11.7.12

Að (mis)nota rök





Fyrir 30 þúsund árum hurfu Neanderdalsmenn af sjónarsviðinu og eftir sátu forfeður okkar, Homo sapiens sapiens. Enginn veit hvers vegna hinir kraftmiklu og hugrökku frændur okkar dóu út en vitað er að þrátt fyrir að nútímamaðurinn hafi að mörgu leyti verið líkamlega veikari þá hafði hann yfirburði þegar kom að tjáningu. Stór þáttur í því var að barki nútímamanns er mun dýpra í hálsinum en barki Neanderdalsmanna eða annarra spendýra. Það að hafa barkann þetta neðarlega í hálsinum þýðir að maðurinn hefur mun meiri stjórn á hljóðunum sem hann framleiðir. Gallinn við að hafa barkann djúpt ofan í hálsinum er hinsvegar sá að maður á mun auðveldara með að kafna. Matur og drykkur getur dottið ofan í ranga leiðslu og stíflað barkann. Neanderdalsmenn gátu, eins og flest önnur spendýr, andað á meðan þeir mötuðust eða drukku.





Ástæða þess að við köfnum ekki er sú að þótt staðsetning barkans sé vissulega „veikleiki“ þá bætum við hann upp með öflugri heilastarfsemi. Við höfum innbyggðar varnir gegn því að fara okkur að voða meðan við mötumst. Kosturinn við að geta talað bætir upp gallann við að geta kafnað.

Þetta leiddi til þess að nútímamaðurinn gat miðlað hugsunum sínum til annarra manna. Við það að skoða fornleifar kemur í ljós að forfeður okkar sóttust í ákveðna fæðu meðan Neanderdalsmenn átu það sem þeir komust yfir. Bill Bryson hefur bent á að líklega hefur nútímamaðurinn strax fyrir tugum þúsunda ára geta tjáð hugsun á borð við: „Við skulum fara að veiða dádýr. Farið þið með prik inn í skóg og fælið þau niður að árbakkanum þar sem við stöndum með spjót og stingum þau.“ Neanderdalsmenn hafi einungis ráðið við eitthvað á borð við: „Ég er svangur. Veiðum.“

Hæfni manna til að miðla hugmyndum og hugsunum er óviðjafnanleg. Meira að segja mjög lítil börn geta komið til skila upplýsingum til foreldra sinna, bæði með hljóðum og táknum. Eftir því sem maður eldist verður færnin meiri og leikni við að nota tungumálið til miðlunar sömuleiðis.

Gildrur tungumálsins


Þó ber að hafa í huga að í tungumálinu eru margvíslegar gildrur. Það er hægt að nýta veikleika til þess að leiða menn viljandi að röngum niðurstöðum. Flestir lenda oft og mörgum sinnum í því sama óvart. Við ætlum aðeins að skoða þessa áhættu hér.

Flestir sjá strax að þetta er rétt:

11 x 3 = 33

Margir sjá líka að þetta er rétt:


Færri sjá þetta sem augljóst:



Stundum segja nemendur að stærðfræði sé ofsalega flókin, þar til maður nái henni. Eftir það sé hún ofsalega einföld. Það er mikið til í því. Galileó sagði: „Það er ekkert mál að skilja þegar maður hefur uppgötvað. Vandinn er að uppgötva.“ 

Stærðfræði er tungumál. Alveg eins og íslenska eða enska. Hún fylgir stífum „málfræðireglum“ og sumt er stranglega bannað. Biðjið t.d. stærðfræðikennarann ykkar að reikna þetta dæmi og sjáið viðbrögðin:




Stærðfræði, íslenska, enska og raunar öll tungumál eru eins og smíðuð utan á samskonar beinagrind.

Þar sem stærðfræðin er bygging sem lítur einhvernveginn svona út:



Á meðan franska er:


og íslenska:


Danska er þá kannski dálítið svona:



Nema hvað hér ætlum við að taka til skoðunar grindina á bak við öll tungumál.

Satt er ekki það sama og rétt 


Til að byrja með verðum við að gera greinarmun á því hvort eitthvað sé rökrétt eða sannleikur.

Skoðaðu þessa mynd:


Skoðaðu nú tvær rökleiðslur:

Forsendur: Átta rauð epli að viðbættum tólf grænum eða blönduðum... 
Niðurstaða: ...gera tuttugu epli.

Forsendur: Níu rauð epli að viðbættum níu grænum eða blönduðum...
Niðurstaða: ...gera nítján epli.

Hvor niðurstaðan er rökrétt? Hvort er sönn (ef miðað er við myndina)?


Á myndinni eru vissulega 19 epli og því er seinni niðurstaðan sönn miðað við myndina en þar eru forsendurnar rangar og tengslin við niðurstöðuna því órökrétt. Níu epli plús önnur níu eru alls ekki nítján. Auk þess eru tíu rauð epli á myndinni en ekki níu. 

Í fyrra dæminu eru niðurstaðan rökrétt miðað við forsendurnar. En niðurstaðan er ekki sönn því verið er að lýsa mynd með 19 eplum en ekki 20.


Dæmi um órökrétta rökleiðslu (sem þó hefur hugsanlega sanna niðurstöðu) getur verið: „Ég er að segja þér það. Alltaf þegar ég fæ lélega einkunn í stærðfræði er mamma komin snemma heim úr vinnunni og ég fæ ekki að vera úti seinnipartinn. Nú fékk ég fjóra og sjáðu, þarna er bíllinn hennar mömmu. Ég er að segja þér það!“

Dæmi um rökrétta (en ósanna) fullyrðingu getur verið: „Geimverur ganga í sérstökum hlífðarbúningum þegar rignir. Nú er hellidemba og því eru geimverurnar í hlífðarbúningunum sínum.“



Hugsanavillur og rökvillur


Hugsanavillur eru eitthvað sem við gerum öll. Þekkt er dæmið af mönnunum sem kaupa gistingu yfir nótt. Hvor um sig borgar 10 evrur. Þegar þeir eru farnir upp á herbergi áttar afgreiðslumaðurinn sig á því að þeir hafa borgað 5 evrum of mikið. Hann tekur fimm evrur úr kassanum og fer til mannanna. Á leiðinni stingur hann í vasann einni evru því mennirnir geti hvort eð er ekki skipt 5 evrum í tvennt. Hann fær hvorum um sig 2 evrur. Þá hafa mennirnir greitt 8 evrur hvor fyrir herbergið og afgreiðslumaðurinn er með 1. Þeir fengu líka 2 evrur hvor til baka. Samtals gera þetta 21 evru (8 + 8 + 2 + 2 + 1). Hvaðan kom auka evran?

Þetta getur maður hugsað fram og til baka án þess að átta sig á því hvað maður hugsar vitlaust. Það er tiltölulega auðvelt að telja evrurnar öðruvísi og fá út 20 en það getur verið þrælerfitt að benda á það nákvæmlega hvað fór úrskeiðis í útskýringunni hér að ofan.

Látum það liggja milli hluta. Skoðum núna nokkrar algengar rökvillur og finnum raunveruleg dæmi um notkun þeirra:

Of fáar forsendur



Anna og Sveinbjörg eru vinkonur. Þær eru að tala saman á feisbúkk:

Anna: Nennirðu í bíó í kvöld? :)
Sveinbjörg: Ég á engan pening. :(
Anna: O, ég á ekki nóg fyrir okkur báðar :(
Sveinbjörg: Amma kemur í heimsókn á eftir. Hún gefur mér oft pening.
Anna: Hvenær kemur hún?
Sveinbjörg: Bara bráðum. Ef hún gefur mér pening þá kem ég í bíó.
Anna: Frábært!:)

Spilum nú tvennskonar framhald af sögunni. Klukkutíma seinna gerist annað tveggja:

Sveinbjörg: Ertu þarna?
Anna: Já.
Sveinbjörg: Ég kemst í bíó! :)
Anna (hugsar): Ókei, amma hennar er pottþétt komin.

eða

Sveinbjörg: Ertu þarna?
Anna: Já.
Sveinbjörg: Sorrí. Ég kemst ekki í bíó :(
Anna (hugsar): Ókei, amma hennar hefur pottþétt ekki komið.

Er hugsun Önnu rökrétt í a) annað skiptið, b) bæði eða c) hvorugt?

Svarið er c. 

Í fyrra tilfellinu getur vel verið að Sveinbjörg hafi fengið pening hjá einhverjum öðrum en ömmu sinni. Hún gæti jafnvel hafa fundið pening sem hún átti sjálf en mundi ekki eftir. Það er kannski líklegt að amma hennar hafi komið og gefið henni pening en það er alls ekki pottþétt og þar af leiðandi er ekki rökrétt að álykta að hún hljóti að hafa komið.

Í seinna tilfellinu er heldur ekki rétt að álykta að amma Sveinbjargar hafi ekki komið. Amma hennar getur vel hafa komið en sleppt því að gefa Sveinbjörgu pening. Hún gæti jafnvel hafa komið og boðið Sveinbjörgu með sér eitthvað annað. Sveinbjörg gæti líka verið upptekin við eitthvað sem hún vissi ekki af eða mundi ekki eftir þegar hún talaði við Önnu fyrr um daginn.

Við þurfum að gæta þess að það geta alltaf verið fleiri forsendur en þær sem við höfum í huga.

 Persónan skiptir ekki máli



Ein algengasta rökvilla fólks er að gefa sér að eitthvað sé satt eða ósatt vegna þess hver heldur því fram. Þannig gefa menn sér að einhver hafi rangt fyrir sér því hann sé svo mikill asni og að einhver annar hafi rétt fyrir sér því hann sé svo frábær.

Í alvöru rökræðu skiptir ekki máli hver segir hvað. Það er vitað að allir geta gert mistök og allir geta haft rétt fyrir sér. Það er innifalið í alvöru rökræðu að bera næga virðingu fyrir viðmælendum til að skoða það sem hver segir – út frá því sem sagt er en ekki því hver sagði það.

Dæmi um „neikvæða“ útgáfu af þessu er:

Ég las að atvinnuleysi hefði hækkað um 2,3% á síðasta tímabili.
Er það? Hvar?
Á AMX-vefnum.
Nú já, þú veist nú hvernig þeir eru. Þetta er pottþétt kjaftæði.

Dæmi um „jákvæða“ útgáfu af þessu er:

Ég las að það væri bara allt í rúst í Vestmannaeyjum eftir að skatturinn var hækkaður á útgerðina.
Já, er það? Hvar?
Í Mogganum.
Já, ekki lýgur Mogginn.

Það er augljóst í báðum tilfellum að það eru engin rök að hafna eða samþykkja það sem sagt er bara vegna þess að þeir sem tala saman hafa ákveðna skoðun á miðlum. Það verður alltaf að gera ráð fyrir því að AMX vefurinn kunni að segja satt og að Mogginn geti logið. Yfirleitt er lítið mál að grafast fyrir um forsendur frétta – ef menn nenna.

Það er samt alveg lygilega algengt í umræðunni á Íslandi að taka afstöðu með og á móti mönnum og málefnum. Sem er ein aðalástæða þess hve umræða og rökræða er allmennt slöpp.

Hringsönnun




Hringsönnun er það þegar maður þykist sanna eitthvað en gerir það með því að gefa sér allan tímann að það sé satt. Til er bráðskemmtilegt dæmi í sögunni af Lísu í Undralandi.

„Ef þú ferð þangað,“ sagði kötturinn „þá ferðu til Hattarans en ef þú ferð þangað ferðu til hérans ... þeir eru báðir klikkaðir.“

„En ég vil ekki vera innan um klikkaða,“ sagði Lísa.

„Ó, þú getur nú minnst gert í því,“ sagði kötturinn, „við erum öll klikkuð hérna. Ég er klikkaður og þú ert klikkuð.“

„Af hverju segirðu að ég sé klikkuð?“ spurði Lísa.

„Nú, þú hlýtur að vera það,“ sagði kötturinn, „annars hefðirðu ekki komið hingað.“

Lísu fannst þetta hreint engin sönnun. 


Enda er þetta engin sönnun. Hringsönnun getur verið ansi lúmsk en stundum er hún augljós. Skoðum annað dæmi.

Páll: Jæja, þá er maður búinn með stúdentinn frá besta og virtasta menntaskólanum. Ég er hræddur um að það verði slegist um mig í háskólunum.

Andri: Af hverju segirðu að þetta sé besti og virtasti skólinn?

Páll: Annars hefði ég ekki farið þangað.


Hringsönnun sannar ekki neitt. Hún þykist gera það en gefur sér í raun það sem sanna á strax í upphafi.

Fótfesturök



Fótfesturök eru mjög algeng. Þau draga nafn sitt af því að missa fótfestuna í brekku og renna alla leið niður. Sá sem beitir fótfesturökvillu fullyrðir að eitthvað hafi í för með sér miklu meiri eða víðtækari afleiðingar en hægt er að fallast á.

Allir þekkja einskonar útgáfu af þessari villu sem er þannig að manni er bannað eða neitað um eitthvað með þeim rökum að „þá þurfi allir að fá það sama.“ Nú má vel vera að í einhverjum tilfellum sé óréttlátt að skilja út undan en í mörgum tilfellum er svo alls ekki. 

Skoðum dæmi:

Það má ekki rétta þessum krökkum litlafingur. Þá éta þau sig upp að olnboga.

eða

Á nú enn að hækka skráningargjöldin í Háskólanum? Áður en maður veit af kostar önnin milljón!

Það er líka algengt að sjá rökvillur af þessu tagi hjá þeim sem eru mjög andvígir einhverju og vilja gera sem mest úr mögulegum afleiðingum.

Ef við hækkum álögur á útgerðina endar það þannig að fjöldi fólks missir vinnuna og flytur frá sjávarplássum. Þá hríðfellur húsnæði í verði og engin börn verða á skólaaldri og byggðin deyr út!

eða

Ég er algjörlega á móti því að múslimar fái að byggja mosku í Reykjavík. Ekki aðeins eru hryðjuverkamenn oft tengdir moskum heldur eyðileggur moskan svefnfriðinn fyrir nágrönnum með endalausu bænakalli.

Það er furðu algengt að rekast á svona málflutning. Nú er ekkert sem segir að það þurfi endilega að vera rökvilla að eitthvað hrindi af stað röð atburða – en í slíkum tilfellum þarf yfirleitt að rökstyðja hvern lið fyrir sig. Þegar félag múslima á Íslandi var spurt um hvort ástæða væri til að hafa áhyggjur af bænakalli við mosku bentu þeir á að ef þeir þyrftu að koma upplýsingum til meðlima kirkjunnar þá væri hentugra að senda sms eða nota netið en að garga það úr turni. 

Alhæfing




Alhæfingar eru furðu algengar. Þar eru stórir hópar fólks settir undir sama hatt, jafnvel heilar þjóðir. Bandaríkjamenn eru feitir, Selfyssingar skinkur og hnakkar, Breiðhyltingar fátækir, Vestfirðingar éta harðfisk, fólk sem býr í miðbænum drekkur latte-kaffi, karlar nauðga, hommar eru kvenlegir, Sjálfstæðismenn eru spilltir og fégráðugir, allir í Samfylkingunni vilja selja landið til ESB o.s.frv.

Alhæfingar eru eitt hættulegasta áróðursvopnið og nær undantekningalaust sú rökvilla sem beitt er til að fá fólk til fylgis við einhverja vitleysu. 

Hér er enginn skortur af dæmum. Skoðum nokkur:

„Allar mjólkurvörur eru gerilsneyddar hér, því Íslendingar hafa ætíð verið sóðar.“ 

Þetta skrifar bloggari og fyrrum ritstjóri um ástæðu þess að á Íslandi eru bakteríur drepnar í mjólkurvörum. 


og

 „Við sjáum að vinstri menn munu seint átta sig á sambandinu milli of hárra skatta og lækkandi tekna ríkissjóðs.“

og

„Fram að hruninu töldu ráðamenn Sjálftökuflokksins sér allt vera heimilt.“ 

„Sjálftökuflokkurinn“ er níðheiti yfir Sjálfstæðisflokkinn.

og

„Öll saga lýðveldisins sýnir, að Íslendingar eru óhæfir um að stjórna sér. Hrunið er eðlileg niðurstaða samfélags, þar sem fífl kjósa fífl til að auðvelda fíflum að stela peningum. Ekki bætir úr skák, þegar þjóðin fær í fyrsta sinn tækifæri til að kjósa persónur framhjá fjórflokknum. Þá nennir neyzlufólk bara alls ekki á kjörstað. Unga fólkið liggur uppi í sófa og étur popp. Innan við helmingur á kjörskrá nennir að uppfylla skyldur borgara í lýðræðisþjóðfélagi. Því skulum við leita á náðir Evrópu og evru. Þeim mun fyrr náum við þeirri farsælli stöðu að geta látið aðra um að stjórna okkur.“

og

„Múslimar hafa allt annan skilning á umheiminum en Vesturlandarbúar. Fólkið í þessum löndum lifir í allt öðrum heimi en við. Múslimar koma úr öðrum heimi, þetta eru tveir ólíkir heimar og það þýðir ekkert að blanda þeim saman, þeir eiga bara að fá að vera í friði hvor fyrir öðrum“

Að smitast eða bólusetjast




Okkur þætti undarlegt ef fólk kæmi fram og gargaði að víst barasta væri margfeldið af sex og sjö níutíu. Ekki síst ef viðkomandi héldi svo fast við það að hann neitaði að samþykkja rök og myndi í neyð fullyrða að þetta væri hans skoðun og hann ætti fullan rétt á sinni skoðun!

Fólk á vissulega rétt á skoðunum sínum. Þar með er ekki sagt að fólk hafi rétt á að halda hverju sem er fram eða fullyrða eitthvað bull. Ég get t.d. ekki sagt um nágrannann minn að hann sé örugglega búinn að drepa konuna sína og grafa úti í garði og að hann stundi það að veiða gæludýr í hverfinu sér til matar.

Það er munur á fullyrðingum sem byrja: „Mér finnst...“ og þeim sem byrja „Það er...“ Annarsvegar er maður að fullyrða um staðreyndir, hinsvegar um skoðun. 

Flestir reyna að styðja skoðanir sínar með staðreyndum. Þar reynir á rökræðuna. Til að rökræða virki þarf hún að vera heiðarleg en hvöss. Sá sem tekur skoðanir sínar alvarlega tekur hraustlega á þeim og hendir sjálfviljugur út því sem reynist ekki nógu gott eða rangt.



Því miður er það svo að ungt fólk í dag gengur inn í samfélag sem er satt að segja frekar lélegt þegar kemur að samræðum og rökræðum. Það er meira í ætt við kappræður eða öskurkeppni. 

Það er dálítið ákvörðun hvers og eins hvort hann hefur áhuga á að smitast af ósiðunum eða hvort hann ætlar að veita þeim viðnám.

Gagnrýnin hugsun er frábær bólusetning gegn vitleysu. Það að efast um það sem aðrir virðast gefa sér er bráðnauðsynlegt. Sá sem ekki hugsar gagnrýnið á það á hættu að smitast af ruglinu og vitleysunni án þess að taka eftir því. Þá er oft erfitt að snúa til baka.