11.7.12

Tengsl þín við tunguna verða að vera persónuleg


 


Stundum hefur verið sagt að sá sem ekki nái góðum tökum á sínu móðurmáli verði aldrei sérlega fær á öðrum málum. Víst er að margir telja sig gríðarlega góða í erlendum málum, sérstaklega ensku. En sú færni er oft lítið annað en tiltölulega mikill orðaforði miðað við útlending. Færnin er ekki endilega fólgin í því að maður geti hugsað frjálslega og skapandi á ensku jafnt sem íslensku. 

Stephen Fry, leikari með öðru, er m.a. þekktur fyrir gríðarlega hæfni til tjáningar á ensku. Hann býr yfir miklum orðaforða og leikni í að raða orðum saman á fjölbreyttan hátt. Hann hefur stundum lýst því augnabliki þar sem hann féll fyrir tungumálinu. Hann var að horfa á sjónvarpsleikrit eftir Oscar Wilde og þar kom fyrir hendingin:

Would you be in any way offended if I said that you seem to me to be the visible personification of absolute perfection?

Fry var 10 ára eða þar um bil og féll í stafi. Í raun og veru er illmögulegt að þýða þetta yfir á íslensku en það var eitthvað við hljóminn og inntakið sem fékk þennan unga dreng til að horfa allt öðrum augum á tungumálið en áður – sem síðan leiddi til þess að hann varð frábær hugsuður og listamaður. Oft er það einmitt svona. Ein og ein hending hittir einhvern í hjartað. Oft þannig að aðrir geta lesið eða heyrt það sama án þess að verða fyrir sömu áhrifum.

Í Kaupmannahöfn voru einu sinni ung, íslensk skáld að lesa ljóðin sín fyrir landa sinn sem var virtur prófessor. Vafalítið var þetta misgott hjá skáldunum en einn þeirra, nýliðinn í hópnum, las ljóð sem heitir Komdu. Á einum stað í ljóðinu tók prófessorinn viðbragð. Það var eitthvað sem hitti í mark. Það voru þessar tvær línur:


 Ekki skal það kvelja þig skóhljóðið mitt;
 ég skal ganga berfætt um blessað húsið þitt. 

Hvað það var sem heillaði prófessorinn er erfitt að vita. Kannski eitthvað sem tengdist einhverju sem hann hafði upplifað eða hugsað áður. Hver veit?

Nema hvað, hrós prófessorsins varð skáldinu mikil hvatning til áframhaldandi afreka. Sem varð á endanum eitt af þjóðskáldunum.

Tengsl tungumáls við manneskju eru alltaf persónuleg. Margir hugsa ekkert um þau tengsl og rækta þau ekki. Nota tungumálið sem tæki til að komast af. Kunna ákveðinn grunn og ekkert annað. Hugsa jafnvel ekkert um þennan grunn. Prófið t.d. að fara út í búð. Hversu mörg orð ætli fari á milli manna við venjuleg viðskipti. Ætli það sé mikið meira en:

Góðan dag.
Góðan dag.
bíp - bíp - bíp...
Má bjóða þér poka.
Já, takk. Tvo.
Það eru fimmþúsund eitthundrað og fimmtíu.
Gjörðu svo vel.
Viltu afritið?
Nei, takk.
Takk fyrir og góða helgi.
Góða helgi.

Þessum samskiptum lýkur svo oftast á því að viðskiptavininum er boðið „afritið.“ Skiptir þá engu hvort hann borgaði með korti eða peningum. Samt sem áður getur viðskiptavinur sem borgar með peningum ekki fengið neitt „afrit.“ Afritið er þitt eintak af undirskrift þinni ef þú greiðir með korti. Það sem allir eiga að fá er „kassakvittun“ eða bara „kvittun.“ Af einhverjum ástæðum hefur afgreiðslufólk hætt að kalla kvittunina kvittun (eða „strimil“ eins og hún er stundum kölluð) og kallar hana bara afrit líka.

Ef tæknin væri ekki á hraðleið með að útrýma öllum pappír úr viðskiptum hlýtur að teljast líklegt að þar hefði komið að mistök afgreiðslufólks breyttu tungumálinu og „kvittun“ og „afrit“ yrðu samheiti.

Þannig virkar tungumálið stundum.