tvinna saman blótsyrði sem ofstuðluðu svo hressilega að ekki er hægt að gera annað en dást að því.


"Fari það í þúsund trilljón tryllta, tarfóða, tólgsadda, tannhvalsétandi, termítabitna túnfiska í Trékyllisvík!" 


Nútímaljóðlist hefur að mörgu leyti kastað af sér fjötrum bundins máls. Mörg skáld sjá hvorki sérstaka ástæðu til að stuðla né ríma. Og þótt þetta sé vissulega fallegt......og áreiðanlega afrek að gera vel, þá er hægt að skapa svo ótalmargt annað ef maður bara slakar aðeins á kröfunum og leyfir sér að skoða nýjar áttir.Þetta er t.d. þrælflott, skapandi og skemmtilegt. 

Sambærilegt ljóð gæti verið:

Húsið er að gráta alveg eins og ég
Það eru tár á rúðunni
sem leka svo niður veggina.
Gæsin flýgur á rúðunni
eða er hún að fljúga á auganu á mér?
Ætli húsið geti látið sig dreyma?
Ætli það fái martraðir?

(Vilborg Halldórsdóttir, Húsið og ég)


Þótt þetta ljóð sé ekki alveg laust við stuðla þá er augljóst að höfundurinn er ekki að binda sig við neinar sérstakar reglur um rím eða stuðla. Þarna er tjáningin númer eitt.

Þarna hefur orðið leysing. Gamlar hefðir og venjur losna upp og ljóðið tekur á sig nýja mynd. Sem kallar á seinna viðfangsefnið.

Hugmynd gegn handverki

Flestar listgreinar komast fyrr eða síðar á þann stað að tekist er á um það hvort skipti meira máli að gera hlutina ofsalega vel eða að gera hluti sem hafa eitthvað að segja

Skoðaðu t.d. þetta:


Og svo þetta:Hvor myndin finnst þér fallegri og betur til marks um hæfileikaríkan listmálara? Hvað værir þú til í að borga fyrir að fá svona mynd upp á vegg.

Værir þú til í að greiða allt að 12 milljónum fyrir efra verkið, vitandi það að listmálarinn er nýdáinn og mun líklega bara hækka í verði? Þú kæmist ekki heim með þetta verk fyrir mikið minni pening. En hvað værir þú til í að greiða fyrir neðri myndina? Myndina með klunnalegu pensilstrokunum af engu nema vatni og gróðri?

Myndin sú seldist nýlega á uppboði á rúmlega tíu þúsund milljónir íslenskra króna. Neðra verkið er 835 sinnum dýrara en það efra – sem samt er dýrt.

Hvernig stendur á því?Þetta er dýrasta selda málverk sögunnar. Það kostaði tæpar 35 þúsund milljón krónur. Næst dýrasta verk sögunnar er þetta (20 þúsund milljónir):


Fyrir næstum sama verð geturðu keypt þetta hér:Ef þú vilt spara eða átt bara 13,5 þúsund milljónir þá getur þú keypt þessa mynd sem Pablo Picasso málaði af kærustunni sinni:
Það þarf ekki að leita lengi að fólki sem er rammhneykslað á því að þetta teljist list og seljist dýrum dómum. Oft er sagt: „Fimm ára barn gæti málað þetta.“ Og vissulega vekur það upp áleitnar spurningar.


Hvað heldur þú t.d. að þessi mynd kosti?

Ætli hún yrði ekki nokkuð dýr. Hún er í það minnsta fræg. Þetta er ein af mörgum myndum sem voru mjög í tísku fyrir nokkrum áratugum. Þær áttu það sameginlegt að vera ekki málaðar af mönnum, heldur dýrum. Þessa mynd málaði apinn Kongó.

Og hér má skoða gallerí hjá málandi fíl.

Hugmyndin

Það má segja að mörg þessara listaverka bendi til þess að áherslan hefur verið að færast af „handverkinu“ sem slíku. Það er ekki lögð áhersla á að mynd líkist viðfangsefni sínu, heldur að hún fangi eitthvað annað – einhverja upplifun. Eitthvað sérstakt sem listamaðurinn sér og þú getur upplifað með því að skoða listaverkið. Og jafnvel þótt þú sjáir ekkert í líkingu við það sem listamaðurinn sá þá getur það verið markmið listarinnar að kalla fram í kollinn á þér einhverja spurningu. Fá þig til að velta einhverju fyrir þér.

Alveg eins er það í ljóðlist.

Það olli ekki litlu fjaðrafoki þegar skyndilega fóru að skjóta upp kollinum ljóð eins og þetta hér:


Eia!


Eia perlur! Eia gimsteinar!Eia leikurleikur í sólskiniútí skógi!Hvert fór skógurinn,kysti animónur og hló,animónur og animónurog fór að gráta?Táta,kondu táta,kondu litla nótintátaað kyssa pótintátaútí skógi!Þetta er að vísu aðeins brot – en höfundurinn er enginn annar en Halldór Laxness, eini Íslendingurnn sem hefur fengið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. 

Málið er ekki það að Halldór hafi ekki getað ort bundið. Hann gerði það líka og stundum alveg ljómandi fallega:
Málið er að listin krefst þess að hún haldi áfram að reyna að finna eitthvað nýtt, segja eitthvað nýtt, skipta einhverju máli. Það er til lítils að sitja og yrkja lítil, snotur ljóð ef ljóðin segja ekkert sem skiptir neinu máli. Eða hvað?

List og bull

En þá gæti maður spurt: Hvað er list og hvað er ekki list?

Nýlega hefur sprottið upp á Íslandi ljóðagerð sem kallast „fundið ljóð.“ Þá hefur „skáldið“ rekist á eitthvað sem hann klippir út og birtir sem ljóð – eftir sig. Er það list? Er það ljóð? Er hann skáld eða finnandi?

List er margslungið fyrirbæri. Hún getur aldrei orðið einföld því um leið og hún ætti á hættu að verða fyrirsjáanleg og skiljanleg myndu listamenn bregðast við og stinga sér til kafs.

Það er í raun og veru heillandi saga á bak við það hvers vegna pensilstrokurnar urðu groddalegar í vatnaliljuverkinu hér að ofan og af hverju Picasso málaði kærustuna sína svona. Það er líka þrælútpæld hugsun á bak við tátu sem á að kyssa dáta úti í skógi í ljóði Laxness.

Myndlistin breyttist þegar ljósmyndatæknin kom til sögunnar. Þá fóru listamenn að reyna að fanga eitthvað sem engin myndavél gæti fangað.

Hvað skyldi ljóðlistin reyna að fanga?